Sjálfstæðismenn vilja loka inni ketti: „Er þetta ekki flokkurinn sem er á móti boðum og bönnum?“

„Mér finnst þetta fáránlegt og röng ákvörðun“ segir Mía Svavarsdóttir, Akureyringur og kattaeigandi, um fyrirhugað bann bæjarins við lausagöngu katta. Akureyri.net greindi frá því í gær að frá og með 1. janúar 2025 verða kettir að halda sig á heimilum sínum í bænum.

Mía telur rökin í umræðunni ekki nógu góð. / Mynd: Mía Svavarsdóttir

Eva Hrund Einarsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillöguna sem átti upphaflega að endurskoða samþykktir bæjarins um kattahald. Við umræður kom í ljós að meirihluti bæjarstjórnar vildi ganga lengra en það.

Mía er búsett í Hollandi en er fædd og uppalin á Akureyri. Hún tjáði sig um málið á Instagram reikning sínum, en hún er mjög ósátt við ákvörðun bæjarstjórnar.

SVO ERU MÖRG ÖNNUR DÝR SEM SKÍTA Í BEÐIN

Mía segir að rökin séu að kettir skíti í beð fólks og drepi fugla. „Það er það eina sem ég hef heyrt í umræðunni þannig að ég skil ekki alveg rökin fyrir þessu. Það eru til margar leiðir til að koma í veg fyrir að köttur skíti í beðin þín. Svo eru bara mörg önnur dýr sem skíta í beðin hjá þér.“

Hún tekur einnig fyrir þau rök að lausagöngu skal banna vegna þess að kettir eru drápsdýr. „Ég veit um svo marga sem er alveg sama um þetta. Mennirnir sjálfir eru að skjóta fuglana okkar, ekki bara kisurnar. Maður hefur heyrt einn og einn tala um þetta, þannig að ég trúi ekki að þetta sé vilji meirihlutans. Hvernig getur ein lítil kisa verið að bögga einhvern svona mikið að það þarf að loka þær allar inni?“

Í Instagram story færslu sinni minnist hún einnig á að sumir hafa þau rök að útikisur komi óboðnir í heimsókn til fólks. „Það eru margar leiðir til þess að sjá til þess að kisan komi ekki eftur, skvetta á vatni á hana o.s.frv,“ skrifar Mía. „Taktu því líka bara sem hrósi að hún sé spennt að koma til þín!“

Að hennar mati eru þetta ekki nógu góð rök. Mía segist vilja setjast niður með þeim sem ákváðu þetta og vita nákvæmlega hvers vegna.

FJÖGUR KUSU Á MÓTI

Eins og áður kom fram var tillagan samþykkt af bæjarstjórn með sjö atkvæðum gegn fjórum. Í tillögunni stendur að umtalsvert meiri kraftur verði settur í að framfylgja samþykktunum; „með sérstakri áherslu á ábyrgð eigenda, skráningarskyldu og fræðslu.“

Kisinn þarf að halda sig inni frá og með 1. janúar 2025 / Mynd: Mía Svavarsdóttir

Hilda Jana Gísladóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar lagði fram bókun um málið, en hún er ein þeirra sem kaus gegn tillögunni. Bókunin hljóðar svo:

Við hörmum þá niðurstöðu bæjarstjórnar að banna alfarið frjálsa útivist hjá kisum. Bæjarfélagið hefur lítið sem ekkert gert til að framfylgja þeim samþykktum sem nú þegar eru í gildi né látið á það reyna að breyta samþykktum í þá veru að sem flestir geti vel við unað. Hægt hefði verið að stíga það skref að heimila ekki útivistina að næturlagi og yfir varptíma fugla. Mikilvægara hefði verið að leita lausna en að grípa til banns. Fyrst grípa á hins vegar til banns hefði verið eðlilegra að setja sólarlagsákvæði, þannig að þær kisur sem nú þegar eru útikisur fái að vera það út sinn líftíma.

GLEÐIEFNI AÐ HITTA KETTI Á GANGSTÉTTUM

„Þetta mun gera mörgum lífið leitt sem eiga útikisur,“ segir Mía. „Mig langar að vita hvernig þau eiga að banna kisunum sínum að fara út. Ég er búin að eiga kött sem er búinn að vera útiköttur í fimm eða sex ár. Ég bara bið fyrir foreldrum mínum að halda honum inni.“

Það er ekki víst hvað nákvæmlega bæjarbúar eiga að gera við kettina sem ekki lengur mega vera úti, né hvað verður gert við þá ketti sem ferðast ólöglega um bæinn.

„Ef rökin eru að fólk er hrætt við ketti þá er alveg fullt af fólki sem er skíthrætt við hunda sem gelta,“ segir Mía og tekur fram að hún hafi engan vilja til þess að banna hunda, þetta sé einungis dæmi til að hugsa um.

Gísli Marteinn Baldursson tjáði sig um málið á Twitter síðu sinni í dag. „Það er gleðiefni fyrir börn og fullorðna í Rvk að hitta ketti á gangstéttum og í görðum og gefur lífinu lit. Furðuleg ákvörðun.“

Mía tekur í sama streng. Margir geri daginn sinn við það að hitta kött á förnum vegi og klappa honum.

„Fólk sem á ekki kisur eða geta ekki átt kisur, geta séð þær úti og klappað þeim og dýrka það alveg. Kettirnir elska það líka, þeir elska að láta klappa sér. Þetta eru meinlaus dýr, þeir gera þér ekki mein nema þú gerir þeim mein. Bara eins og með önnur dýr.“

Hún segist vera ánægð að búa ekki á Akureyri þegar þetta er ákveðið. „Ég elska bæinn en mér finnst þetta ekki vera í anda Akureyrar.“

Ekki missa af...