Sigurmynd Írisar á loftslagsþingi Evrópu: „Ég kunni í rauninni ekkert á myndavél“

Ljósmynd af manneskju að sleikja jörðina í formi ískúlu hefur ekki bara sigrað keppni hér á landi, heldur fékk hún ungmennaverðlaun í keppni Umhverfisstofnunar Evrópu. Myndina tók Íris Lilja Jóhannsdóttir, átján ára nemandi Fjölbrautaskólans við Ármúla.

Mynd Írisar lenti í fyrsta sæti í keppninni Ungt Umhverfisfólk 2021 á framhaldsskólastigi í maí síðastliðnum. Í umsögn dómnefndar segir:

„Ein mynd segir oft meira en þúsund orð. Þessi listræna nálgun á hækkandi hitastig jarðar og neysluhyggju okkar grípur strax augað og vekur mann til umhugsunar.“

Um er að verkefni á vegum Young Reporters for the Environment. Þar taka þátt þúsundir ungmenna í 44 löndum um allan heim. Myndin var svo send í Evrópukeppnina Climate Change Pix þar sem hún hlaut verðlaun núna í september.

MATARLITUR OG ÍS

„Ég var semsagt í ljósmyndaáfanga í FÁ, hafði aldrei tekið neinar myndir á ljósmyndavél og ég kunni í rauninni ekkert á myndavél,“ segir Íris í samtali við 24.

Þá var verkefnið kynnt fyrir þeim í áfanganum og hugmyndin kviknaði. „Ég setti matarlit í ís og fékk mömmu til að vera módel. Hún elskar ís þannig að það var mjög hentugt. Hún er mjög stolt af því að þetta er komið svona langt.“

Sæt Tortíming. Módel myndarinnar er mamma Írisar, Laufey Írisar Guðmundsdóttir / Mynd: Íris Lilja Jóhannsdóttir

Ljósmyndin er það fyrsta sem Íris hefur gert sem tengist umhverfisvitund, en hún segist sjálf hugsa mikið um umhverfið.

„Ég held að flestir ungir séu að skilgreina sig þannig. Þetta er náttúrulega mjög mikilvægt, skrýtið að vera það ekki.“

En hvernig var að vinna keppnina?

„Það var mjög skrýtið, ég var ekki að búast við því. En það var ógeðslega gaman.“

Þetta er í annað sinn sem Landvernd er með verkefnið í boði hér á landi. Keppnin er á tveimur stigum, framhaldsskóla- og grunnskóla. Verkefni sem lögð voru inn í ár voru mismunandi eins og þau voru mörg, en þar mátti finna vefsíður, hlaðvörp, tölvuleiki og ljósmyndir.

TIL SÝNIS Á LOFTSLAGSRÁÐSTEFNUNNI

Í lok september var því svo lýst yfir að mynd Írisar hafi fengið ungmennaverðlaun í keppninni Climate Change PIX. Ljósmyndakeppnin gengur út á að sýna áhrif loftslagsvánnar. Sigurmyndin var af tveimur börnum sem hættu leik til að horfa á skógarelda í Króatíu.

Mynd Írisar fór í þá keppni þar sem hún fékk ungmennaverðlaunin. „Það var ennþá skrýtnara,“ segir Íris, en Það að heyra tölurnar, ég man ekki, eitthvað í kringum 400.000 að keppa, þetta var alveg klikkað.“

Ljósmyndin verður svo til sýnis á COP26 ráðstefnunni í Glasgow sem er mikill heiður. Um fimmtíu manna hópur fer frá Íslandi, ráðherrar, þingmenn og embættisfólk. Á ráðstefnuna mæta þjóðarleiðtogar og embættisfólk frá löndum um allan heim. Ráðstefnan hófst á sunnudaginn 31. október og er til 12. nóvember.

Ekki missa af...