Safna graskerum til jarðgerðar: „Algjört win-win-win“

Íslensk heimili eru mörg hver með útskorin grasker sem er óvíst hvað nákvæmlega á að gera við. Björk Brynjarsdóttir hjá Jarðgerðarfélaginu setti færslu inn á Vesturbæjarhópinn á Facebook þar sem þau bjóðast til að taka við þessum ógnarlegu hausum og jarðgera.

„Við erum á því að það er ekkert sem heitir lífrænn úrgangur,“ segir Björk í samtali við 24. „Það er bara úrgangur ef þú kemur fram við það sem slíkt.“

Hægt að heyra í Jarðgerðarfélaginu til klukkan 13 í dag til að láta vita af graskerum til jarðgerðar. Eftir það verða þau á ferðinni í Hlíðunum og Vesturbæ að sækja grasker. Hausarnir þurfa að vera skornir í litla bita og geymdir fyrir utan húsið, vafið inn í bréfboka eða dagblað.

SVIPAÐ OG AÐ GERA SÚRKÁL

Jarðgerðarfélagið er sprotafyrirtæki sem hóf störf árið 2019. „Við þróum aðferðir til að jarðgera lífræn hráefni á nýjan máta. Þau eru gerjuð, bara á svipaðan hátt og við gerum súrkál.“

Aðferðin sem er notuð heitir bokashi og er vistvæn leið til að endurnýta lífrænan úrgang.

„Ég kynntist þessari aðferð þegar ég bjó erlendis og var að fylgjast með þeim verkefnum sem þetta var notað,“ segir Björk. Við heimkomu ákvað hún ásamt fleirum að kanna hvort það væri áhugi hér fyrir þessari aðferð. „Það var svo, það var fullt af fólki sem mætti á vinnustofur hjá okkur. “

Hægt er að nota jarðgerð hráefni til ýmissa verka. / Mynd: Björk Brynjarsdóttir

Hráefnin eru svo notuð í margt eftir jarðgerð, þar á meðal uppgræðslu og sem lífrænn áburður. „Við erum með verulega eyddan jarðveg út um allt og þetta hjálpar, sem er algjört win-win-win.“

Björk segir það vera mikilvægt að svona þjónustur séu í boði fyrir fólk. „Í raun erum við bara samfélag sem langar að gera vel, en við erum öll bara að gera svo ótrúlega mikið. Við viljum fókusa þjónustuna okkar á þann veg að sveitarfélögin geri meira, ekki bara að einstaklingurinn þurfi að gera allt.“

Í dag er Jarðgerðarfélagið að vinna með Rangárvallasýslu að prófa nýja flokkun á úrgangi. „Við fengum styrk frá Loftslagssjóði fyrir það, erum með í kringum 40 heimili þar sem eru að prófa þetta með okkur.“

Ekki missa af...