Söguleg draumahöll í Krókhálsi til sölu – 365 þar lengi til húsa

Sögulegt vinnurými, sannkölluð draumahöll, með mikla sögu í íslenskum fjölmiðlakúltúr á Íslandi – er nú til sölu, Alda fasteignasala skráði í gær eignina á markaðinn en um er að ræða þúsund fermetra skrifstofuhúsnæði á þriðju hæð. Stöð 2 og 365 Miðlar störfuðu lengi í húsnæðinu en þar má finna fjöldan allan af skrifstofum, stórt eldhús og rými sem eitt sinn var upptökustúdíó. Hægt er að skoða myndirnar hér að neðan.

Saga hússins er merk og mörg fyrirtæki af ýmsu tagi hafa kallað það heimili sitt frá árinu 1987. Framleiðslufyrirtæki hafa komið og farið. Leigjendur hússins hafa komist í kast við lögin.

Verðið er 255 milljónir króna, nokkru meira en fasteignamatið sem er einungis 65,6 milljónir. Tíu herbergi eru skráð.

STÖÐ 2 OG FÓSTBRÆÐUR

365 miðlar voru lengi í húsnæðinu með fréttastofu sjónvarps og útvarps. Einna helst ber að nefna að stúdíóið var nýtt til upptöku á mörgum sketsum Fóstbræðra sem framleiddir voru á árunum 1997 til 2001.

Fréttastofan var í sama stúdíói og enn er hægt að greina nokkurn veginn hvernig rýminu var skipt upp.

Á ganginum er svo að finna fjöldan allan af skrifstofum og tvö rými sem hafa að öllum líkindum verið nýtt í útvarpsupptökur.

Fréttastofan flutti úr húsnæðinu í Skaftahlíðina árið 2005. Sum starfsemi varð eftir, meðal annars voru spjallþættirnir Logi í Beinni teknir upp í stúdíóinu á meðan hann vann hjá 365.

LITRÍK SAGA

Eftir að Stöð 2 yfirgaf vettvanginn tók framleiðslufyrirtækið Stórveldið við og var lengi vel í húsinu. Stórveldið var í eigu Sigmars Vilhjálmssonar og Huga Halldórssonar, en fyrirtækið rak meðal annars sjónvarpsstöðina Bravó. Stórveldið hætti störfum árið 2016.

Alls kyns atburðir hafa þó litað húsið í gegnum tíðina. Árið 2017 komst upp um stórfellda kannabisræktun í kjallara hússins. Vísir sagði frá.

Í dag eru ýmis fyrirtæki starfrækt í húsinu sem virðast undanskilin sölunni. Kaupendur fá því nágranna eins og tækniþjónustuna Herra Snjall í kaupbæti.

Ekki missa af...