Óvissa í garð umhvefisráðherra – „Þessar hrókeringar eru ekki alveg nógu góðar“

Viðbrögð umhverfisverndarsinna við nýjum stjórnarsáttmála eru mismunandi. Þrátt fyrir loforð um að loftslagsmál eiga að vera í forgangi þá er lítið sagt um hvernig það á að verða svo. Umhverfis- og náttúruverndarmálum er skipt upp á milli ráðuneyta.

Guðlaugur Þór Þórðarson var valinn umhverfisráðherra. Sjálfstæðisflokkurinn skoraði mjög lágt í einkunnagjöf Ungra umhverfissinna fyrir Alþingiskosningar og því vekur það athygli að sá flokkur fái ráðuneyti umhverfismála. Einnig vekur það athygli að orkumál verða í sama ráðuneyti.

24 sló á þráðinn til samtaka í þágu umhverfis- og náttúruverndar á Íslandi og tók saman helstu viðbrögð við þessum fréttum.


ÓTTAST OF MIKIÐ TRAUST Á LAUSNIR MARKAÐARINS

„Guðlaugur Þór er auðvitað að taka við umhverfisráðuneytinu á mjög krítískum tímapunkti. Umhverfisráðuneytið er mikilvægasta ráðuneytið núna þar sem það veltur allt á hvernig og hversu hratt við tökumst á við loftslagsmálin,“ segir Auður Alfa Ólafsdóttir, fulltrúi í Loftslagsráði. Hún er einnig sérfræðingur í umhverfis- og neytendamálum hjá ASÍ. „Það er því gríðarleg pressa á Guðlaugi sem ég vona að hann standi undir og ég óska honum bara góðs gengis í þeim risastóru verkefnum sem þarf að ráðast í.“

Auður Alfa Ólafsdóttir er bjartsýn á loforð ríkisstjórnar

Auður Alfa segir enn fremur að hafa þarf í huga að árangur næst ekki í umhverfismálum nema að öll ráðuneytin taki mið af loftslagsmálum í stjórnsýslu og stefnumótun.

Varðandi einkunnagjöf Sjálfstæðisflokks í aðdraganda kosninga segir Auður Alfa flokkinn hingað til ekki hafa þekkst fyrir að gera umhverfismálum hátt undir höfði.

„Kannski hefur þessi einkunnagjöf orðið til þess að ýta við þeim. Vonandi eru þau bara búin að átta sig á að aðgerðir í loftslagsmálum eru grundvöllur áframhaldandi velferðar, lífsgæða og hagsældar. Það sem maður óttast helst er að það verði of mikið traust lagt á lausnir markaðarins en það hefur auðvitað sýnt sig að markaðurinn er ófær um að taka á þessum málum einn og sér.“

Hún segir ofurtrú á markaðinn vera stóra ástæðu þess að staðan er eins og hún er í dag. Það þarf fleiri og víðtækari lausnir en þær sem markaðurinn býður upp á.

„Ég ætla að leyfa mér að vera vongóð um að ríkisstjórninni sé alvara með þessar áherslur,“ segir Auður Alfa einnig, en í sáttmálanum segir að ríkisstjórnin ætli að setja loftslagsmál í forgang.

„Það lofar góðu að loftslagsmálunum sé gert hátt undir höfði í stjórnarsáttmálanum en síðan eigum við eftir að sjá hvort efndir fylgi orðum. Það er mikilvægt að hafa metnaðarfull markmið og það er jákvætt að sjá að ríkisstjórnin ætli að setja sér markmið um 55% samdrátt í losun.“

Hún segist vona að jafn mikil vinna verður sett í framkvæmd aðgerða og markmiðasetningu og skýrslugerð. Staðan væri önnur í loftslagsmálum ef það hefði verið gert á síðasta kjörtímabili.

