„Stærsta áfall sem hefur hent íslensku vitaþjónustuna fyrr og síðar“

Liðin eru rúm 60 ár frá því að tvö hræðileg sjóslys skóku íslensku þjóðina. Aðeins leið rúm vika á milli þess að togarinn Júlí fórst með allri áhöfn, 30 sjómönnum, og að vitaskipið Hermóður fór sömu leið með 12 mönnum innanborðs.

Alls stóðu 52 börn uppi föðurlaus eftir harmleikina tvo. Örlögin höguðu því þannig að á Hermóði fór tvítugur matsveinn, Birgir Gunnarsson, sína fyrstu og hinstu för sem íhlaupamaður. Þá vildi einnig svo til að Guðni Thorlacius, afi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, var í leyfi þessa örlagaríku ferð. Atburðirnir höfðu um alla tíð síðan legið þungt á afa sínum.


„Ég var bara smástrákur þegar afi féll frá á gamals aldri. Af samtölum við móður mína og fleiri í fjölskyldunni veit ég hins vegar vel hversu þungbært það var honum þegar Hermóður fórst. Um borð voru starfsfélagar hans og vinir til margra ára,“ sagði Guðni í samtali við DV árið 2019.

„Í einu vetfangi urðu 17 börn föðurlaus. Mér þótti Hermann Guðjónsson siglingamálastjóri komast vel að orði þegar hann skrifaði fyrir áratug um mennina tólf sem drukknuðu með Hermóði að morgni 18. febrúar 1959:

„Hermóðsslysið er stærsta áfall sem hefur hent íslensku vitaþjónustuna fyrr og síðar. Sjómennirnir tólf urðu ekki grátnir úr helju frekar en Baldur hinn góði sem æsir sendu Hermóð hinn hvata að sækja úr greipum dauðans. Þeir fylla flokk hinna fjölmörgu íslensku sjómanna sem hafa týnt lífi við störf sín og minning þeirra verðskuldar virðingu.“

Hafist var handa við að smíða nýtt vitaskip eftir Hermóðsslysið og árið 1962 kom Árvakur til landsins.

„Afi Guðni tók þar við skipstjórn en fór í land eftir tæpan áratug. Þá hafði hann verið til sjós í meira en hálfa öld,“ segir Guðni. „Mér er sagt að mest hafi honum líkað að vera með vitaskipin tvö, Hermóð og Árvakur. Þeir sem völdust þar í skipsrúm voru harðduglegir enda ekki vanþörf á. Víða var erfitt að færa vitavörðum vistir, lendingin snúin og síðan þungur burður upp stórgrýti og hamra.

Á sínum langa ferli sinnti afi líka landhelgisgæslu og lenti þá í ýmsum svaðilförum. Til dæmis þráaðist einn breski togaraskipstjórinn við þegar afi vildi færa skip hans til hafnar og hugðist sigla heim á leið. Gamli Ægir þurfti að skjóta um 30 sinnum að togaranum, War Grey, uns sá breski gafst upp. Þetta var á stríðsárunum og um darraðardansinn má meðal annars lesa í Virkinu í norðri, 3. bindi,“ segir Guðni.

Guðni telur líkur á að æviferill afa hans hafi haft áhrif á að hann hafi ákveðið að skrifa í sagnfræðinámi um landhelgisdeilur og þorskastríð. Guðni segir:

„Þar að auki hafa náfrændur mínir í föðurætt unnið hjá Landhelgisgæslunni og nefni ég þá helst þjóðhetju okkar Íslendinga, Guðmund Kjærnested. Á námsárunum ræddi ég oft við hann um átökin á miðunum og naut þess mjög.“

Háskasamt að sækja sjóinn

Guðni segir að hollt sé að minnast þess að háskasamt sé að sækja sjóinn en fagnar um leið þeim framförum sem hafa orðið í öryggismálum sjómanna.

„Í sama mánuði og Hermóður fórst sökk togarinn Júlí á Nýfundnalandsmiðum, með 30 manna áhöfn. Hollt er að minnast þess hversu háskasamt það var að sækja sjóinn en fagna því um leið að sjóslysum hefur snarfækkað,“ segir Guðni og bætir við að lokum: „Þannig telst 2008 seint til bestu ára Íslandssögunnar en það ár urðu samt þau tímamót að enginn mannskaði varð við Íslandsstrendur, í fyrsta skipti frá því að sögur hófust. Og nú þurfum við auðvitað að sjá til þess að öryggismál allra á sjó séu eins og best verði á kosið, ekki síst með öflugri landhelgisgæslu sem getur þá sinnt björgunarstörfum þegar á reynir.“

Skammt milli stórra högga

Daganna 7.–9. febrúar 1959 brast á ofsaveður á Nýfundnalandsmiðum sem æ síðan hefur verið nefnt Nýfundnalandsveðrið mikla. Veðurhæð var mikil á þessum slóðum og frosthörkur gríðarlegar. Togarinn Júlí var staddur ásamt fleiri íslenskum skipum á þessum slóðum við karfaveiðar. Togarinn var gerður út af Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og var talinn eitt glæsilegasta fiskiskip í sögu íslenska flotans þegar hann kom til landsins árið 1953. Aðstæðurnar sem þarna mynduðust þekktust vart á Íslandsmiðum. Fleiri íslensk skip voru á sömu slóðum og Júlí en þekkt er kraftaverkasaga skipverja á togaranum Þorkeli Mána, sem var einn stærsti og öflugasti togarinn í Norðurhöfum.

