Tvídrangar með mömmu gaf tóninn: „Rótgróið í mér sem kvikmyndagerðarmaður“

„Mín tímamót sem kvikmyndagerðarmaður er þegar ég sé Twin Peaks,“ segir Baldvin Z í fyrsta þætti Sandkorns, þar sem þáttaröðin Svörtu Sandar er rædd. Meðstjórnandi er Tómas Valgeirsson.

Svörtu Sandar fóru í gang á jóladag á Stöð 2. Baldvin Z leikstýrir og skrifar handrit ásamt Aldísi Amah Hamilton, Ragnari Jónssyni og Andra Óttarssyni. Aldís Amah fer einnig með aðalhlutverkið.

Fyrstu tveir þættirnir hafa vakið athygli, meðal annars fyrir raunhæfa birtingarmynd af störfum lögreglu, leik og samtöl.

Í Sandkorni grandskoða Baldvin og Tómas hvern og einn þátt fyrir sig. Þeir skoða framvindu sögunnar, persónurnar og ýmis konar þemu. Leikstjórinn deilir einnig sögur úr persónulega lífinu og hvernig hinir ólíklegustu hlutir tvinnast saman; til að mynda áhrif þess að hafa horft á og notið sjónvarpsþáttanna Twin Peaks (e. Tvídrangar) með móður sinni. Hafði þetta verið bæði mótandi sería fyrir feril Baldvins og markaði ljúfsára minningu í garð móðurinnar.

Þá kemur upp spurningin um hversu sterk áhrif Tvídranga yfirgnæfa Svörtu sanda.


Trúarbragði líkast

„Ef það er eitthvað sem ég ætla sterklega að gera ráð fyrir eftir að hafa horft á fyrsta þáttinn, þú hlýtur að hafa verið Twin Peaks maður,“ spurði Tómas í byrjun.

„Það er þannig. Ég horfði á Twin Peaks mjög svona bara „religiously“ þegar ég var ellefu ára gamall á Stöð tvö með mömmu minni,“ segir Baldvin. „Þetta er nefnilega þetta er eitt það síðasta sem ég gerði með mömmu áður en mamma dó, það var að horfa á þessa sjónvarpsseríu og finna fyrir “Heyrðu, þetta það sem ég ætla að gera”. Þetta er geðveikt!“

Hann segir allt sem tengist Twin Peaks vera rótgróið í sér sem kvikmyndagerðarmanni.

„Verandi frá Akureyri, þú hlýtur að upplifa þig svolítið svona milli tindana,“ spyr þá Tómas.

„Já, Twin Peaks var þýtt sem Tvídrangar og fyrsta stuttmyndin mín hét Hraundrangar. Sem eru í Öxnadal, einhverjir rosa djarfir tindar. En stuttmyndin mín var sem sagt svona innblásin af Twin Peaks. Það voru dvergar og það voru tröll og það voru gátur og eitthvað þetta á fjörutíu og fimm mínútna mynd sem meikar ekkert sens.“

Baldvin segist bara hafa verið ellefu ára gamall þegar hann gerði þessa fyrstu stuttmynd sína. Andrúmsloftið í Tvídröngum var honum alltaf ofarlega í huga. „Hvenær get ég gert eitthvað þannig?“

Fyrstu tveir þættirnir eru aðgengilegir á Stöð 2 og þriðji þáttur er sýndur sunnudaginn 2. janúar.

Sandkorn er hlaðvarp á vegum 24 sem fylgir hverjum og einum þætti. Það er aðgengilegt á Spotify, öllum helstu hlaðvarpsveitum og YouTube.

Ekki missa af...