ÞETTA VITA ALLIR

Eftir Brynjar Níelsson

Stofnandi Viðreisnar, Benedikt Jóhannesson, gerir upp árið í stjórnmálum í löngum pistli á Kjarnanum. Hann byrjar pistilinn á því að segja að stjórnmálamenn í dag líti betur út í fjarska en í nánd. Hélt ég þá að pistillinn væri helgaður mér. Svo gott var það nú ekki heldur var hann að segja að stjórnmálunum hafi heldur hrakað og stjórnmálamenn nú til dags hefðu ekki sömu gáfur og elegans og áður. Einhver gæti haldið því fram að þetta væri spark í punginn á femínistum.

LEIÐIN TIL GLÖTUNAR

Það situr enn í Bensa að „frjálslynda miðjan“, sem hann og Kjarninn segja vera Viðreisn, Samfylkingu og Pírata, hafi verið hafnað í kosningunum.

Honum finnst greinilega kjósendur í dag ekki vera síður heimskir en stjórnmálamennirnir. Það er nú samt svo, Bensi minn, að uppistaðan í Samfylkingunni og Pírötum eru vinstri róttæklingar sem trúa að sósíalisminn sé leiðin að réttlátu velferðarsamfélagi.

Þeir eru að vísu hættir að tala um að þjóðnýta atvinnulífið en telja engu að síður rétt að ríkið sé með það meira og minna á herðunum því allt þar telst nú til dags til mikilvægra innviða. Þess vegna á ríki eða sveitarfélög að eiga öll orkufyrirtæki, samgöngufyrirtæki, flugvelli og flugstöðvar og helst útgerðir svo aðrir séu ekki að græða á auðlindinni okkar.

Ég hélt að svona gáfaður maður, og Bensi er, vissi að þessi hugmyndafræði er leiðin til glötunar nú sem áður.

MISSA TRÚVERÐUGLEIKA

Það sem Viðreisn á sameiginlegt með hinum flokkunum í „frjálslyndu miðjunni“ er andúð á allri þjóðerniskennd. Þess vegna hafa þingmenn þessara flokka eytt mestu orkunni á þinginu í að gæta hagsmuna annarra en Íslendinga. Að vísu eru öfgar í þjóðhyggju jafn hættuleg og öfgar í öðru. En hæfileg þjóðerniskennd er nauðsynleg öllum þjóðum ef árangur á að nást.

Þetta vita allir sem hafa einhvern tíma verið í liði.

Ástæðan fyrir því að „frjálslynda miðjan“ tapaði kosningum, kæri Bensi, er sú að málflutningur þeirra var populískur. Hægt er að ná árangri með slíkum málflutningi en þegar hoppið á vinsældarvagnana er of hátt missa menn traust og trúverðugleika.

Svona er þetta einfalt.

Höfundur er hæstaréttaréttarlögmaður og aðstoðarmaður innanríkisráðherra

Ekki missa af...