Tíu tíma leit að þremur börnum

Sunnudaginn 14. júlí árið 1963 var gerð víðtæk leit að þremur ungum börnum sem höfðu týnst í Þingvallasveit. Eftir tíu tíma leit fundust þau á eyðibýli, furðu brött en yngsta stúlkan orðin hrædd og grátandi.

Illa búin og kalt í veðri

Börnin þrjú voru Sigfús Kristinsson, níu ára, Birgir Ragnarsson, sex ára og Anna Másdóttir, fimm ára. Drengirnir voru búsettir bænum Brúsastöðum í Þingvallasveit en Anna gestkomandi þar á bæ. Um þrjúleytið var tekið eftir því að börnin væru ekki á bænum og um fjögurleytið hófst skipuleg leit að þeim og bættust sífellt fleiri leitarmenn við.

Kalt var í veðri þennan dag, miðað við árstíma, og börnin þrjú illa búin til langrar útiveru. Drengirnir voru aðeins í peysum og Anna berleggjuð í stuttu pilsi. Leitin beindist að Stíflisdal, sem var í eyði, en annar drengurinn hafði sagt frá því að hann langaði að fara þangað til að hitta Jóhann frænda sinn sem var þar að slá. Leitað var í dalnum milli klukkan átta og níu um kvöldið og þegar þau fundust ekki þar var leitarfólk orðið mjög hrætt um þau.

Um klukkan tíu var haft samband við Lögregluna í Reykjavík og skömmu síðar komu hjálparsveitir skátanna til að aðstoða við leitina og þyrla frá varnarliðinu sem stödd var á Þingvöllum.

Hélt að þau væru að fara að kaupa nammi

Klukkan eitt um nóttina fann áðurnefndur Jóhann, föðurbróðir drengjanna, börnin loksins í Stíflisdal. Földu þau sig fyrst bak við olíugeymi þegar Jóhann kom keyrandi en komu síðan hlaupandi þegar þau sáu hann. Urðu þá miklir fagnaðarfundir og léttir hjá öllum sem tóku þátt í leitinni.

Börnin voru „kát og hress og voru drengirnir hinir ánægðustu með skemmtiferðina“ eins og sagði í Tímanum 15. júlí. En þó að drengirnir hefðu verið brattir þá var Önnu litlu hætt að standa á sama og grátandi þegar Jóhann kom að. Hún hélt að drengirnir ætluðu að fara með hana til Þingvalla að kaupa sælgæti og skildi því ekkert í því hversu langan tíma ferðalagið tók. Var hún orðin mjög þreytt og blaut í fæturna eftir tíu tíma göngu.

Tveggja klukkutíma ganga er á milli Brúsastaða og Stíflisdals, ef farið er beinustu leið en börnin voru nýkomin í dalinn þegar Jóhann fann þau. Þau höfðu því villst verulega af leið og því hefði getað farið illa.

Þegar blaðamenn komu að bænum daginn eftir var hinn níu ára Sigfús strax farinn í heyskap með Jóhanni frænda sínum. Hann hafði stýrt þessum mikla leiðangri. Hann sagði að fyrst hefðu þau gengið eftir veginum en síðan símastrengnum. Annað slagið hefði hann þurft að bera Önnu litlu þar sem hún var orðin svo þreytt.

Hver leynist undir brúnni?

Hver leynist undir brúnni?

Engar hryllingssögur

Birtu bara bréfin Drífa

Lífið í miðjunni

Ekki missa af...