„Til hvers að vera „sexý“ ef það má enginn „bíta á agnið?“

Ímyndið ykkur kaffihús. Öll borðin eru þétt setin og málefni líðandi stundar rædd. Í horninu er lokað herbergi þar sem tíu karlmenn sitja við borð. Herbergið er einangrað frá öðrum kaffihúsagestum sem sjá ekki hverjir fara inn og út. Þau heyra því ekki það sem mennirnir láta úr sér. 

„Vandamálið er að strákar í dag eiga að hegða sér eins og stelpur,“ segir einn þeirra og fær sér sopa af kaffinu. „Er búið að nauðga þessu fjósi tvisvar?“ segir annar fastagestur um viðtal sem er á forsíðu blaðs á borðinu, þar sem þolandi kynferðisofbeldis deilir sögu sinni. Svo sýnir hann öðrum við borðið óviðeigandi grínmyndir á símanum sínum. „Þetta eru geðsjúkar drullukuntur,“ segir annar og uppsker hlátur annarra karla. „Til hvers að vera „sexý“ ef það má enginn „bíta á agnið?“ segir svo einn og allir hrista hausinn.

Ef til vill eru þetta fjarstæðukenndar aðstæður en þetta eru aðeins fáein dæmi um raunverulegar athugasemdir sem hafa fallið í lokaða Facebook hópnum Karlmennskuspjallið. Í hópnum stunda rúmlega 700 karlmenn orðræðu sem einkennist mikið af fyrrgreindum athugasemdum. Konur eru lítillækkaðar og samskipti kynjanna sýnd í staðalmyndum. 

Samkvæmt umræðum á hópnum er femínismi óvinur samfélagsins. Þolendur kynferðisofbeldis hafa ávallt önnur markmið en að leita réttar síns. Konur og femínistar vilja ekki jafnrétti, heldur sérstök réttindi um fram karla. Í lýsingu hópsins er sagt að umræðan verði að vera uppbyggileg. Athugasemdir meðlima brjóta þessa reglu nokkuð oft og eru þeir aldrei áminntir um það. Stjórnendur hópsins eru sex talsins og sumir þeirra brjóta þessa reglu sjálfir. 

Orðræðan er djúpt rótuð í andfemínisma og vantrausti til kvenna. Þetta kemur heim og saman við öfgakenndari umræðu sem er stunduð af ýmsum hópum kvenhatara, þar á meðal þeirra sem kalla sig incels. Meðlimir tala ötullega gegn tilvist feðraveldisins, mótmæla byltingunni sem varð til með myllumerkinu MeToo, hæðast að reynslusögum kvenkyns þolenda kynferðisofbeldis ásamt því að deila sín á milli myndum af bílum, flugvélum og annars konar verkfræðiundrum. Að minnsta kosti einn virkur meðlimur hópsins býður sig fram til Alþingis í haust.

„Hún er andlegur nauðgari og níðingur, það er bersýnilegt“

Eitt algengasta þema hópsins eru umræður um þolendur kynferðisofbeldis. Í einu tilfelli deilir einn tveggja ára gömlu viðtali Stundarinnar við Brynhildi Yrsu Valkyrju. Í viðtalinu lýsir Brynhildur kynferðislegri misnotkun í æsku ásamt því að hafa verið nauðgað eftir Tinder-stefnumót á fullorðinsárum.

Sá sem deilir viðtalinu veltir fyrir sér málinu í samhengi við ásakanir á hendur Ingó Veðurguðs, en mál hans var að ná hámarki á þessum tíma. 

„Í sambandi við Ingó veðurguð. Hafið þið lesið sögurnar um hann? Þurfa sögurnar ekki að vera trúverðugar til að trúa? Að mínu mati virðast margar sögurnar mjög reifarakenndar og engu líkara en að sama manneskjan skrifi þær margar. Þær minna mig margar á eina sögu sem ég las á Stundinni fyrir tveim árum síðan. Þessi valkyrja er í forsvari fyrir Öfgar. Ég mana ykkur til að lesa þessa grein til enda og lesa svo yfir sögurnar um ásakanirnar á Ingo.“


Þetta er brot úr lengri umfjöllun.

Ekki missa af...