Taugaáfall Hafsteins leiddi að draumastarfi: „Þetta var bara gríma, þetta var ekkert ég“

Hlaðvarpsþátturinn Bíóblaður hefur farið hratt vaxandi í vinsældum en að honum stendur Hafsteinn Sæmundsson. Þættir Hafsteins eru komnir á annan hundraðinn og á meðal margra gesta má nefna Ragnar Bragason, Baldvin Z, Völu Kristínu Eiríksdóttur, Pál Óskar Hjálmtýsson, Sunnevu Einarsdóttur, Emmsjé Gauta, Binna Löve og Donnu Cruz.

Í samtali við 24.is segir Hafsteinn að kulnun í starfi hafi leitt að tilurð þáttarins. Þetta var í desember 2019. „Þá fékk ég taugaáfall sökum álags í vinnu og heima fyrir og þurfti að fara í veikindaleyfi.

„Ég hafði verið að vinna hjá fyrirtæki sem sérhæfði sig í að selja heimilistæki og innréttingar. Mér líkaði vinnustaðurinn vel, en álagið varð gríðarlegt á frekar stuttum tíma. Að lokum gafst líkaminn upp,“
segir hann.

„Það var síðan í janúar 2020 að ég las bók sem kallast The Subtle art of not giving a Fuck. Sú bók breytti mínu hugarfari og í framhaldinu ákvað ég að ég vildi fara út fyrir þægindarammann, gera eitthvað sem hræddi mig pínu og gera loksins eitthvað sem ég hafði mikla ástríðu fyrir,“ segir Hafsteinn.

„Á þeim tíma fannst mér hugmyndin fáránleg en það var einfaldlega vegna þess að ég hef aldrei verið mikið fyrir athygli, finnst fátt leiðinlegra en að láta taka mynd af mér og þótti röddin mín alltaf óþolandi.“

Að sögn Hafsteins er markmið hlaðvarpsins í grunninn einfalt; að fá fólk til að kunna betur að meta þetta skemmtilega listform sem kvikmyndir eru.

Gríman helst ekkert

Hafsteinn talaði meira um byrjun hlaðvarpsins í viðtali við Tölvuleikjaspjallið. „Ég var líka svona fyrst, því, eins og ég segi, ég er búinn að horfa á alla þættina mína og búinn að læra svo mikið af því,“ segir hann. „Fyrst hugsaði ég, af því ég tala svo hratt, að ég yrði að vera skýr og ég verð að tala aðeins hægar. Í fyrstu þáttunum þá er ég svolítið þannig.“

Hann segir að bestu vinur hans til þrjátíu ára hafi varla kannast við röddina hans í þessum fyrstu þáttum. „Af því að ég vildi vera svo pró fyrst. Svo er málið bara, þegar maður er búinn að taka upp nokkra þætti þá helst gríman ekkert. Þetta var bara gríma, þetta var ekkert ég. Hún dettur niður að lokum. Svo byrjaði ég bara að tala eins og ég tala og haga mér eins og ég haga mér.“

Gætir sín á gryfjunni

Hafsteinn er fæddur árið 1983 og ólst upp við mikið kvikmyndaáhorf, sem þáttastjórnandinn segir vera foreldrum sínum að þakka. „Ég ólst upp við mikið bíómyndaáhorf en pabbi minn var duglegur að sýna mér bíómyndir þegar ég var krakki.

Foreldrar mínir voru alltaf duglegir að fara í bíó og þegar þau sáu mynd sem var bönnuð börnum, og ég gat þar af leiðandi ekki séð hana, þá lýsti pabbi minn atriðum fyrir mér um leið og hann kom heim,“ segir Hafsteinn og fullyrðir að hasarmyndir eigi sér sérstakan stað hjá sér.

„Fyrir mér hafa bíómyndir alltaf verið skemmtiefni,“ segir Hafsteinn. „Stundum þegar harðkjarna kvikmyndaáhugamenn eða gagnrýnendur tala um bíómyndir, þá finnst mér þeir detta ofan í þá gryfju að taka þetta allt of alvarlega og setja sig hálfpartinn á einhvern stall. Ég vildi ekki gera það og þess vegna vildi ég einmitt hafa gestina mína fjölbreytta.“

Hafsteinn segir að skipulag þáttarins sé þrískipt þegar kemur að gestum. „Hugsunin var að fá vini mína, frægt fólk og einhverja áhugamenn sem fáir þekkja en hafa brennandi áhuga á bíómyndum. Ég hef nú þegar fengið til mín grafíska hönnuði, leikstjóra, leikkonur, rappara, skemmtikrafta, framleiðendur, poppstjörnur, áhrifavalda, kvikmyndafræðinga, kvikmyndanema, svo mætti lengi telja.”

Þá kveðst Hafsteinn vera hæstánægður með þættina og fjölda þeirra, ekki síður í ljósi þess að vera nú fullstyrktur til að geta kallað þetta draumastarf. Viðtökur hafi farið fram úr hans björtustu vonum.

„Það sem gleður mig mest í sambandi við podcastið eru öll skilaboðin sem ég fæ frá fólki. Þættirnir hafa til dæmis náð að búa til nýja kvikmyndaáhugamenn, náð að kveikja aftur í gamalli ástríðu hjá sumum sem höfðu misst pínu áhugann á kvikmyndum, aðrir eru farnir að búa til sína eigin Topp 10 lista með fjölskyldunni sinni,“ segir Hafsteinn og bætir við: „Síðan eru aðrir sem hafa uppgötvað bíómyndir sem ég eða gestur minn höfum nefnt í einhverjum þætti.“

Hver leynist undir brúnni?

Hver leynist undir brúnni?

Engar hryllingssögur

Birtu bara bréfin Drífa

Lífið í miðjunni

Ekki missa af...