Gríðarleg ísing lagðist á togarann og skipverjar á Þorkeli Mána björguðust aðeins með því að heyja þrotlausa baráttu gegn klakabrynjunni og losa sig við allt lauslegt sem ísing festist á, meðal annars björgunarbáta og talíur. Ísing dregur fljótt úr stöðugleika og sjóhæfni. Um borð í Júlí fór eflaust fram svipuð barátta fram á hinstu stund. Talið er að togaranum hafi hvolft að lokum undan þunga ísingarinnar. Að minnsta kosti þrjú erlend skip fórust á sama tíma á miðunum.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir um togarana, sem voru síðutogarar, svokallaðir Nýsköpunartogarar, og keyptir til landsins að lokinni síðari heimsstyrjöldinni: „Þótt margir Nýsköpunartogaranna hafi verið afar fengsæl fiskiskip þóttu þeir ekki sérlega vel hannaðir og útfærðir með tilliti til ísingarhættu. Á þeim voru rekkverk, vírar og fleira sem á hlóðst ís í vondum vetrarveðrum.“

Alfreð Jónsson var á Norðlendingi, sem var eitt þeirra skipa sem voru á svæðinu þennan örlagaríka dag. Lýsti hann baráttunni við að halda sjó á eftirfarandi hátt, en látin móðir skipstjórans birtist honum í draumi og skipaði skipstjóranum að snúa skipinu undan veðri, sem hann og gerði. Alfreð segir:

„Ég veit að það sem hefur bjargað því að við fórumst ekki var að ísinn var frosinn í stump í efri lestinni og haggaðist ekki. Hefði hann farið af stað og kastast til hefðu leikslok orðið önnur. Svona gekk þetta í þá tvo sólarhringa sem veðrið var verst, síðdegis á öðrum sólarhring var farið að hreyfa skrúfu í smástund í einu, og síðan smájókst það þar til hægt var að keyra á hægri ferð með batnandi veðri. Það var í mestu látunum, eða daginn eftir að veðrið skall á, sem við fréttum að Þorkell Máni væri að farast … Ekkert hafði heyrst af togaranum Júlí frá því kvöldinu áður … svo slitnaði loftnetið niður hjá okkur og við vorum sambandslausir. Vonuðumst við eftir að þar hefði loftnetið slitnað eins og hjá okkur og togarinn því ekki getað látið vita af sér.“

Leit hætt og áhöfn talin afÖrvæntingarfull leit stóð yfir að togaranum á alls 70 þúsund fermílna svæði en rúmri viku síðar, þann 17. febrúar, var tilkynnt um að leitinni hefði verið hætt og togarinn Júlí væri talinn af með allri áhöfn.

Tíðindin voru gríðarlegt áfall, en þjóðin fékk ekki mikinn tíma til að syrgja. Daginn eftir var tilkynnt um að vitaskipið Hermóður hefði farist með tólf mönnum í Reykjanesröst undan Höfnum. Svæðið er þekkt fyrir þunga og óhugnanlega strauma og hafa, þrátt fyrir að Hermóður væri talið sterkt og gott sjóskip, aðstæður reynst Hermóði um megn í þetta skipti. Þögnin og sorgin sem grúfði yfir landinu öllu situr enn í minni fólks sem man þessa tíma og verður vart lýst í orðum.

Hermóður var annað skipið í eigu Vitamálaskrifstofunnar. Bar það heiti sendiboða ásanna, hins hvata sonar Óðins. Helstu verkefni Hermóðs voru flutningar vegna vitaþjónustunnar. Ferðir með gashylki í vitana voru árvissar og flutningur á matvælum, kolum, áburði og öðrum nauðsynjum til vitavarða.

Í umfjöllun Hermanns Guðjónssonar vitamálastjóra í Morgunblaðinu sem rifjaði upp hina síðustu siglingu segir:

„Eins og oft áður hafði skipið gegnt hlutverki varðskips á Eyjamiðum og nú var tímabært að halda heim til Reykjavíkur eftir tveggja vikna úthald. Veður var allsæmilegt síðdegis þegar Hermóður sigldi frá Eyjum en fór versnandi og um kvöldið var komið hávaðarok af suðvestri.

