Sýndarnefnd í sýndarveruleika

Björg Birgisson skrifar:

Þeir sem sáu Ingu Sæland verða sér til skammar í Kastljósi gærkvöldsins með því að lýsa því þar yfir að seinni talningin í Norðvesturkjördæmi væri fullgóð og gild – þrátt fyrir ótal annmarka – ættu að vera farnir að skilja afstöðu mína til þessarar nefndar.

Væntanleg niðurstaða meirihluta nefndarinnar lá fyrir daginn sem hún var skipuð!

Að láta seinni talninguna gilda.

Aldrei hefur neitt annað staðið til!

Allt starfið, hátt í 30 fundir, ferðirnar í Borgarnes, að hlusta á vitnisburði kærenda, útlistanir svokallaðra sérfræðinga, spjall við lögregluna og Inga Tryggvason – allt þetta er ekkert annað en algjör sýndarmennska.

Sett á svið til að teygja lopann vegna vandræða við að koma saman nýjum stjórnarsáttmála.

Nú er hann víst að mestu klár og þá er Birgir klár með álit meirihluta nefndarinnar, stjórnarsinnanna sex og svo Ingu Sælands.

Seinni talningin á að gilda.

Þrátt fyrir alla annmarkana!

Enda fylgdi alltaf fréttum af þeim að þeir væru nú ekki „verulegir“ alveg án þess að nánari skilgreining væri á því hvað er verulegt í þeim efnum og hvað ekki.

Í raunheimi eru hlutirnir annað hvort réttir eða rangir.

Það er ekkert til sem er rangt, en samt ekki verulega rangt!

Starf þessarar nefndar kann að líta vel út í sínum blekkingarhjúpi, verið ítarlegt og margþætt.

En það er vitaskuld eingöngu til háborinnar skammar.

Hvers vegna?

Vegna þess að þarna var verið að „rannsaka“ glæpsamlegt athæfi sem aldrei stóð til að afturkalla eða refsa fyrir á nokkurn hátt.

Flott sviðsetning!

Ég geri fastlega ráð fyrir að Björn Leví Gunnarsson og Þórunn Sveinbjarnardóttir skili séráliti og fari fram á nýjar kosningar í kjördæminu.

Væri ég í þeirra sporum segði ég mig úr nefndinni með þeim orðum að mannskemmandi væri að koma nálægt svona sýndarmennsku.

Eftir Björn Birgisson

Höfundur er kennari og fyrrum ritstjóri

Ekki missa af...