Sorglegt hjá Sveini Andra

Ég geri enga athugasemd við þá skoðun Sveins Andra að aðskilja eigi ríki og kirkju enda hefur það verið gert nánast að fullu. Ef Sveinn Andri væri samkvæmur sjálfum sér hefði hann bætt við í færslu sinni að aðskilja ætti ríkið við hlutafélagið í Efstaleiti. Öfugt við kirkjuna er ekkert stjórnarskrárákvæði um að okkur sé skylt að styðja og vernda það kompaní.

STYRKUR Í TRÚNNI

Alþjóðahyggjumenn og ESB sinnar eiga það flestir sameiginlegt að bera lítið skynbragð á manninn og eðli hans. Þess vegna er ESB dauðadæmt í núverandi mynd. Við erum alla ævi í stöðugri glímu við lífið og í þeirri baráttu er okkur nauðsynlegt að sækja styrk í æðri mátt. Þar kemur trúin og bænin sterk inn. Við erum nefnilega ófullkomnar tilfinningaverur en ekki rúðustrikað excelskjal.

GRAFIÐ UNDAN ARFLEIÐINNI

Með því að ýta kristinni trú úr samfélaginu með kerfisbundnum hætti erum við ekki bara að grafa undan menningu okkar og arfleifð, heldur að veikja möguleika okkar á að takast á við mótlæti í lífinu.

Það kemst enginn í gegnum lífið án þess að lenda í einhverju andstreymi og mótlæti. Held að við getum ekki endalaust treyst á læknis- og lyfjafræðina í þeim efnum.

TREYSTI JESÚ FREKAR EN Merkel

Þetta eiga allir að vita sem komnir eru til ára sinna, Sveinn Andri, og skiptir ekki máli hvort þeir eru sterkir eða veikir í trúnni. Samkvæmt hlutlægum mælikvörðum telst ég örugglega veikur í trúnni eða jafnvel trúlaus.

En ég ætla að leggja samt traust mitt á Jesú og félaga frekar en Von der Leyen, Macron og Merkel eða aðra í yfirstéttar elítunni í Brussel.

Eftir // Brynjar Níelsson

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og fyrrverandi þingmaður Sjálfstæðisflokksins

Ekki missa af...