Umhverfismál til Sjálfstæðismanna og heilbrigðismál til Framsóknar

Ráðherrar nýrrar ríkisstjórnar skrifuðu undir stjórnarsáttmála á Kjarvalsstöðum í dag. Ráðuneytin breyttust talsvert frá síðasta kjörtímabili þrátt fyrir að mikill meirihluti ráðherra voru í síðustu ríkisstjórn.

Helstu breytingarnar eru ef til vill þær að Vinstri Græn gefa frá sér umhverfis- og heilbrigðisráðuneytið. Hið fyrra fer til Sjálfstæðisflokksins en Framsókn fær heilbrigðismálin. Vinstri Græn halda þó forsætisráðuneytinu. Framsókn heldur að öðru leyti sínum ráðuneytum, með fáeinum breytingum. Sjálfstæðismenn halda í dómsmála-, fjármála og utanríkisráðuneytin.

Ráðuneytum fjölgar um eitt og verða tólf talsins. Fimm fara til Sjálfstæðismanna, fjögur til Framsóknar og þrjú til Vinstri Grænna.

Kynjaskipting er sjö karlar og fimm konur. Á miðju kjörtímabili verða hlutföllin jöfn, þar sem annar innanríkisráðherra tekur við.

Einnig verður Birgir Ármansson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, forseti Alþingis. Þingmenn eiga vissulega eftir að kjósa um það en ekki eru miklar líkur á að sú tillaga verði felld.

Willum Þór er annar tveggja nýrra ráðherra

NÝR FRAMSÓKNARMAÐUR Í RÁÐHERRASTÓL

Það þótti nokkuð líklegt að Willum Þór Þórsson, þingmaður Framsóknar, fengi ráðherrastól á nýju kjörtímabili. Það voru ef til vill ekki margir sem giskuðu á að hann myndi verða ráðherra heilbrigðismála. Það ráðuneyti verður óbreytt.

Willum hefur átt farsælan feril sem fótboltaþjálfari og var fyrst kjörinn á þing árið 2013.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, tekur við nýju ráðuneyti innviða. Hann var áður samgöngu- og sveitastjórnarráðherra en breytingin er sú að við bætast skipulagsmál frá umhverfisráðuneyti og húsnæðismál frá félagsmálaráðuneytinu.

Það tengist næsta ráðherra, því Ásmundur Einar Daðason tekur við nýju ráðuneyti skóla- og barnamála. Hann var áður félags- og barnamálaráðherra.

Lilja Alfreðsdóttir tekur við nýju ráðuneyti viðskipta- og menningarmála. Menntamálunum er skipt upp, Ásmundur Einar tekur við hluta og önnur málefni menntamála fara til annarra ráðuneyta.

MIKLAR OG LITLAR BREYTINGAR HJÁ VINSTRI GRÆNUM

Það kennir ýmissa grasa hjá Vinstri Grænum. Það ber helst að nefna að Vinstri Græn láta frá sér bæði umhverfis- og heilbrigðismál. Katrín Jakobsdóttir heldur forsætisráðuneytinu en bæði Svandís Svavarsdóttir og Guðmundur Ingi Guðbrandsson skipta um starf.

Guðmundir Ingi tekur við hluta af ráðuneyti Ásmunds Einars og verður félags- og vinnumarkaðsráðherra. Hann var utanþingsráðherra á síðasta kjörtímabili sem umhverfisráðherra, enda umhverfisfræðingur að mennt og framkvæmdastjóri Landverndar frá 2011 til 2017.

Svandís Svavarsdóttir verður sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Síðasti ráðherra Vinstri Grænna til að sitja í þeim stól var Steingrímur J. Sigfússon árið 2013.

UPPSTOKKUN MENNTAMÁLA OG STÓR RÁÐUNEYTI EFTIR

Guðlaugur Þór tekur við umhverfisráðuneytinu

Ráðuneytin fimm sem eftir eru skiptast á milli Sjálfstæðismanna. Formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, verður áfram fjármálaráðherra.

Utanríkisráðuneytið verður áfram innan flokksins, en í stað Guðlaugs Þórs Þórðarsonar er það Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir sem tekur við lyklunum.

Hennar gamla ráðuneyti breytist aðeins, í stað ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarmála verður nýtt ráðuneyti í höndum Áslaugar Örnu Sigubjörnsdóttur. Það mun verða ráðuneyti nýsköpunar, iðnaðar og háskóla.

Innanríkisráðuneytið, áður þekkt sem dómsmálaráðuneytið, verður í höndum Jóns Gunnarssonar en Guðrún Hafsteinsdóttir mun taka við á miðju kjörtímabili.

Síðast en ekki síst er það umhverfis- og loftslagsmálaráðuneytið sem Guðlaugur Þór Þórðarson tekur við. Sjálfstæðisflokkurinn fékk 21 stig af 100 mögulegum í einkunnagjöf Ungra umhverfissinna í aðdraganda kosninganna. Hvorki voru skammtíma- né langtímamarkmið tíunduð í loforðum flokksins.

Ekki missa af...