Var það strákaband eða Steven Seagal kvikmynd?

Það var allt í járnum í æsispennandi þætti Trivialeikanna sem kom út í gær. Um er að ræða nýtt íslenskt spurningahlaðvarp þar sem hlustendur geta fengið pub quiz stemminguna beint heim í stofu.

Lið Jóns Hlífars og Arnórs Steins keppti aftur við Magnús Hrafn og Stefán Geir. Svo jafnt var á milli liðana í fyrsta þætti að ekkert annað en endurleikur kom til greina.

Daníel Óli Ólafsson, læknanemi og Gettu Betur þjálfari sér um allar hliðar keppninnar. Spurningaúrvalið er fjölbreytt og skemmtilegt en hver þáttur hefst á nokkrum stigalausum spurningum til upphitunar. Í fyrsta þætti var borin upp plata og keppendur giskuðu hvort David Hasselhoff eða Icy Spicy Leoncie áttu heiðurinn.

Sjá einnig: Indverska prinsessan eða Hoffarinn?

URBAN JUSTICE VAFASAMT HLJÓMSVEITANAFN

„Ég ætla að nefna nokkur nöfn og þið ætlið að segja mér hvort um er að ræða bíómynd með Steven Seagal í aðalhlutverki eða bandarískt strákaband, eða boyband,“ var upphitunarspurningin í þetta skiptið.

Eins og með Hoff og Leoncie var valið alls ekki auðvelt.

Fyrst var spurt um Mindless Behavior og Attack Force. Liðin bæði brugðu á það ráð að giska á andstæðuna við fyrsta gisk, með mis góðum afleiðingum.

Urban Justice var álíka ruglandi.

„Það gæti alveg verið boyband,“ sagði Jón Hlífar.

„Ég myndi halda að þetta væri svolítið eldfimt til þess að vera boyband,“ sagði Arnór Steinn. „Mér myndi allavega finnast það mjög vafasamt ef boyband heitir Urban Justice, sérstaklega ef meðlimirnir eru frá Kákasus … ef það eru hvítir meðlimir í bandinu.“

Einnig var spurt um No Authority, 98 Degrees og Black Dawn. Gætir þú þekkt hvort er hvað?

GÆTIR ÞÚ ÞULIÐ UPP TEXTANN Í BOHEMIAN RHAPSODY?

Spurningaflóð þáttarins var fjölbreytt að vana. Í annarri bjölluspurningu var spurt um opnunarlínu lagsins Bohemian Rhapsody. Lagið er eitt það frægasta í sögu tónlistarinnar og náðu Magnús og Stefán bjöllunni.

„Var það ekki mama, just killed a man?“ sagði Magnús eftir smá raul.

Meistarastykki Mercury var keppendum ekki ferskt í minni.

„Nema það sé einhver lína þarna á undan sem við erum að gleyma,“ sagði Stefán og hann reyndist sannspár. Það eru nokkrar línur þar á undan en svo virðist sem algleymingur hafi gripið um sig í stúdíóinu, ekki einn einasti keppandi gat sagt upphafslínuna frægu.

Jón og Arnór fengu svarréttinn en eftir margra mínútna krafs og þreifingar varð ekkert upp.

„Ég næ þessari línu ekki upp í hausinn á mér, maður er búinn að heyra þetta lag svona sextán þúsund sinnum en þetta kemur ekki,“ sagði Arnór.

Liðið giskaði á handahófskennda línu og uppi varð fótur og fit þegar rétta svarið, Is this the real life? kom frá vörum spyrilsins.

Keppnin var eins og áður kom fram hnífjöfn alveg á lokametrana. Hvort liðið hafði betur í þetta skiptið?

Í næstu þáttum verða önnur lið sem etja kappi. Þið getið nálgast spurningahöfundinn á Instagram og Facebook reikningum Trivialeikanna. Þátturinn er aðgengilegur í Spotify spilaranum hér fyrir neðan en hann er einnig aðgengilegur á iTunes og öllum helstu hlaðvarpsveitum.

Ekki missa af...