Damon Albarn syngur í Staðahverfi: „Fínn staður til að hugleiða“

Damon Albarn gaf út tónlistarmyndband við lagið Royal Morning Blue af væntanlegri plötu sinni í gær. Myndbandið er tekið upp í Staðahverfi Grafarvogs, þar sem Albarn hefur lengi átt hús. Platan mun heita The Nearer The Fountain, More Pure The Stream Flows og kemur út 12. nóvember.

Í myndbandinu stendur Albarn einn við ströndina í Staðahverfi og syngur lagið með hendur í úlpuvösum. Það er svarthvítt og allt í einni töku. Tanyel Vahdettin sá um upptöku.

Hann mun flytja plötuna í heild sinni í Eldborgarsal Hörpu þann 11. mars næstkomandi. Um er að ræða fyrstu tónleika hans hér á landi í 23 ár.

MIKIL ÁHRIF FRÁ ÍSLANDI

Albarn hefur lengi verið með annan fótinn á klakanum. Hann hefur átt hús í Grafarvogi og tekið hér upp tónlist fyrir sig og hljómsveitir sínar. Í janúar á þessu ári hlaut hann íslenskan ríkisborgararétt.

Ísland hafði mikil áhrif á gerð plötunnar

Árið 1996 kom hann fyrst til Íslands og varð mjög hugfanginn. Stuttu síðar kom hljómsveitin hans Blur hingað til að taka upp afganginn af samnefndri plötu sinni.

Árið 1998 kom hann fram í heimildarmyndinni Popp í Reykjavík þar sem hann hældi mjög tónlistarsenu landsins. „Ég fíla Gus Gus,“ sagði hann í myndinni. „Það sem er áhugavert við þá er að þeir eru með sinn eigin stíl, komnir með eitthvað sem er bara fyrir sig. Þess vegna skara þeir fram úr.“

Væntanleg plata Albarn er tekin að öllu leyti upp hér á landi. Í samtali við NME sagði söngvarinn að tónsmíðin væri mjög innblásin af landslagi Íslands. „Þetta er fínn staður til að hugleiða,“ sagði hann. Það sést á plötuumslagi og list tengdri plötunni, ljósmyndir af náttúru Íslands eru í forgrunni.

FJÖLBREYTTUR LISTAMAÐUR

Tónlistarmaðurinn breski á sér langan feril að baki með mismunandi hljómsveitum.

Ferillinn hófst í kringum 1990 þegar hann stofnaði Blur. Hljómsveitin átti eftir að verða heimsfræg og ein mikilvægasta sveit Britpop senunnar, ásamt Oasis og Suede. Lög eins og Parklife og Girls & Boys liggja eftir sveitina sem nýtur vinsælda enn þann dag í dag.

Eftir Blur liggja átta hljómplötur og óteljandi smáskífur. Hljómsveitin hefur aldrei opinberlega hætt störfum en hefur oft tekið sér löng hlé.

„Hljómsveitin Gorillaz“ fyrir ofan og Damon Albarn með hljómsveitinni Gorillaz fyrir neðan

Hann er einnig þekktur fyrir að stofna sýndarsveitina Gorillaz ásamt teiknaranum Jamie Hewlett. Þar eru fjórir teiknaðir „meðlimir“ sem spila fjölbreytta tónlist innblásna af rokki, poppi, hip-hoppi og raftónlist. Albarn spilar sjálfur á flest, ef ekki öll, hljóðfærin fyrir plötuútgáfur hljómsveitarinnar en velur stórskotalið tónlistarfólks til að spila með sér á tónleikum.

Ekki missa af...