Ríkisstjórnin ætlar að takmarka verkföll launafólks

Það er ekki hægt annað en að hafa verulegar áhyggjur þegar maður les stjórnarsáttmálann, en þessar áhyggjur mínar byggjast á því að undir kafanum um vinnumarkaðsmál er talað um að efla valdheimildir ríkissáttasemjara. 

Það liggur fyrir að mínu mati að þessar auknu valdheimildir byggjast á því að ríkissáttasemjari hafi völd til að fresta og takmarka verkföll launafólks.  Allir á íslenskum vinnumarkaði vita að verkafallsréttur launafólks er einn lang mikilvægasti réttur sem launafólk hefur og þann rétt má ekki undir nokkrum kringumstæðum skerða eða takamarka.

Það hefur verið blautur draumur stjórnvalda og vissra stjórnmálamanna að rýra og veikja þennan mikilvæga rétt launafólks til að knýja í gegn réttlátar og sanngjarnar kröfur sínar.

Þessar auknu valdheimildir ríkissáttasemjara er einn liður í því að færa vinnumarkaðinn í átt að svokölluðu Salek þar sem samningsréttur launafólks er skertur og takmarkaður.

Það er afar mikilvægt að launafólk og verkalýðshreyfing standi fast í fæturna og beiti afli sínu að stöðva þessa fyrirætlan stjórnvalda.

Einnig er kveðið á um að leikreglur vinnumarkaðar verða skýrðar með nýjum starfskjaralögum, en rétt er að geta þess að nokkur stéttarfélög náðu að stoppa af frumvarp á síðasta þingi sem hefði skaðað launafólk ef umrætt frumvarp hefði náð að verða að lögum.  Þetta þekkja formenn  VR og Eflingar vel enda létu það vinna fyrir sig lögfræðilegt álit þar sem það kom fram að þessi lög væru ef eitthvað væri skaðleg fyrir launafólk.

Síðan er fleira þarna sem mér hugnast ekki eins og að lögfesta 15,5% iðgjöld í lífeyrissjóðina, enda ekkert tekið á því að launafólk fái aukið vald til að ráðstafa stærri hluta af 15,5% í frjálsan séreignasparnað.

Hvar er loforðið um að stíga skerf fyrir afnámi verðtryggingar sem búið var að lofa verkalýðshreyfinguni og eða taka húsnæðisliðinn úr vístölunni.? Ekkert um það í stjórnarsáttmálanum allt svikið.

Hvar er kosningaloforðið sem skilaði Framsókn þúsundum atkvæða en Framsókn lofaði að ríkið styðji við frístundir barna með árlega 60 þúsund króna greiðslu til allra barna og lækka þannig útgjöld fjölskyldna vegna frístunda.  Í stjórnarsáttmálanum er loforð hvað þetta varðar afar loðið og er þar vægt til orða tekið.

Vilhjálmur Birgisson er formaður Verkalýðsfélags Akraness og fyrrverandi varaforseti ASÍ.

Ekki missa af...