Yfirlýstir góðvinir kvenvinnuaflsins viðhalda viðbjóðslegri láglaunastefnu

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Síðasta greinin sem ég skrifaði meðan ég var enn formaður Eflingar, aðeins örfáum dögum áður en ég hraktist úr embætti vegna ofstækisfullra árása og ósannra ásakanna í minn garð, birtist á Kjarnanum 26. október síðastliðinn, á Kvennafrídaginn. Greinin var (auðvitað) lofgjörð til ómissandi láglaunakvenna í umönnunarstörfum en ástæðan fyrir því að ég skrifaði hana var þó fyrst og fremst grein formanns BHM, birt þennan sama Kvennafrídags-morgun, um samfélagslegt mikilvægi þess að hefðbundin kvennastörf yrðu metin upp á nýtt.

Ég las grein formanns BHM stuttu eftir að ég var komin á fætur og fann mig knúna til að bregðast við, vegna þeirra augljósu þversagna sem málflutningur hans innihélt. Í grein minni benti ég á að ætti það að gerast sem formaður BHM taldi þennan morgun einstaklega mikilvægt verkefni, að hefðbundin kvennastörf yrðu “endurmetin” í efnahagslegum skilningi svo að það viðgengist ekki lengur á jafnréttiseyjunni að þau væru kerfisbundið metin verðminni en önnur störf, væri árangursríkast að fara leið Eflingar; ráðast í sérstakar aðgerðir til að leiðrétta sögulega vanmetin kvennastörf með sérstakri hækkun.

Aðferðafræði okkar um krónutöluhækkanir og svo sérstaka leiðréttingu til viðbótar skilaði Eflingar-konum borgarinnar raunverulegum árangri, útreiknuðum og skjalfestum af kjaratölfræðinefnd; enginn hópur fékk ríflegri prósentuhækkun en þær í síðustu kjaralotu svokallaðri. Ég sagði að í stað þess að fara í óljóst verkefni um meta “mjúku” kvennakostina og skipa nefnd og kokka upp “meðferð” o.s.frv., væri lang árangursríkast að taka stéttanálgunina á vandann; vegna kynskiptingar íslensks vinnumarkaðar væri einfaldasta lausnin sú besta, væri fólki á annað borð alvara með að vilja laga kjör kvenna í kvennastörfum: Borgið þeim einfaldlega hærri laun.

Ég benti einnig á það ósamræmi sem væri að finna í nálgun formanns BHM. Ofuráhersla hans á að meta menntun til launa myndi augljóslega hafa þær afleiðingar að ómenntuðu konurnar í mýkstu kvennastörfunum, þær sem vinna með börnum og gömlu fólki, konurnar sem samræmd kúgun arðránskerfisins og feðraveldisins hefur dæmt til að dvelja neðst í efnahagslegu stigveldi hins stéttskipta samfélags þrátt fyrir óumdeilanlegt þjóðhagslegt mikilvægi, yrðu áfram fastar í kjallaranum. Að bæta kjör þeirra skilar mestum árangri í að takast á við hið “skakka” verðmætamat sem var formanninum svo hugleikið.

Semsagt, þversagnirnar fannst mér augljósar og satt best að segja óþolandi, og þessvegna fannst mér mikilvægt að benda á þær.

Í morgun las ég svo viðtal við formann BHM í Innherja sem er viðskipta-hluti Vísis. Þar segir hann algjörlega afdráttarlaust að framvegis komi ekki til greina fyrir meðlimi BHM að semja um krónutöluhækkanir. Hann segir að of lítill munur sé á launum menntaðra og ómenntaðra (þrátt fyrir að nú þegar sé tíma­kaup háskóla­mennt­aðra karla 112% hærra en tíma­kaup grunn­skóla­mennt­aðra kvenna og mun­ur­inn á reglu­legum heild­ar­launum full­vinn­andi verka­kvenna og karl­kyns stjórn­enda um 156%). Áður hefur formaður BHM sagt í viðtali að hann sé fyrir ójöfnuði í tekjum.

Leið krónutöluhækkana sem farin var í síðustu samningum og sem skilaði raunverulegum árangri fyrir láglaunafólk (mestum fyrir konur og aðflutt verkafólk) er ekki í boði hjá formanni BHM. Hversvegna? Jú, einfaldlega vegna þess að hún vinnur GEGN efnhagslegum ójöfnuði. Það er raunverulega ekkert flóknara en það.

Staðreyndin er sú að þau orð sem formaður BHM birti á kvennafrídaginn síðasta og ég fann mig knúna til að svara (eitt af mínum síðustu “embættisverkum”, þó að ég vissi það auðvitað ekki þann sunnudagsmorgun), voru innantóm. Bara upp á punt. Nálgun og aðferðafræði formanns BHM gerir það að verkum að möguleikinn á að ráðast raunverulega og markvisst í að uppræta þá þjóðfélagslegu skömm sem ofur-arðránið á konum í hefðbundnum kvennastörfum er, er ekki mögulegur. Nálgun og aðferðafræði formanns BHM tryggir að ómenntuðu konurnar, ómissandi umönnunar-vinnuafl okkar samfélags, munu halda áfram að vinna sín ómissandi handtök fyrir sömu kvenfyrirlitningar-skíta-launin.

Og menn eiga að horfast í augu við og viðurkenna þá einföldu staðreynd. Menn geta ekki fengið að vera yfirlýstir góðvinir kvenvinnuaflsins og á sama tíma viljugir þátttakendur í að viðhalda viðbjóðslegri láglaunastefnu sem bitnar verst á konum í kvennastörfum. Það er einfaldlega ekki í boði.

Höfundur er fyrrverandi formaður Eflingar

Ekki missa af...