Rétt skal vera rétt

Hvert sem ég fer hitti ég fólk sem er þungbrýnt af áhyggjum og vill tala um stöðu Alþingis og lýðræðis hér á landi í kjölfar þess að kosningarnar voru staðfestar.

Ég óttast að þingheimur geri sér illa grein fyrir hvað þetta mál hefur mikil áhrif á almenna borgara og hvað það reynist þungt högg gagnvart trausti margra til löggjafans.

Auðvitað fennir í sporin og senn verður annað mál efst á dagskrá. Sumt er þó þess eðlis að það hverfur ekki. Sannleikurinn er gjarnan gæddur þessum þrjóska eilífðarendingarkrafti.

Sannleikurinn er sá að við kjósendur á Íslandi munum líklega aldrei vita hvort lögbrotin í Borgarnesi höfðu áhrif á niðurstöðu alþingiskosninganna 2021. Sannleikurinn er einnig sá að Alþingi reis ekki undir því verkefni að láta lýðræðið njóta vafans í málinu.

Ég spái því að líkt og aðrir þingforsetar fari Birgir Ármannsson senn að klifa á því hvernig þingheimur þurfi að haga sér til að varðveita virðingu Alþingis. Áfram verður sýnt í fréttum Rúv ef einhver Píratinn missir út úr sér blótsyrði í pontu, og uppsker glymjandi bjölluhljóm forsetans.

En virðing er, líkt og traust, tvíhliða samband. Það getur til dæmis reynst erfitt að bera virðingu fyrir því fólki sem ber almennt ekki virðingu fyrir öðrum manneskjum. Eins er erfitt að virða lýðræðisstofnun sem ver ekki grunnstoðir lýðræðis á ögurstundu.

Ég hitti eldri mann á fótboltaæfingu sonar í gær. Hann var með þennan þunga áhyggjusvip sem ég sé svo víða. Hann sagðist hafa hlustað á viðtal við konu í Norðvesturkjördæmi sem vildi að kosningin hefði verið ógilt. Aðspurð hvers vegna, svaraði hún einfaldlega:

„Af því rétt skal vera rétt”.

Ég get ekki hætt að hugsa um þetta svar. Það kjarnar nefnilega stóru myndina í þessu óheillamáli þjóðarinnar sem ég held að muni því miður hafa miklar og neikvæðar afleiðingar.

Rétt skal vera rétt – og hér fáið þið mynd af Laufskálarétt.

Höfundur er lögfræðingur og formaður Stjórnarskrárfélagsins

Ekki missa af...