Svörtu sandar á Berlinale: „Við vorum fyrsta sjónvarpsserían sem var valin inn“

„Við fengum að vita þetta í lok nóvember eða byrjun desember. Góð jólagjöf. Ég var í sjálfskipaðri sóttkví þegar ég var einn inná einhverju hótelherbergi þegar ég fékk þessar fréttir.“

Þetta segir Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður, leikstjóri sjónvarpsseríunnar Svörtu sandar, en frá því var greint í dag að þættirnir verða frumsyndir á kvikmyndahátíðinni Berlinale, sem er jafnan talin ein sú stærsta í heiminum. Þættirnir hófu göngu sína á Stöð 2 um jólin hafa fengið prýðislof og umtal almennt.

Í fimmta þætti hlaðvarpsins Sandkorn: Stúdering á svörtu söndum, sem kemur út næsta sunnudag, segir leikstjórinn frá tölvupósti sem hann mun seint gleyma. Að hans sögn voru aðstandendur hátíðarinnar spennt að heyra í Baldvini og teymi hans. Hann segir einnig bréfið frá þeim hafa verið ótrúlega fallegt.

„Við vorum fyrsta sjónvarpsserían sem var valin inn og þeim fannst þessi leið að detective story vera svo ótrúlega áhugaverð. Við fáum alveg svona red carpet frumsýningu á Berlinale og voða fínerí.

Við höfum fengið fleiri beiðnir um heimsfrumsýningar frá fleiri stórum hátíðum en við enduðum á að velja Berlinale út af því að það er lang lang stærsti vettvangurinn, hátíðarlega séð, að frumsýna. Við erum ógeðslega spennt og glöð.“


COVID gæti haft áhrif

Á Berlinale verða fyrstu tveir þættir Svörtu sanda sýndir, að öllu óbreyttu. Baldvin útilokar þó ekki að heimsfaraldurinn og takmarkanir gætu breytt dagskránni. Betra sé að vera undirbúinn fyrir slíkt.

Baldvin er að fara í fyrsta sinn á Berlinale.

„Það er bara COVID sem getur skemmt mikilfengleikann við þetta,“ segir Baldvin og heldur áfram:

„Hef aldrei farið á Berlinale, myndirnar mínar hafa verið frumsýndar á Toronto en þetta er í fyrsta sinn sem ég fer þangað. Það verður gaman að frumsýna þetta verk. Þetta er líka fyrsta verkið sem ég framleiði og skrifa frá því að ég hætti hjá hinum aðilanum,“ mælir leikstjórinn og vísar í framleiðslufyrirtækið KISI, sem stóð að Óróa, Vonarstræti og Lof mér að falla.

Baldvin leikstýrir Svörtu söndum fyrir Glassriver, en auk hans skrifa Aldís Amah Hamilton og Ragnar Jónsson handritið. Aldís fer sjálf með aðalhlutverkið í þáttunum. Með önnur helstu hlutverk fara Þór Tulinius, Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Ævar Þór Benediktsson og Kolbeinn Arnbjörnsson.

Kvikmyndahátíðin í Berlín hefur verið haldin síðan 1978 og er talin ein af þrem stærstu kvikmyndahátíðum heims, á pari við hátíðirnar í Cannes og í Feneyjum. Flokkurinn þar sem Svörtu sandar verða sýndir heitir Berlinale Series og er sérhluti af hátíðinni.

Íslendingar hafa nokkrum sinnum áður komið við á hátíðinni, árið 2018 vann rúmenska kvikmyndin Touch me not Gullbjörninn, aðalverðlaun hátíðarinnar, en Tómas Lemarquis fór með aðalhlutverk í myndinni.

Hátíðin hefst 10. febrúar næstkomandi og stendur í tíu daga.


HRÓSAÐ SÉRSTAKLEGA FYRIR ÓVENJULEGAN SNÚNING

Í umsögn dómnefndar er þáttunum hrósað sérstaklega fyrir „[…] dýpt í karaktermótun, óvenjulegan snúning á hina hefðbundnu leit aðsökudólg í glæpaseríum með því að leyfa persónulegu lífi og áskorunum karakteranna að vega þyngra en málið sjálft sem þau rannsaka.“

En finnur Baldvin fyrir miklum mun á viðbrögðum þegar erlendir aðilar sjá verk hans?

„Algjörlega,“ svarar Baldvin. „Ég upplifði það rosalega sterkt við Lof mér að falla. Ég áttaði mig engan veginn á því hvernig það myndi renna í önnur lönd. Kúltúrinn í landinu skiptir svo miklu máli upp á hvernig þau taka ofbeldinu, hvernig þau sjá neysluna og allt þetta.

Til dæmis þegar ég var í Suður Kóreu með myndina þá spurðu þau: „Eruð þið að gefa börnunum ykkar lyf við kvíða?“ Allt annað aspect í gangi. „Við þekkjum ekk isvona eiturlyfjavandamál.“ Þá er gríðarlegt drykkjuvandamál í supur kóreu. Ég sá þarna á hverju einasta kvöldi heimilisfeður með fjölskyldunum sínum, þeir voru hauslausir en fjölskyldan edrú.

Þetta er eitthvað svona vinnuálags-brennivínsdrykkju-geðveiki sem er þarna. Sjálfsmorðstíðnin er gríðarleg. Þau vildu ekki endurspegla sín vandamál í okkar mynd af því að þau skyldu ekki þetta lyfjadæmi.

Ég varð vitni að því á einum stað að það stóð upp hópur fólks og labbaði út af sýningunni af því að þeim bara ofbauð Lof mér að falla, mjög átakanleg sena með eldri Magneu.

Ég skil það að kúltúrinn er mismunandi, hvernig fólk tekur svona senum. Þar sem ég er ekki alltaf að setja hlutina í svona bíómyndastíl, er alltaf með áhorfandann sem flugu á vegg í öllum þessum senum, þá verður þetta kannski extra óþægilegt.

Ég hlakka til að horfa á Svörtu Sanda með útlendingum. Ekki það, það er fullt af útlendingum búnir að horfa á seríuna. Það er mjög auðvelt að tengja sig inn á þessa seríu út af mannlega þættinum.“

Sandkorn er hægt að nálgast hér á 24, Vísi, YouTube, Spotify, Apple Podcasts og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Ekki missa af...