Ómerkilegt pakk á Alþingi lýgur um bætan hag eldri borgara

Ómerkilegt pakk.

Hver og einn einasti stjórnarþingmaður sem tók þátt í eldhússdagsumræðunni á dögunum kaus að ljúga og blekkja – algjörlega vísvitandi – ef ekki vísvitandi þá af alvarlegri vanþekkingu á málaflokknum.

**********

Stór orð?

Hverju var logið og um hvað snerust lygarnar?

Að hækkun frítekjumarks atvinnutekna eldri borgara úr 100 í 200 þúsund myndi stórbæta hag eldri borgara.

Það slagar hátt í að vera 100% lygi!

**********

Eldri borgarar eru um 45 þúsund í landinu.

Eðli málsins samkvæmt eru fáir þeirra enn að vinna.

Fáeinir taka engan ellilífeyri vegna sterkrar stöðu sinnar fjárhagslega.

Einhverjir hafa frestað töku ellilífeyris  til sjötugs.

Margir orðnir slitnir og lúnir.

Eitthvað enn á tanknum hjá sumum.

Blekkingarútspil ríkisstjórnarinnar  gæti komið sér vel fyrir um 1500 eldri borgara sem enn eru að vinna og þéna þá yfir 100 þúsund á mánuði.

Aðra ekki.

1500 manns af 45 þúsund manna hópi.

Það eru rétt rúm 3% af hópnum öllum.

Svo tala þessir ómerkingar kinnroðalaust um kjarabætur til eldri borgara út á þetta smávægilega útspil ríkisstjórnarinnar sem kostar ríkissjóð algjöra smáaura í stóra samhenginu!

Hvað ætli þessar sömu mannleysur segðu ef skyndilega væri ákveðið að 3% þingmanna ættu að fá kjarabætur en hin 97% ekkert?

Er ekki hætt við að þá ræki þetta fólk upp ramakvein og færi mörgum ófögrum orðum um óréttlætið sem í því væri fólgið?

**********

Það er virkilega andlega slítandi að fjalla um svona loddaramennsku og ræfildóm kjörinna fulltrúa á Alþingi.

En maður lætur sig hafa það.

Þá fækkar kannski fyrr um eina af þessum blóðsugum á þjóðarlíkamanum sem sumt fólk álítur okkur eldri borgara vera.

Höfundur er kennari og fyrrverandi ritstjóri

Ekki missa af...