„Við vonum að umræðurnar verði til þess að fólk sjái hlutina í nýju ljósi“

Pallborðsumræður á vegum Reykjavík Feminist Film Festival verða haldnar á morgun, laugardaginn 15. janúar. Upphaflega átti að halda hátíðina frá 12. janúar og fram yfir helgi en breyta þurfti fyrirkomulaginu sökum sóttvarnatakmarkana.

„Okkur fannst það að fresta hátíðinni vera það eina rétta í stöðunni. Okkur finnst mikilvægt að fleiri geti komið saman og notið þess sem við ætlum að bjóða upp á,“ segir Sólrún Freyja Sen verkefnastjóri hjá RFFF.

Þrjár kvikmyndagerðarkonur eru komnar hingað til lands, leikstýrurnar Natalija Avramovic frá Serbíu, Sol Berruezo Pichon Riviére frá Argentínu og Uisenma Borchu frá Þýskalandi og Mongólíu. Þær munu sitja við pallborð ásamt Ísold Uggadóttur, Magneu B. Valdimarsdóttur og Helgu Rakel Rafnsdóttur.

UPPHAFLEGA BOÐIÐ AÐ SÝNA MYNDIR SÍNAR

Sólrún Freyja Sen telur það mikilvægt að fleiri geti komið saman og notið þess sem hátíðin hefur upp á að bjóða.

„Við vorum búnar að bjóða Nataliju, Sol og Uisenmu að koma á hátíðina og svara spurningum eftir sýningu kvikmynda sinna,“ segir Sólrún Freyja. Þegar samkomutakmarkanir gerðu út um þær áætlanir var þeim samt sem áður boðið til landsins og fyrirkomulaginu breytt í pallborðsumræður.

Vegna samkomutakmarkanna geta áhorfendur ekki komið og fylgst með en umræðurnar verða teknar upp og streymt á öllum helstu miðlum hátíðarinnar.

„Við vonum að þátttakendur pallborðana og áhorfendurnir heima geti gert sér glaðan dag á laugardaginn,“ segir Sólrún Freyja. „Við vonum að umræðurnar verði til þess að fólk sjái hlutina í nýju ljósi eða veki allavega til umhugsunar.“

Umræðurnar hefjast klukkan 12 að hádegi.

Eftir hálftíma hlé munu kvenkyns framleiðendur ræða áskoranir í kvikmyndagerð vegna heimsfaraldursins. Þær sem ræða saman verða Sara Nassim, framleiðandi Dýrsins, Kidda Rokk frá Polorama og Ragnheiður Erlingsdóttir, framkvæmdastjóri Zik Sak.

YNGSTA LEIKSTÝRAN Á BERLINALE

Natalia Avramovic hefur lengi stundað kvikmyndagerð, þá helst heimildarmyndir. Nýjasta mynd hennar, Prolecna Pesma, fjallar um einstæða móður í leit að frelsi.

Sol Berruezo Pichon Riviére er 25 ára gömul. Myndin Mama mama mama er hennar fyrsta leikstjórnarverkefni, en framleiðsluteymi myndarinnar er að langstærstum meirihluta skipað konum, bæði fyrir framan og aftan myndavél. Myndin var frumsýnd á Berlinale hátíðinni árið 2020, þar var hún yngsti leikstjórinn.

Uisenma Borchu fæddist í Mongólíu en fluttist snemma til Þýskalands. Don’t Look at me That Way er útskrifarmynd hennar úr Háskólanum í Munich.

Þegar slakað hefur verið á samkomutakmörkunum geta hátíðargestir séð ofannefndar kvikmyndir.

Ekki missa af...