Sigurður segir Loga Bergmann hafa beitt sig ofbeldi

„Ég er mjög feginn að þetta sé talin tímaskekkja í dag eða í áttina þá leið,“ segir Sigurður Gísli Bjarnason, stundum kallaður Siggi knúsari, í samtali við 24. Hann fullyrðir á samfélagsmiðlum að Logi Bergmann fjölmiðlamaður hafi beitt sig ofbeldi í æsku. Sigurður segir að Logi hafi, ásamt öðrum, lagt hann í einelti alla hans grunnskólagöngu.

Í vikunni steig Vítalía Lazareva fram í hlaðvarpsþætti Eddu Falak, Eigin Konur, og sagðist hafa orðið fyrir kynferðisbrotum af hálfu þjóðþekktra manna, þar á meðal Loga.

Logi skrifaði stöðufærslu um málið í gær þar sem hann kvaðst saklaus og fullyrti að „hann hafi alla sína ævi haft andstyggð á hvers kyns ofbeldi“. Sigurður segist ekki geta tekið undir þetta.

„Þetta er ekki alveg rétt því hann beitti mér ofbeldi og einelti allan mína grunnskóla feril þar sem við vorum bekkjarfélagar sem krakkar og bjuggum í sömu götu,“ fullyrðir hann á Twitter.

Ég er saklaus af þeim sökum sem á mig hafa verið bornar undanfarna daga. Ég hef alla mína ævi haft andstyggð á hvers kyns ofbeldi, staðið með fórnarlömbum þess og stutt baráttu þeirra í gegnum tíðina. Ekkert er fjær mér en að þröngva annarri manneskju til kynferðislegra athafna. Ég er hins vegar sekur um að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks með því að hafa farið inn í herbergi sem ég átti ekki að fara inn í. Það var taktlaust og heimskulegt og ég hef þegar tjáð viðkomandi að ég taki ábyrgð á því og mér þyki það leitt,“
sagði Logi í yfirlýsingu inni á Facebook og bætti við að hann ætlar ekki að tjá sig meira um málið.

Ber að geta þess að ekki náðist í Loga við vinnslu fréttarinnar.

„Hann hefur alltaf virkað á mig sem karlremba“

Sigurður vakti nokkra athygli síðla árs í fyrra þegar hann fullyrti á Twitter að hann væri meðal örfárra sem gæti gefið konum fullnægingu. Svo stór fullyrðing varð til þess að fjölmiðlar vildu vita meira, en Sigurður væri bæði til viðtals í fyrrnefndum þætti Eddu Falak sem og á 24. Sigurður starfar sem sérfræðingur í rekstrarlausnum og netöryggi hjá Advania en hyggst fara af stað með þjónustu sem hann lýsir sem knúsþjónustu. Þaðan kemur viðurnefnið.

Sjá nánar: Söknuður Sigurður eftir skilnað rak hann í rekstur: „Fullt af fólki sem kýs þögnina“

„Ég er ekki þannig einstaklingur að geta svarað því hvort hann eigi allt það skilið sem hefur verið greint frá, en ég get ekki sagt að þetta komi mér á óvart. Við vorum saman í grunnskóla, sem á þeim árum voru níu ár og þetta var linnulaust á þeim árum. Ég er búinn að blokka meirihlutann af þessum árum en ég man vel eftir hrottaskapnum frá honum,“ segir Sigurður.

Hann segist alltaf hafa upplifað Loga sem karlrembu. „Þetta var þetta klassíska einelti. Hann þótti alltaf vinsæll og var hann og hans lið mikið í því að kalla mig nöfnum, sparka og lemja. Hann hefur alltaf virkað á mig sem karlremba. Ég hef þó aldrei verið hlynntur svona karlrembuskap, en þannig hef ég alltaf upplifað Loga og ég varð fyrir ítrekuðu ofbeldi fyrir að hugsa ekki eins. En ég neitaði að láta hann vaða yfir mig eða buga mig.“

Ekki missa af...