Stjórnarsáttmálinn er froða og loft

Gunnar Smári Egilsson skrifar:

Stjórnarsáttmálinn er settur upp svo sérkennilega gleitt og gisið að ég færði textann yfir í venjulegt textaskjal til að geta lesið og borið betur saman. Þar tekur sáttmálinn og verkefnalistinn rétt rúmar 18 síður en ekki 60 eins og í útgáfu ríkisstjórnarinnar. Útgáfa stjórnarinnar er því meira en 2/3 loft. Og eftir að hafa lesið textann get ég sagt ykkur að mest af því sem eftir er er froða.

Íslensk tunga er dýrmæt auðlind, auður íslensks samfélags byggist á því að við skiptum öll máli, þátttaka fólks af erlendum uppruna eykur fjölbreytileika, við horfum á heilbrigði þjóðarinnar í víðu samhengi, við einsetjum okkur að aðbúnaður og réttindi barna á Íslandi séu ávallt í fyrirrúmi, menning og listir eru bæði uppspretta og birtingarmynd fjölbreytts og sterks samfélags og svo framvegis.

Mér sýnist sem VG hafi skrifað texta sjálfs sáttmálans en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn ráðið því hvað fór í verkefnalistann. Þar er minni froða og orðasalat, sagt hreint út að það eigi að einkavæða og koma fé, eignum og auðlindum til hinna fáu ríku. En senda hinum verr stöddu fallegar hugsanir en lítið meira. Sumir fá múlímonípeningaglás en aðrir hugheilar kveðjur.

Eitthvað við þennan texta segir mér að þessi ríkisstjórn muni ekki lifa lengi, hann er svo holur. Það er ólíkt að cóvid komi stjórninni aftur til bjargar. Ég spái að hún lifi 12 til 16 mánuði.

Höfundur er formaður Sósíalistaflokksins

Ekki missa af...