Þórdís lét drauminn rætast 45 ára: „Það er aldrei of seint“

Þórdís Gísladóttir rithöfundur er meðal þeirra 236 sem fengu listamannalaun úthlutuð í ár. Launin hafa verið vinsælt þrætuepli um árabil enn launin voru hækkuð og eru nú 490.920 krónur á mánuði. Þórdís á fleyg orð á Facebook af þessu tilefni. Hún byrjaði nokkuð seint á ævinni að skrifa bækur, sem því miður er ekki svo óalgengt meðal kvenna. Hún segir aldrei of seint að prófa eitthvað nýtt.

„Í gær var tilkynnt hvaða listafólk hljóti listamannalaun í ár. Ég er í þeirra hópi og er óendanlega þakklát. Mér finnst ég ekki eiga neinn sérstakan rétt á þessum launum umfram aðra listamenn en þessi starfslaun skipta mig öllu, því öfugt við það sem margt (ríkt) fólk segir þá skipta peningar máli, þeir veita fólki nauðsynjar og einnig tíma og frelsi,“ skrifar Þórdís.

Hún segir ýmsu bulli fleygt fram í umræðunni um launin. „Mér finnst margt fólk býsna óragt við að tjá sig um listamannalaun og fullyrða hitt og þetta um störf úthlutunarnefnda, umsóknarferli og úthlutanir. Sumt eru mjög vafasamar fullyrðingar eða hreint bull, en annað ágætar skoðanir. Ég var að lesa einhverja statusa og fréttir í morgun og fór þá auðvitað að tengja þau skrif við sjálfa mig. Þess vegna langar mig að leggja nokkur persónuleg orð til málanna,“ segir Þórdís.

„Ég fékk fyrstu bók gefna út þegar ég var 45 ára (þetta er ekkert sérstakt met og mjög auðvelt að finna konur sem byrjuðu seint, jafnvel miklu seinna á ævinni, að skrifa og gefa út bækur eða búa til önnur listaverk) og mín fyrstu 3ja mánaða listamannalaun fékk ég 49 ára. Mig langar bara að eftirfarandi komi fram og peppi kannski einhver: Það er aldrei of seint að prófa eitthvað nýtt. Ef ykkur langar að flytja í annað hús, jafnvel í öðru landi eða landshluta, læra að spila á flautu, reikna, synda, elda, rækta blóm, fara út að hlaupa eða læra að meta nýja tónlist þá er aldur engin fyrirstaða.“

Hún segir einnig aldrei of seint að hætta að kjósa ákveðna ónefnda flokka. „Það má líka, óháð aldri, skipta um skoðun og hætta að kjósa einhvern flokk (eða bakka út úr einhverju rugli, svona ef út í það er farið) nú eða skrifa bók. Og sem sagt: Stjórnmálamenn sem standa við bakið á listamönnum eru gott fólk og ég er full þakklætis fyrir listamannalaunin sem gera mér kleift að halda áfram að skrifa,“ skrifar Þórdís og lætur myndina hér fyrir neðan fylgja en um hana segir Þórdís:

„P.S. Myndin sem birtist með þessari færslu mun verða í næstu bók minni. Hún kemur út með vorinu og myndina teiknaði Þórarinn M. Baldursson, sem fær í ár listamannalaun í flokki tónlistarflytjenda.“

Ekki missa af...