Rússíbani Gísla Darra: „Þetta var svolítið stopp og start ferli“

„Það sem heillar mig líklegast mest við „animation“ ferlið er þessi fullkomna stjórnun á römmunum. Það er gefið að ef þú hefur tíma, þá geturðu í rauninni gert hvað sem er.“

Þetta segir Gísli Darri Halldórsson kvikmyndagerðarmaður. Hann er leikstjóri og handritshöfundur teiknimyndarinnar Já-fólkið en saman framleiða þeir Arnar Gunnarsson fyrir framleiðslufyrirtækið Caoz. Stuttmyndin hefur víða vakið athygli og þá ekki síst þegar hún var tilnefnd til Óskarsverðlaunanna í vor í flokki bestu teiknuðu stuttmyndar. Því miður hlaut hún ekki styttuna stóru en dregur það ekkert frá þeim magnaða árangri sem myndin hefur átt frá fyrstu frumsýningu hennar.

Myndin var fyrst sýnd á RIFF í fyrra. Hún hlaut þar viðurkenningu fyrir bestu íslensku stuttmyndina, auk þess að hafa hlotið verðlaun á Fredrikstad Animation Festival og verðlaun yngstu áhorfendanna (Children’s Choice Award) á Nordisk Panorama.

Þá vann hún einnig í flokki Bestu evrópskrar stuttmyndar á 3D Wire, en sú hátíð er haldin árlega á Spáni og er með þeim stærri í Evrópu þar sem áhersla er lögð á tölvuleiki, teiknimyndir og ýmiss konar nýmiðla. Dómnefndir hafa sérstaklega hrósað stíl, húmor og enduráhorfunargildi teiknimyndarinnar.

Í samtali við blaðamann segist Gísli Darri vera hæstánægður með þennan árangur. Rússíbaninn allur hafi verið með ólíkindum í þessum efnum.

Föndur við Flash kveikti á perunni

Já-fólkið er níu mínútna löng og segir leikstjórinn myndina vera óð til hversdagsleikans, en þar eru endurtekningar á vönum, rútínum og speglun sjálfs hluti af meginþemanu. Myndin segir frá íbúum í einn sólahring en þegar líða tekur á daginn fer lífsmynstur hvers og eins að afhjúpa persónurnar.

Gísli Darri hóf vinnu við myndina árið 2013 og segir það hafa reynst vel að hafa framleiðsluferlið langt. „Þetta var svolítið stopp og start ferli. Myndin var heillengi í vinnslu, en það leyfði henni líka að vaxa,“ segir leikstjórinn.

„Þetta er verkefni sem ég kom með til þeirra [hjá Caoz] en þeir hafa mikla reynslu af „animation“ vinnu fyrir barnamyndir. Já-fólkið var þó ekki sérstaklega ætluð börnum þegar ég skrifaði myndina, en það er gaman að sjá viðbrögðin hjá þeim hópi og fleirum,“ segir Gísli Darri.

Undir áhrifum South Park

Leikstjórinn segist að mörgu leiti hafa slysast inn á svið teiknimynda. „Ég horfði á teiknimyndir eins og allir aðrir en hafði aldrei „animation“ að markmiði.

Ég var á málabraut í Verzló og var með enga drauma um að fara í listir. Ég hugsa að South Park hafi eitthvað spilað inn í þetta og sú staðreynd að ég tók ekki mikinn þátt í félagslífinu. Þá tók ég þátt í stuttmyndakeppni á vegum skólans og langaði að skilja eitthvað fótspor þarna eftir mig í skólanum. Ég gerði mynd og hún vann og þá varð ekki aftur snúið,“ segir Gísli Darri.

Í kjölfar fyrsta sigursins í stuttmyndakeppni bauðst leikstjóranum verkefni sem studdust við teikningu á Flash-forriti. „Áhuginn á þessari grein varð til í þessu og þá sá ég að ég hafði alls konar hugmyndir sem mig langaði til að gera.

Gísli Darri segir að hollt sé að þróa persónulegan stíl en hann er sjálfur í „love/hate“ sambandi við skopmyndir, eða karikatúr-stíl almennt.

„Á einn veg ertu í rauninni með styttri leið til að skapa persónur, sem er jákvætt þegar þú ert að gera stuttmyndir. Á hinn bóginn eru ákveðnir fordómar líka, ef svo má orða það. Það er stundum svolítið illa farið með karikatúra í teiknimyndum, jafnvel kynt undir vissar týpur eða staðalmyndir. Maður reynir að þræða þarna einhvern þægilegan milliveg,“ segir Gísli Darri.

Ekki missa af...