Söknuður Sigurður eftir skilnað rak hann í rekstur: „Fullt af fólki sem kýs þögnina“

„Íslendingar, sem og flestir í heiminum, þurfa betur að læra að skilja mörk og samþykki. Sjálfur fékk ég aldrei kennslu í slíku þegar ég var yngri og þykir mér gífurlega mikilvægt að miðla slíkum upplýsingum til annarra.“

Svo mælir Sigurður Gísli Bjarnason, sérfræðingur í rekstrarlausnum og netöryggi hjá Advania, sem hyggst fara af stað með þjónustu sem hann lýsir sem knúsþjónustu. Sérgrein þessi er sögð vera sérsniðin fyrir einstaklinga sem skorti snertingu og nánd í hinu daglega lífi. Sigurður fullyrðir að umrædd þjónusta sé meira í ætt við sálfræðimeðferð og tekur skýrt fram að um ekkert kynferðislegt sé að ræða.

Í samtali við 24 kveðst Sigurður vera brautryðjandi hvað þessa þjónustu varðar hér á landi en slíkt finnst víða í Bandaríkjunum og gríðarlega vinsæl að sögn Sigurðar. „Þetta snýst mikið um tvennt. Annars vegar snýst þetta um að kenna samþykki, allar hliðar á því. Kenna fólki að biðja um samþykki. Líka kenna fólki að skilja hvað það vill af nánd. Þetta eru í raun einstaklingsbundnar þarfir sem þú ert að hlúa að,“ segir hann og heldur áfram:

„Sumum er til dæmis alveg sama ef þú snertir þá á bakið eða öxlina, en öðrum er það ekki. Stundum þarf fólk hjálp til að melta það og þar kemur svona þjónusta sterk inn.“

HREINLÆTIÐ NAUÐSYNLEGT

Sigurður útskrifaðist úr hinum virta háskóla WGU í Washington á sviði netöryggis auk þess að hafa klárað BS nám í tölvunarverkfræði við Pacific Lutheran University, einkarekinn háskóla sem einnig er staðsettur í Washington. Sigurður opnaði nýverið vefsíðuna CuddleGeek, þar sem ítarlega er hugað að skilmálum og skilyrðum fyrir þjónustunni sem mun standa til boða. Til að mynda er lykilatriði að bæði knúsgefandi og þiggjandi séu yfir 21 árs að aldri, að báðir aðilar séu edrú á meðan þjónustunni stendur og þar af leiðandi færir um að gefa samþykki af heilum hug.

Þá kemur einnig sterklega fram að tímarnir séu ekki kynferðislegir og sé jafnframt nauðsynlegt að huga að hreinlæti og snyrtilegheitum. Ef eitthvert þessara atriða verða óljós á meðan tímanum stendur, áskilur knúsgefandi sér rétt til að stöðva tímann.

SKILNAÐURINN BREYTTI ÖLLU

Þegar spurður að því hver kveikiþráðurinn var á þessari persónulegu knúsþjónustu segist Sigurður hafa sótt knúsþjónustu títt í Seattle í Bandaríkjunum, þar sem hann bjó um árabil, og þá var ekki aftur snúið.

„Ég nýtti mér svona þjónustu tvisvar í mánuði, í hátt í tvö ár, í Bandaríkjunum og get með hreinni samvisku sagt að þetta gerði mig að betri einstaklingi,“ segir Sigurður. „Þarna var verið að hlúa að nánd og vellíðanin. Tímarnir gáfu mér orku og þótti mér þetta geysilega upplífgandi.“

Sigurður tekur fram að hann hafi upphaflega sótt knúsþjónustu í Seattle í kjölfar skilnaðar, en hann er tvífráskilinn. Aðspurður um hvort hafi verið skortur á faðmlögum í síðasta hjónabandi svarar Sigurður því bæði játandi og neitandi. Að tímamismunur og annrík dagskrá hafi stíað honum og fyrrverandi eiginkonu hans í sundur. Þó hafi sundrunin óneitanlega skilið eftir ákveðið tómarúm.

„Ég ætla ekki að neita því að upp kom viss söknuður gagnvart nánd og snertingu og spilaði það svo sannarlega hlutverk í ákvörðun minni um að sækja svona þjónustu í upphafinu,“ segir Sigurður og kveðst vera sjálfur afar spjallgjarn í þeim tímum sem hann sótti. Segir hann að séu afar opnar reglur í sinni þjónustu um hvernig viðkomandi knúsþiggjandi vill bera sig í tímunum.

„Mér finnst voða þægilegt að spjalla, um þá allt á milli himins og jarðar. Síðan er fullt af fólki sem kýs þögnina frekar og er ekkert athugavert við það,“ segir hann.

BLENDNAR VIÐTÖKUR

Þá segir Sigurður kórónuveirufaraldurinn hafa sett strik í reikninginn í sínu lífi þegar samkomubönn tóku gildi en þá jókst þörfin fyrir mannlegum samskiptum og nánd. „Sú þörf var nú alveg mikil áður en faraldurinn hófst, svo ég tel ekki ólíklegt að þetta sé uppsafnað í mörgum,“ segir Sigurður.

Sigurður tekur fram að Íslendingar séu almennt opnir, þá töluvert meira svo en fólk í Bandaríkjunum. Þykir honum furðulegt að knúsþjónustur séu ekki algengar á Íslandi í ljósi vinsælda þeirra erlendis. Þó hafa viðbrögð verið blendnar þegar þjónusta Sigurðar fór að spyrjast út en vill hann meina að þær séu byggðar á misskilningi.

„Fólk vill alltaf halda því fram að þetta sé kynferðislegt og mörgum finnst erfitt að trúa að svo sé ekki,“ segir hann.

„Ég hef bæði fengið jákvæð viðbrögð við þessu en að sama skapi voru einhverjir á samfélagsmiðlum sem fóru að gagnrýna mig fyrir hluti sem tengjast þessari þjónustu ekki á neinn veg.“

Sigurður vitnar þarna meðal annars í neðangreindar Twitter-færslur, þar sem skjáskoti var dreift með eftirfarandi ummælum.

ég er að fara að fá heilablóðfall

Sigurður segist ekki vilja skilgreina sig sem neitt ákveðið, þá síst þegar orð koma upp eins og „flagari“ eða „kvennabósi.“ Þó stendur hann taktfastur við ummælin að ofan og telur sig sannfærðan um eigið ágæti í einkalífinu að eigin sögn. „Ég hef sagt það áður og ég segi það aftur, konurnar eru alltaf í forgangi,“ segir hann.

Vill þó Sigurður meina að ferlið að koma knúsþjónustunni upp hefur tekið lengri tíma en áætlað var. Á daginn hefur hann í nógu að snúast í dagvinnunni, sem hann telur vera hið jákvæðasta mál, en knúsþjónusta hans verður fyrst og fremst hliðarverkefni.

„Ég er ekki að fara út í þetta í gróðaskyni. Markmiðið mitt er meira að hjálpa fólki sem er í þessari stöðu, fólki sem er ekki að fá næga snertingu. Það hefur jafnvel verið sýnt fram á að það getur leitt til þunglyndis og ýmis konar kvilla. Það kom líka mjög skýrt fram í faraldrinum hvað þetta er mikilvægt. Við erum öll tilfinningaverur,“ segir Sigurður og tekur sérstaklega fram að þjónusta hans verði opin öllum kynjum, þá ekki einungis konum líkt og umtal víða hefur gefið til kynna.

„Það eru allir velkomnir,“ segir hann.

Ekki missa af...