Storminum fylgdi mikið hafrót. Flutningaskipið Vatnajökull komst nauðulega gegnum Reykjanesröstina fyrri hluta nætur. Hermóður var nokkuð á eftir honum. Hann var undan Reykjanesi þegar samtöl fóru á milli skipanna um fjögurleytið um nóttina. Þá amaði ekkert að tólfmenningunum um borð en röddin í talstöð Vatnajökuls var síðasta lífsmarkið sem barst frá vitaskipinu Hermóði.“

Hermóður, sem var smíðaður úr stáli í Stokkhólmi og fullbúinn árið 1947, var á leið frá Vestmannaeyjum, þar sem hann hafði verið við bátagæslu á vegum Landhelgisgæslunnar, þegar slysið varð. Þegar skipið skilaði sér ekki sendi Landhelgisgæslan flugvélina Rán til þess að leita að því og nokkru síðar var Slysavarnafélagið beðið um að láta leita meðfram ströndinni frá Grindavík og vestur og norður fyrir Reykjanes allt að Garðskaga. Brugðu slysavarnadeildirnar í Grindavík og Höfnum, svo og þrír leitarflokkar frá Reykjavík, skjótt við og fundu skömmu eftir hádegi brak úr skipinu rekið undan bænum Kalmanstjörn sunnan við Hafnir. Voru það fyrstu vísbendingar um að skipið væri ekki ofansjávar. Lestarhlerar og brotinn björgunarbátur Hermóðs gáfu til kynna að ólíklegt væri að nokkur vitaskipsmanna hefði komist lífs af. Var talið að skipið hefði sokkið skyndilega og nánast útilokað að nokkur skipsmanna hefði komist lífs af. Hermann sagði í Morgunblaðinu:

„Ýmislegt brak úr skipinu rak á fjörur á Reykjanesi dagana eftir slysið en líkum sjómannanna skilaði hafið ekki.“


Samviskusemin réð för


Eins og áður sagði fór tvítugur maður, Birgir Gunnarsson, með sem afleysingamaður í þessa hinstu för Hermóðs. Minnstu munaði þó að hann hætti við á síðustu stundu.

„Rétt fyrir brottför Hermóðs fékk hann boð um pláss á skipi frá Sambandinu sem var á leiðinni til Akureyrar. Þar átti hann vinkonu sem hann var byrjaður að skrifast á við og var mjög spenntur fyrir því að hitta. Hann átti í miklu sálarstríði um hvorn valkostinn hann átti að velja. Að lokum réð þó samviskusemin för. Hann vildi standa við orð sín,“ segir Kristbjörg Gunnarsdóttir, systir Birgis, í viðtali við DV árið 2019.

Birgir var tveimur árum yngri en hún og voru systkinin náin. „Þetta var gríðarlegt áfall fyrir mig og fjölskyldu mína. Maður fann vel að þjóðfélagið var sem lamað af sorg eftir þessi tvö stórslys. Mér er sérstaklega minnisstætt þegar greint var frá slysinu í átta fréttum Ríkisútvarpsins. Jónas Jónasson las fréttina upp. Eftir það var útsendingunni slitið og tilfinningaþrungin tónlist spiluð það sem eftir lifði dags,“ segir Kristbjörg.

Langaði að hringja í þrjátíu ár

„Guðni kom á heimili okkar ásamt presti fyrr um kvöldið og tilkynnti okkur hvað hefði gerst. Hann var niðurbrotinn og ég man að hann sagði föður mínum að hann hefði viljað fara með áhöfn sinni,“ segir Kristbjörg.

Birgir bróðir hennar leysti Sigmund Þórðarson af á Hermóði en Sigmundur þurfti að undirgangast aðgerð á spítala. Sigmundur var faðir Kristins Sigmundssonar stórsöngvara.

Nýverið lét Kristbjörg verða af því að slá á þráðinn til Kristins. „Mig var búið að langa til að hringja í hann í meira en þrjátíu ár,“ segir hún og hlær. Að hennar sögn tók Kristinn henni afar vel og áttu þau langt spjall saman um þessa atburði.

Kristbjörg segist hafa kveikt á kerti í tilefni tímamótanna og fengið tár í augun við að minnast bróður síns.

„Hann líður mér aldrei úr minni. Birgir var vel metinn og góður drengur. Minning hans lifir í fjölskyldunni. Til marks um það þá eru nöfnin Birgir og Birgitta algeng í minni ætt. Ég á dóttur sem heitir Birgitta og barnabarn hennar fæddist 18. febrúar 2014. Sú stúlka var einnig nefnd Birgitta í höfuðið á Birgi og ömmu sinni. Það var gott að geta líka glaðst á þessum degi,“ segir Kristbjörg.

Ekki missa af...