„Í sáttmálanum er talað um að réttlát umskipti verði leiðarljós í yfirstandandi umbreytingum sem er mjög mikilvægt og í raun forsenda þess að samstaða náist um aðgerðir í loftslagsmálum,“ segir hún í lokin. „Það hlýtur að þýða einhverja stefnubreytingu í aðgerðum í loftslagsmálum en aðgerðir ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum hafa hingað til ekki verið í anda réttlátra umskipta.“


KLOFINN Á MILLI NÁTTÚRUVERNDAR OG ORKUMÁLA

„Hann hefur ekki látið neitt til sín taka í umhverfisvernd, allavega ekki svo ég hafi séð til,“ segir Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar um Guðlaug. „Hann er autt blað þannig að við verðum bara að sjá hvað hann hefur að gefa.“

Sjálfstæðisflokkurinn fékk einungis 21 stig af 100 mögulegum í einkunnagjöf Ungra umhverfissinna fyrir Alþingiskosningar. Er hægt að treysta þeim fyrir ráðuneytinu?

„Ekki ef þau ætla að halda þeirri stefnu sem var yfirlýst fyrir kosningar, eða ef ráðherra á að vera klofinn á milli náttúruverndar og orkumála.“

Auður segir jákvæða hluti að finna í sáttmálanum. Það séu þó nokkrar breytingar sem vekja athygli.

Skipting málefna á milli ráðuneyta er önnur saga að mati Auðar. „Okkur líst illa á breytingu stjórnsýslu umhverfismála. Ef náttúruvernd og orkumál eru í sama ráðuneyti endar það þannig að náttúruvernd mun ekki eiga sér neinn talsmann í ríkisstjórn.“

Aðrar breytingar í stjórnarsáttmálanum eru að skógrækt, landgræðsla og endurheimt votlendis verða á borði landbúnaðarráðuneytis.

Sjá einnig: Landvernd lýsir yfir neyðarástandi

„Þessar hrókeringar eru ekki alveg nógu góðar en það er gott að forsætisráðuneytið ætli að taka meira á loftslagsmálum,“ segir Auður. „En það þýðir líka að umhverfisráðherra verði meira í orkumálunum.“

Umhverfisvernd var ábótavant í mörgum málum á síðasta kjörtímabili.

„Það átti að bæta stjórnsýslu náttúruverndar með þjóðgarða, það gekk ekki eftir. Það voru markmið um verndun hálendisins með hálendisþjóðgarði sem flestir voru sammála um, en það gekk ekki eftir.“

Auður bætir þó við að það sé jákvætt að finna í sáttmálanum. „Það er jákvætt að Ísland ætli að setja sér sjálfstætt markmið um 55% samdrátt á losun á beinni ábyrð Íslands fyrir 2030.“


GULLIÐ TÆKIFÆRI AÐ NÚTÍMAVÆÐA SJÁVARÚTVEGSRÁÐUNEYTIÐ

Árni segir gullið tækifæri til að nútímavæða sjávarútvegsráðuneytið.

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, tekur í sama streng í samtali við 24. „Það segir hins vegar ekkert um hvenær það verk verður hafið eða hvernig,“ segir hann.

Honum lýst vel á að hafa reynslumikinn mann eins og Guðlaug Þór sem ráðherra. Svandís Svavarsdóttir geti einnig gert marktækar breytingar sem sjávarútvegsráðherra.

„Ég held að Svandís geti gert mikið gagn sem sjávarútvegsráðherra ef hún færir þetta ráðuneyti til nútíðar í umhverfismálum,“ heldur Árni áfram. „Það hefur um áratugaskeið lagst gegn umhverfismálum. Verið á móti þátttöku Íslendinga í alþjóðlegum samningaviðræðum.“

Hann segir það sérkennilegt að fiskveiðiþjóð eins og Ísland hafi ekki neitt að segja um verndun hafsins í stjórnarsáttmála.

„Það er ný staða með hana þarna til að taka umhverfismálin. Hún getur tekið forystu með utanríkisráðherra og nýjum umhverfisráðherra í verndun hafsins. Þarna er gullið tækifæri til þess.“

Ekki missa af...