Rispuð plata grátkórsins skellt á fóninn enn og aftur

Það er grátbroslegt að heyra í fulltrúum atvinnulífsins, Seðlabankanum og stjórnvöldum tala um mikilvægi þess að kröfur verkalýðshreyfingarinnar séu hófstilltar og innistæða sé fyrir þeim. 

Við sem tökum þátt í kjarasamningsgerð fyrir hönd okkar félagsmanna þekkjum þennan grátkór vel. Því þessari rispuðu plötu grátkórsins er ætíð skellt á fóninn um að verkafólk þurfi að axla ábyrgð við að viðhalda stöðugleika í íslensku samfélagi í hvert sinn og styttist í að kjarasamningar verkafólks losna.

Þessi rammfalski grátkór syngur hátt, „ætlar verkafólk að ógna stöðugleikanum, stuðla að hækkun vaxta og skapa óðaverðbólgu með óraunhæfum kröfum“.

Kröfum verkafólks sem byggjast á því að ráðstöfunartekjur verkafólks dugi fyrir nauðþurftum frá mánuði til mánaðar og stuðli að það geti haldið mannlegri reisn.

Þessi rammfalski grátkór syngur ekkert um hvort ekki sé löngu tímabært að draga þó ekki væri nema örlítið úr arðgreiðslum og kaupum á eigin bréfum til fjárfesta til að stuðla að því að skapa því fólki sem skapar hagnaðinn og arðgreiðslurnar geti lifað af sínum launum frá mánuði til mánaðar.

En rétt er að geta þess að arðgreiðslur námu t.d. í fyrra 80 milljörðum sem er litlu minni upphæð en nam öllum launahækkunum til alls launafólks á Íslandi.

Í ár er spáð að útgreiðslur á arðgreiðslum til fjárfesta geti numið 200 milljörðum og hugsið ykkur það er á sama tíma og grátkórinn segir lítið sem ekkert svigrúm sé til launahækkana til handa verkafólki. 

Það má áætla að laun og hlunnindi á íslenskum vinnumarkaði sé upp undir 1400 milljarðar á ári sem þýðir að 200 milljarða arðgreiðslur og kaup á eigin bréfum sé töluvert hærri upphæð en komandi kjarasamningar til handa launafólki á Íslandi muni kosta.

Já, grátkórinn syngur ekkert um að draga þurfi úr arðgreiðslum til fjárfesta og eða taka verði á misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuði í íslensku samfélagi.  

Nei, enda er grátkórinn fjármagnaður af fjármálaelítu þessa lands og þeim leiðist ekki að heyra þessari rispuðu plötu spilaða í hvert sinn og kjarasamningar verkafólks eru að losna. 

Sérhagsmunakórinn syngur sitt lag til höfuðs launafólki í hvert sinn og kjarasamningar losna, alveg eins og lagið hæ hó jibbí jei það er kominn sautjándi júní er spilað í hvert sinn og 17. júní rennur upp!

Vilhjálmur Birgisson skrifar og deilir þessari frétt um metár í útgreiðslum.

Ekki missa af...