Nú má útskrifa sig sjálfur úr einangrun! Landspítalinn ræður ekki við álagið

„Vegna mikils álags á Covidgöngudeild Landspítalans og smitrakningarteymi Almannavarna vill sóttvarnalæknir koma því á framfæri að þeir sem hafa nú þegar klárað sjö daga einangrun, finna ekki fyrir einkennum vegna COVID-19 og hafa ekki náð sambandi við covid göngudeildina, geta og mega útskrifa sig sjálfir.“

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Almannavarnardeil Ríkislögreglustjóra. Þar segir einnig að ekki megi telja jákvætt heimapróf eða hraðpróf sem dag núll. Í tilkynningunni segir:

„Eins og áður er dagur núll dagurinn sem einstaklingur fer í PCR próf, sem er jákvætt.

Hvorki jákvætt heimapróf né hraðpróf má nota sem viðmið fyrir dag núll.

Eins og fram hefur komið tóku breyttar reglur í gildi í gær, um sóttkví fyrir þau sem hafa fengið örvunarskammt og eru útsettir fyrir COVID-19. Til áréttingar þá á þetta við alla sem eru í sóttkví, einnig þá sem eru á sama stað og smitaður einstaklingur.

Mikilvægt er að hafa í huga að þeir sem ekki þurfa að uppfylla fyrri skilyrði sóttkvíar þurfa samt sem áður að uppfylla ákveðin skilyrði (sjá einnig að neðan) og fara í PCR próf á fimmta degi frá útsetningardegi.

Áfram þurfum við að halda áfram að passa upp á viðkvæma hópa í samfélaginu og stunda einstaklingsbundnar sóttvarnir sem aldrei fyrr.

Breyttar reglur fela í sér að hlutaðeigandi er í raun áfram í sóttkví með eftirfarandi undantekningum:

• heimilt að sækja vinnu eða skóla og sækja sér nauðsynlega þjónustu, s.s. heilbrigðisþjónustu, fara í matvöruverslanir og lyfjabúðir og nota almenningssamgöngur.

• óheimilt að fara á mannamót eða staði þar sem fleiri en 20 koma saman, nema í því samhengi sem nefnt er hér að ofan.

• skylt að nota grímu í umgengni við alla nema þá sem teljast í nánum tengslum og gildir grímuskyldan einnig þótt hægt sé að halda tveggja metra fjarlægð.

• óheimilt að heimsækja heilbrigðisstofnanir, þar með talin hjúkrunarheimili, nema með sérstöku leyfi viðkomandi stofnunar.

• skylt að forðast umgengni við viðkvæma einstaklinga sem eru í aukinni hættu á alvarlegum veikindum ef þeir smitast af Covid-19.“

Ekki missa af...