Siðanefnd eða verklagsnefnd?

Það er ekki hlaupið að því að skilgreina siðferði. Hugtakið er loðið og margrætt, siðferði hvers og eins er ólíkt. Reynsluheimur fólks, uppeldi og menntun, bæði formleg og óformleg, eru bara fáeinir vísar um það sem byggir siðferði okkar sem manneskjur.

Flækjustig siðferðis er ekki efni þessa pistils. Ég gæti farið í gegnum heilan helling af félagsfræðilegum pælingum á næstu blaðsíðum, en ég vil helst ekki steindrepa ykkur úr leiðindum.

Til að setja punkt fyrir aftan siðferðið þá ætla ég bara að segja þetta: Við höfum flest vilja til að vera hluti af samfélaginu sem við fæddumst í. Við vitum sirka hvað er rétt og hvað er rangt. Hvað má og hvað má ekki.

Aftur, ég hef ekki í hyggju að fara í heimspekilega umræðu um siðferði. Ég ætla að fjalla um eitthvað sem er ekki nógu mikið rætt í dag; siðareglur okkar blaðamanna.

ÞAÐ SEM DÓMSTÓLAR TÆKLA EKKI

Vegna margbreytileika siðferðis er alltaf vandasamt að dæma eitthvað út frá siðferðislegum reglum. Siðanefndir eru starfræktar í flestum ef ekki öllum stofnunum og fagfélögum. Álitamál sem koma upp í starfi eru leyst með vísun til siðanefndar sem fjallar um málið út frá siðareglum og tekur svo ákvörðun um næstu skref. Það sem gerist næst er algjörlega á hendi hverrar og einnar nefndar. Margrætt, eins og siðferðið.

Það er nefnilega málið að siðferði er ekki samheiti við lög. Segja má að siðanefndir tækli álitamálin sem ekki er hægt að flokka sem lögbrot. Siðanefnd dagsins er Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands.

Siðareglur blaðamannafélags Íslands eru sex talsins. Textinn kemst allur fyrir á einu A4 blaði. Til samanburðar eru siðareglur einstakra miðla talsvert lengri. Á RÚV eru reglurnar rétt rúmar tvær blaðsíður á meðan breski fjölmiðillinn The Guardian er með þrettán blaðsíður af reglum. New York Times er með tíu þúsund orða doðrant. Þar er allur andskotinn til umræðu, meðferð á nafnlausum tilvitnunum, hvernig á að afþakka gjöf sem væri mögulega hægt að túlka sem mútur og allt þar á milli.

Nú skulum við spyrja okkur; hver er tilgangurinn með siðareglum? Dómskerfið sér um það þegar blaðamenn brjóta lög, með meiðyrðum eða annars konar ólöglegum fréttaflutningi. Þá er það hitt, sem er ekki endilega ólöglegt, heldur siðferðilega rangt. Eitthvað sem rýrir trúverðugleika ekki bara blaðamannsins, heldur fjölmiðla í heild.

Almenningur á að geta horft á hvaða frétt sem er frá viðurkenndum fjölmiðli og hugsað „Ég treysti því að þetta sé sannleikurinn, af því að blaðamenn vinna eftir ströngum siðferðilegum reglum.“

Er hægt að halda því fram blá kalt að almenningur horfi svo jákvætt á fjölmiðla á Íslandi? Því er erfitt að svara. Maður hefði haldið að Siðanefnd ætti einmitt að sjá til þess. Það er ekki endilega staðan.

RÉTT FARIÐ MEÐ EFNIÐ

Eitthvað sem hefur böggað mig í mörg, mörg ár er þegar venjulegt fólk segist hafa „lent í“ einhverjum fjölmiðli. Venjuleg manneskja sem lifir sínu lífi, fremur enga glæpi, er ekki í sjónvarpinu vikulega og hefur engan áhuga á að vera fjölmiðlamatur.

Nýverið fjallaði 24 ítarlega um sögu aðstandenda manns sem lést úti í Mexíkó, Atla Þórs Ólafssonar. Það var þrautinni þyngra að fá jarðneskar leifar hans heim en það tókst eftir sex vikna óvissu. Daginn sem sem jarðsyngja átti Atla Þór endurbirti Mannlíf minningarorð um manninn í formi fréttar. Aðstandendum var ekki skemmt.

Fréttin var kærð til siðanefndar með vísun í þriðju grein siðareglna; „blaðamaður forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Því til viðbótar var send beiðni til Mannlífs um að fjarlægja greinina af vefnum. Að mati aðstandenda átti umfjöllun Mannlífs ekkert erindi til almennings.

Sjá einnig: Frétt Mannlífs gerði sorg Brynju að martröð – Bar son sinn til grafar sama dag:

Siðanefnd taldi Mannlíf ekki hafa brotið gegn siðareglum. Í úrskurðinum segir;

„Birting minningargreinar í dagblaði er opinber birting. Siðanefnd BÍ telur að endurbirting eða útdráttur úr minningargrein í öðrum miðli fari ekki í bága við Siðareglur BÍ enda sé þar ekki vikið frá upprunalegum texta eða efnið brenglað.“

Sem sagt, fréttin var rétt unnin og rétt gerð, samkvæmt þeim faglegu stöðlum sem eru settir fyrir blaðamenn. Gott og vel.

Það er samt ekki svarað siðferilega álitamálinu sem kemur upp. Blaðamaður endurbirtir minningarorð og setur upp í stíl sem fær fólk til að ýta og jafnvel deila. Þetta er gert í óþökk aðstandenda og án leyfis eða samráðs. Ef blaðamaður hefði haft samband við aðstandendur og spurt hvort hann mætti vinna frétt úr minningarorðunum hefði hann pottþétt fengið kurteist nei.

Þrátt fyrir þetta kurteisislega nei þá hefði blaðamaðurinn samt getað gert frétt úr minningarorðunum. Haldið efninu óbrengluðu og ekki vikið frá upprunalegum texta. Aðstandendur hefðu brugðist við á sama hátt og líklegast kært umfjöllunina. Sama niðurstaða hefði komið út: Þeir brjóta ekki siðareglur nema þeir brengli efnið á hátt sem er ófyrirgefanlegur.

Ef siðanefnd er í rauninni ekki að dæma út frá öðru en verklagsreglum um fagmannlega meðferð á heimildum, þá á ég persónulega mjög erfitt með að treysta siðanefnd til að raunverulega sjá um mál sem hægt er að kalla siðferðileg álitamál.

Ef siðanefnd ætlar ekki að tækla mál eins og þetta þá sé ég ekki tilganginn í að hún heiti siðanefnd. Ef fólkið sem situr í nefndinni ætlar að dæma kærur út frá fagmennsku og verklagi, þá má hún bara heita fagmennskunefnd eða verklagsnefnd.

Það má rífast fram og til baka um þetta málefni, eins og hefur oft gerst í rökræðum fjölmiðlamanna. Ef eitt verður leyft þá er verið að setja fordæmi fyrir öðru.

Á meðan allir eru að rífast eru syrgjendur látinna fjölskyldumeðlima hrifsaðir inn í opinbera umræðu og ákveðnir fjölmiðlar peningavæða andlátin með því að birta auglýsingar meðfram endurbirtum minningarorðum.

En það er kannski bara siðferðilegt álitamál.

Ekki missa af...