Ráðherrakapall Andrésar: Verður þetta ný ríkisstjórn? Spáir breytingum hjá Sjálfstæðisflokknum

Andrés Jónsson almannatengill og stofnandi Góðra samskipta hefur starfað við fjölmiðla og almannatengsl í rúm tíu ár. Andrés þykir klókur og lunkinn að lesa í það sem á sér stað á bakvið tjöldin. Að þessu sinni spáir Andrés í skipan nýrrar ríkisstjórnar en spána setti Andrés fram á Twitter fyrir nokkrum dögum og þar sem þing verður sett í dag hefur 24 valið tíst Andrésar sem tíst dagsins. Í ráðherrakapli Andrésar eru sex konur og sex karlar, uppstilling á mögulegum ráðuneytum og leiðtogum þeirra.

Sjálfstæðisflokkurinn fær flest ráðuneytin, fimm talsins, Framsókn fær fjögur og Vinstri Græn fá þrenn. Ráðuneytin skipta mörg um flokk og mörg ný verða til, annað hvort er hlutverki þeirra breytt á einhvern hátt eða þau sameinuð á aðra vegu.

Rétt er að minna á að um samkvæmisleik er að ræða, allt eru þetta hugleiðingar og spár Andrésar og skorum á lesendur að taka þátt í leiknum.

Hver væri þinn ráðherrakapall?

SJÁLFSTÆÐISMENN FÁ NÝ OG GÖMUL RÁÐUNEYTI

Bjarni Benediktsson færir sig úr fjármálaráðuneytinu yfir í utanríkis. Það er dregið í efa í athugasemdum en Andrés kemur með frekari spá.

„Er smá risky ágiskun hjá mér. Ég er að veðja á að hann ætli að hætta eftir þetta kjörtímabil og langi að gera eitthvað nýtt síðustu 4 árin sín í stjórnmálum.“

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fer úr ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytinu og verður fjármálaráðherra. Ráðuneytið heldur því áfram innan Sjálfstæðisflokksins en síðan árið 1991 hefur sjálfstæðismaður setið í stólnum í fimm skipti af níu samtals.

Heilbrigðisráðuneytið fer aftur í hendur sjálfstæðismanna, en í sætið sest Guðlaugur Þór Þórðarson. Hann gegndi því hlutverki áður, í stjórn Geirs H. Haarde sem leystist upp í kjölfar hrunsins.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir færir sig um set og fær í hendur nýtt ráðuneyti, en það mun verða mennta-, framtíðar- og tækniráðherra.

Guðrún Hafsteinsdóttir fer ný í ráðherrastól en hún fær í hendur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið.

LÍTIÐ BREYTT HJÁ FRAMSÓKN

Andrés spáir fáeinum breytingum hjá Framsókn. Ráðuneytin breytast en fólkið ekki.

Sigurður Ingi Jóhannsson, formaður Framsóknar, fær innviða- og sveitarstjórnarráðuneytið. Það hljómar svipað og hans fyrra ráðuneyti.

Ásmundur Einar Daðason heldur áfram sem félags- og barnamálaráðherra, á meðan Lilja Alfreðsdóttir verður menningarmálaráðherra. Menntahlutinn færist til Áslaugar Örnu.

Andrés spáir svo öðrum nýjum ráðherra, en það er Willum Þór Þórsson sem sest í sæti iðnaðar- og viðskiptaráðherra.

VINSTRI GRÆN DÓMSMÁL

Vinstri Græn verða áfram með þrjú ráðherrasæti en Andrés kemur með djarfa spá um flutning á ráðuneytum.

Hið umdeilda er ekki að Katrín Jakobsdóttir verði áfram forsætisráðherra. Það virðist vera í takt við umræðuna.

Það er hins vegar að Svandís Svavarsdóttir fái dómsmálaráðuneytið. Það ráðuneyti hefur verið í höndum sjálfstæðismanna oftar en ekki. Af síðustu níu ráðherrum síðan árið 1991 hafa sjö verið sjálfstæðismenn. Þess ber að geta að á árunum 2011 til 2017 var ekki opinbert dómsmálaráðuneyti, en innanríkisráðuneytið fór með málefni dómsmála þegar sameining ráðuneyta varð. Það var endurvakið árið 2017 og Sigríður Andersen skipuð ráðherra. Hún sagði svo af sér í kjölfar Landsréttarmálsins.

Ekki missa af...