Söguleg rassamæling í sjónvarpi: „Það eru svona hlutir sem skipta máli“

„Mín tímamót sem kvikmyndagerðarmaður er þegar ég sé Twin Peaks,“ segir Baldvin Z í fyrsta þætti Sandkorns, þar sem þáttaröðin Svörtu Sandar er rædd. Meðstjórnandi er Tómas Valgeirsson.

Svörtu Sandar fóru í gang á jóladag á Stöð 2. Baldvin Z leikstýrir og skrifar handrit ásamt Aldísi Amah Hamilton, Ragnari Jónssyni og Andra Óttarssyni. Aldís Amah fer einnig með aðalhlutverkið.

Fyrstu tveir þættirnir hafa vakið athygli, meðal annars fyrir raunhæfa birtingarmynd af störfum lögreglu, leik og samtöl.

Í Sandkorni grandskoða Baldvin og Tómas hvern og einn þátt fyrir sig. Þeir skoða framvindu sögunnar, persónurnar og ýmis konar þemu. Leikstjórinn deilir einnig sögur úr persónulega lífinu og hvernig hinir ólíklegustu hlutir tvinnast saman; til að mynda áhrif þess að hafa horft á og notið sjónvarpsþáttanna Twin Peaks (e. Tvídrangar) með móður sinni. 

Sjá einnig: „Rótgróið í mér sem kvikmyndagerðarmaður“

Í fyrsta þættinum fengu áhorfendur einmitt að sjá atriðið með líkfundinum og vakti athygli hversu raunverulegt það er í raun og veru. Eins og áður segir er Ragnar Jónsson lögreglumaður einn af handritshöfundum Svörtu sanda og kom hann því inn með ráð til að gera atriðin eins raunveruleg og hægt er.

Lík finnst í fjörunni við Glerársanda og rannsóknarlögreglukonan Aníta slæst í för með teyminu sem rannsakar það. Tæknimaður frá lögreglunni rassamælir líkið svo hægt sé að meta hversu langt er liðið frá því að viðkomandi féll frá.

Baldvin ræðir rassamælingarsenuna sem að öllum líkindum brýtur blað í geira íslenskra morðsagna og sé jafnvel fyrst sinnar tegundar. „Þegar þeir mæla líkið af Úlriku á ströndinni, kippa niðrum hana og stinga mæli í rassinn, hefur þú einhvern tímann séð þetta áður í sjónvarpi?“ spyr Baldvin í hlaðvarpinu og bætir við að breskir meðframleiðendur þáttanna höfðu mikinn áhuga á þessu einstaka atriði og spurðu töluvert út í það í framleiðsluferlinu.

„Þetta er alltaf gert. Hitinn á líkinu er athugaður til að geta reiknað út hvað er langt síðan að manneskjan dó og þetta er leiðin. Raggi sagði mér þetta. Ég var alveg klár á því að þetta myndi fara í seríuna. Það var engin spurning. Það eru svona hlutir sem skipta máli.“

Fyrstu tveir þættirnir eru aðgengilegir á Stöð 2 og þriðji þáttur er sýndur sunnudaginn 2. janúar.

Sandkorn er hlaðvarp á vegum 24 sem fylgir hverjum og einum þætti. Það er aðgengilegt á Spotify, öllum helstu hlaðvarpsveitum og YouTube.

Ekki missa af...