„Þetta er þaulskipulögð herferð femínista og hún er bara rétt að byrja“

Ímyndið ykkur kaffihús. Öll borðin eru þétt setin og málefni líðandi stundar rædd. Í horninu er lokað herbergi þar sem tíu karlmenn sitja við borð. Herbergið er einangrað frá öðrum kaffihúsagestum sem sjá ekki hverjir fara inn og út. Þau heyra því ekki það sem mennirnir láta úr sér.

„Vandamálið er að strákar í dag eiga að hegða sér eins og stelpur,“ segir einn þeirra og fær sér sopa af kaffinu. „Er búið að nauðga þessu fjósi tvisvar?“ segir annar fastagestur um viðtal sem er á forsíðu blaðs á borðinu, þar sem þolandi kynferðisofbeldis deilir sögu sinni. Svo sýnir hann öðrum við borðið óviðeigandi grínmyndir á símanum sínum. „Þetta eru geðsjúkar drullukuntur,“ segir annar og uppsker hlátur annarra karla. „Til hvers að vera „sexý“ ef það má enginn „bíta á agnið?“ segir svo einn og allir hrista hausinn.

Ef til vill eru þetta fjarstæðukenndar aðstæður en þetta eru aðeins fáein dæmi um raunverulegar athugasemdir sem hafa fallið í lokaða Facebook hópnum Karlmennskuspjallið. Í hópnum stunda rúmlega 700 karlmenn orðræðu sem einkennist mikið af fyrrgreindum athugasemdum. Konur eru lítillækkaðar og samskipti kynjanna sýnd í staðalmyndum.

Ofbeldismenn fórnarlömb slaufumenningar

Ásakanir á hendur nokkurra nafntogaða fótboltamanna hafa skapa miklar umræður á hópnum. Andres Zoran Ivanovic, ferðaskipuleggjandi og frambjóðandi Frjálslynda Lýðræðisflokksins í síðastliðnum Alþingiskosningum, segir engan vera öruggann í þessari bylgju slaufumenningar. Hann deildi bloggfærslu af vefnum Fréttin.is þar sem meðal annars Gylfi Sigurðsson er kallaður „fórnarlamb slaufumenningarinnar.“ Gylfi var handtekinn í Bretlandi í júlí grunaður um kynferðisbrot gegn ólögráða einstaklingi. Hann er í farbanni til 16. október.

Samkvæmt stjórnanda hópsins er Þórhildur Gyða aðili að samsæri.

Einnig hafa ásakanir Þórhildar Gyðu Arnarsdóttur gegn Kolbeini Sigþórssyni verið hitamál hjá meðlimum. Eldur Deville, einn af stjórnendum hópsins, telur málið allt vera samsæri. Máli sínu til stuðnings gerði hann átta punkta útskýringamynd með heimildum þar sem hann lýsir því að Þórhildur hafi skipulagt málið allt með hjálp Hönnu Bjargar Vilhjálmsdóttur menntaskólakennara.

Helsta sönnunargagn Elds er auglýsing um morgunverðarfund dagsettan 21. febrúar 2018. Þar voru framsögur á dagskrá með þemanu Sjúk Ást. Þórhildur Gyða og Hanna Björg voru á mælendaskrá.

Samkvæmt Eldi er það ..] fjarstæðukennt að þær þekkist ekkert á þessum tíma og hafi ekki borið saman bækur sínar. Hanna Björg, vinkona Þórhildar, vissi ekki af máli hennar þegar hún tók að gagnrýna KSÍ. Hversu trúverðugt er það?“

Niðurstaða Elds er þessi. „Þetta er þaulskipulögð herferð femínista og hún er bara rétt að byrja. Hanna Björg leiddi Guðna Bergs í gildru, vitandi um mál vinkonu sinnar Þórhildar. Þær kunna þetta.“

Þetta er brot úr lengri umfjöllun.

Ekki missa af...