Þetta er klúðrari ársins: Hjálpaði okkur eftirminnilega á árinu

Klúður. Öll höfum við klúðrað einhverju í lífinu.

Stóru eða smáu.

Hvar liggur hámarkið í klúðri?

Það veit auðvitað enginn, en það má alveg leika sér með þá spurningu!

Þau fengu undanþágu

Willum Þór Þórsson var nokkuð óvænt skipaður í embætti heilbrigðisráðherra landsins og tók við af Svandísi Svavarsdóttur, sem átti farsælt samstarf við sóttvarnalækni. Willum Þór var varla tekinn við þegar hann fékk nýtt minnisblað í hendur með ákveðnum tillögum um takmarkanir sem voru samþykktar.

Já, samþykktar.

En ekki alveg, tónlistarmenn vildu fá undanþágur á Þorláksmessu og fengu þær.

Þá vildu veitingamenn og eigendur kráa líka fá undanþágur og fengu þær með samþykki Willums Þórs sem vísaði til meðalhófs, en skilgreindi ekki það meðalhóf nánar.

Var það meðalhóf í skötuáti, drykkjuskap eða veirudreifingu?

Willum Þór er heilbrigðisráðherra og á sem slíkur að hugsa meira um heilsu landsmanna en hag kráareigenda, skötusala og tónlistarmanna.

Hann var ekki að átta sig á þeirri einföldu staðreynd.

Klúður á mettíma

Nú stendur hann frammi fyrir því að klúður hans hafi sett þúsundir í einangrun og sóttkví og hugsanlega einhverja á sjúkrahús, jafnvel í öndunarvélar.

Því spyr ég:

„Er hægt að klúðra meiru á jafn skömmum tíma í starfi en Willum Þór hefur gert?“

Nei, slíkt klúður er vandfundið sé það yfir höfuð til!

Willum Þór Þórsson er því hér með útnefndur klúðrari ársins í stjórnsýslunni.

Höfundur er kennari og fyrrum ritstjóri

Ekki missa af...