Það sem hefur breyst, því miður

Að alast upp í Breiðholtinu var ævintýralegt og yndislegur tími. 

Að alast upp á heimili með báðum foreldrum, umvafinn ást og endalausri þolinmæði, og líða aldrei skort voru mín forréttindi. Forréttindi sem ég bý að í dag og er þakklátur fyrir. 

En það var ekki þannig hjá öllum og er ekki þannig hjá öllum í dag. Þó að jólin séu tími tilhlökkunar og samveru með fjölskyldu og vinum eru jólin fyrir mér tilefni til að líta inn á við. Við hjónin vinnum bæði vinnu sem tengir okkur meira við annars konar og sorglegri veruleika en fólk almennt tengir við. Það hjálpar okkur að jarðtengjast og finna sífellt nýjar leiðir til þess að bæta okkur í samskiptum og verkaskiptingu.

Þótt þetta sé hátíðargrein og hafi átt að vera á jákvæðu nótunum eru jólin mín eins og samfélagið okkar, svolítið súrsæt. Hátíð ljóss og friðar er líka áminning um stöðu okkar í samfélaginu og hjá sumum rauða spjaldið ef þeir standa illa félagslega og/eða fjárhagslega.

Þegar mamma vann á Barnaspítalanum var hún oft að passa langveik börn sem komu utan af landi í meðferðir við sínum langvinnu sjúkdómum. 

Í þá daga var ekki óalgengt að heilbrigðisstarfsmenn væru einu tengslin sem fólk utan af landi hafði í Reykjavík og því nærtækt að leita til þeirra í frítíma eftir pössun ef útréttinga var þörf. 

Og þetta þótti ekkert tiltökumál á mínu heimili. 

Sem barn kynntist ég mörgum langveikum börnum sem komu heim, stundum bara í kaffi með mömmu sinni og stundum hálfu dagana í pössun. Ég spáði svo sem ekki mikið í þessu fyrr en mörgum árum seinna. 

Það var misskipting í íslensku samfélagi þá en fólk hjálpaði hvort öðru og það voru flestir í sama baslinu. Það var meiri samkennd og samstaða.

Í dag virðist þetta hafa breyst og við erum að fjarlægjast hvert annað, tölum minna saman og gefum minna fyrir stöðu annarra og hugsum meira um okkur sjálf. 

Því miður.

Tökum kærleikann og gildin fram yfir glamúrinn. 

Strengjum eilíft heit um að gera samfélagið okkar betra og tökum ávallt upp hanskann fyrir okkar veikustu bræður og systur.

Gleðilega hátíð.

Höfundur er formaður VR

Ekki missa af...