Spennandi hlaðvörp sem þú vissir ekki af

Það getur verið svolítið erfitt að fylgjast með íslenskum hlaðvörpum, enda er mikið framboð af þeim. 24 tók saman átta spennandi hlaðvörp – við erum handviss um að hér sé eitthvað fyrir alla.

Vídeóleigan

Æskuvinirnir Atli Steinn og Atli Þór byrjuðu með þetta hlaðvarp í júní árið 2020. Strákarnir taka fyrir kvikmyndir af öllu tagi og kryfja. Meðal þeirra þrekvirkja sem þeir hafa tekið á sig eru allar gömlu Batman myndirnar. Einnig kom Páll Óskar til þeirra í viðtal að ræða költ hryllingsmyndir.


Beðmál um Bókmenntir

Ef þú hefur áhuga á bókmenntum þá er þetta hlaðvarpið fyrir þig. Bókmenntafræðingurinn Katla Ársælsdóttir ræðir bókmenntir af öllu tagi við Völu Fanney Ívarsdóttur, en þær fá einnig til sín góða gesti, eins og Svövu Jakobsdóttur og Elínu Stefánsdóttur.


Tveir Fellar

Þessir ungu menn ákváðu að byrja með hlaðvarp í hljóði og mynd og hafa heldur betur sýnt metnað. Þeir Óli og Einar spjalla um alls kyns málefni ásamt því að fá til sín góða gesti. Þar á meðal eru Ólafur Darri Ólafsson, Ævar Vísindamaður og Siggu Dögg kynjafræðing.


Kjaftæði!

Skemmtikraftarnir í Délítunni byrjuðu með skemmtilegt hlaðvarp nú á dögunum. Þeir fá til sín gesti sem segja þeim nokkrar sögur af sér – hængurinn er sá að ein saga er bláköld lygi. Þeir þurfa að spyrja gestinn spjörunum úr og komast að því hver lygin er. Skemmtilegt og frumlegt hlaðvarp sem verður spennandi að fylgjast með.


Móðurlíf

Móðurlíf er nýlegt hlaðvarp í umsjón Díönu Karenar Rúnarsdóttur og Jónu Kristínar Birgisdóttur. Í þáttunum ræða þær allt það sem tengist mæðrum, móðurhlutverkinu og meðgöngu. Þær hafa tæklað alls kyns málefni, meðal annars tekið viðtöl við Ebbu Guðnýju um næringu barna, við Camillu Rut um reynslu af fæðingarþunglyndi og við Þórdísi Björk um sambandsslit á meðgöngu. Fjölbreytt umræðuefni og spennandi að sjá hvað þær gera næst.


Pabbaorlof

Þeir Alexander Maron Þorleifsson og Gunnar Bersi Björnsson spjalla hér um allt sem tengist feðrahlutverkinu. Það er margt og mikið sem þeir ræða hér, en þeir taka viðtöl við fjölbreyttan hóp fólks um hluti sem allir foreldrar hafa gott af því að vita. Meðal annars hafa þeir spjallað um ættleiðingar, fósturlát og fengið sína eigin feður til að ræða fæðingarsöguna.


Atli & Elías

Kvikmyndagerðarmennirnir Atli Óskar Fjalarsson og Elías Helgi Kofoed-Hansen ræða kvikmyndabransann í þessu hlaðvarpi. Þeir taka meðal annars saman væntanlega íslenska framleiðslu fyrir árið, taka viðtöl við fólk úr geiranum og spjalla um sína eigin reynslu.


Plássið

Þetta hlaðvarp er í umsjón Olgu Bjartar Þórðardóttur, ritstjóra Hafnfirðings. Eins og segir í lýsingu er hlaðvarpið með með; „hafnfirskum áherslum en eiga erindi til allra.“ Hún ræðir við Hafnfirðinga um ýmis málefni, þar á meðal Heiðu Dís Bjarnadóttur ljósmyndara, eða Karólínu Helgu Símonardóttur, stjórnarformanns Sorgarmiðstöðvarinnar.

Ekki missa af...