Virkilega illt í efni!

Björn Birgisson skrifar:

Í umræðum sem spunnust fyrir þremur árum í framhaldi af sérlega heimskulegu upphlaupi Sjalla í minnihluta hjá borginni um lántöku Orkuveitunnar – sem þeir sögðu til komna til að greiða eigendum fyrirtækisins arð – sem var einkar langsóttur þvættingur eins og svo margt úr herbúðum rógberanna um þær mundir – hrutu þessi skrif af lyklaborðinu sem Sveinn Egill Úlfarsson notar – en Sveinn var þá einn af ötulustu pennum Sjalla á Facebook.

„Ææ, Guðmundur (Ingólfsson), hatur þitt á XD blindar þig alveg í vitrænum umræðum …Kommar og Sossar kunna bara ekkert með almannafé að fara hvorki fyrr né nú, það sanna dæmin og reynslan ……”

Þetta stef er hreint ekki nýtt – en heyrist sjaldnar í seinni tíð – eftir „stórsigra“ Sjalla á fjármálasviðinu á undanförnum árum.

Það er kannski alveg rétt að „Kommar og Sossar“ kunni lítið með almannafé að fara, en í orðunum liggur að Sjallar séu miklu betur til þess fallnir!

Tvö frekar nýleg dæmi um þá yfirburði!

Hið fyrra:

Sjallar settu Reykjanesbæ svo hressilega á hausinn að ef finna á einhverja þokkalega samlíkingu væri hún hvernig frjálshyggjan – átrúnaður Sjalla – setti Ísland á hausinn haustið 2008.

Þetta eru vitanlega fimm stjörnur (*****) í ferilskrá flokksins fjármálavísa!

Hið síðara:

Þegar Sjöllum gafst færi á að skipa fjármálaráðherra úr sínum röðum við síðustu stjórnarmyndun kom þeim enginn annar í hug en Bjarni nokkur Benediktsson.

Aldeilis eitursnjall fjármálamaður!

Ekki með nema um 130 milljarða afskriftaslóð í ferilskránni – meira segja sumir – og nokkur gjaldþrot í baksýnisspeglinum.

Já, það er virkilega illt í efni.

Kommar og Sossar kunna lítið sem ekkert með fjármuni að fara og Sjallar enn minna – sem er þó visst afrek í aulahætti út af fyrir sig!

Þjóð sem kýs svona snillinga yfir sig á ekkert betra skilið en að súpa seyðið af „fjármálasnilld“ þeirra.

Fyndið að heyra þetta heilafúna lið hælast um af eigin snilligáfu – þrátt fyrir að reykur áfallanna af þeirra völdum sé varla sestur.

Vér eplin sagði hrossataðið forðum – dró djúpt andann og andaði að sér eigin skítalykt!

Höfundur er kennari og fyrrverandi ritstjóri.

Ekki missa af...