Nú getum við slökkt á fjandans kláðanum

Um aldamótin 2000 fékk 38 ára gömul bandarísk kona sársaukafullan sjúkdóm sem stafar af því að herpesveira leggst á sjóntaugina. Til allrar lukku tókst hratt og vel að vinna bug á veirunni og sársaukinn hvarf. En þá kom kláðinn.

Dag og nótt klæjaði konuna óstjórnlega í hársverðinum hægra megin og til að laga ástandið klóraði hún sig til blóðs. Eftir að hafa klórað meira og minna án afláts í heilt ár var koddinn þó ekki rauður af blóði eins og venjulega þegar hún vaknaði að morgni – hann var grænn.

Þetta er brot úr grein sem finna má í heild sinni á vef Lifandi vísinda.

Læknirinn Anne Louise Oaklander á bráðadeild Harvard-háskólasjúkrahússins í Boston varð verulega undrandi þegar hún sá að konan hafði náð að klóra sig í gegnum höfuðkúpuna og inn að heila.

Oaklander furðaði sig á því að sjúklingurinn hefði getað skaddað sig svona alvarlega án þess að sársaukinn stöðvaði klórið. Til að fá svar við þeirri spurningu skoðaði hún taugarnar í höfuðhúðinni og þá kom í ljós að 96% tilfinningatauga á kláðasvæðinu höfðu eyðilagst. Eina tilfinningin sem konan fann á þessu svæði var kláði.

Árið 2002 lýsti Oaklander uppgötvun sinni í vísindatímariti og greinin varð upphafið að nýrri viðurkenningu vísindamanna og lækna: Kláði og sársauki eru alveg aðskildar tilfinningar.

Nákvæmlega á þessu augnabliki klæjar um 8% af fólki á heimsvísu einhvers staðar á líkamanum, flestir finna fyrir kláða á handleggjum, fótum eða baki. Hjá einum af hverjum fimm verður kláðinn einhvern tíma langvinnur og varir án afláts í meira en mánuð.

Auk þess að vera pirrandi getur kláði leitt af sér svefnskort og þunglyndi og haft alveg jafn slæm áhrif á lífsgæði og sársauki. Á síðari árum hafa vísindamenn bætt í sarpinn nýjum áhöldum gegn kláða og meðal þeirra nýjustu eru genaskæri sem klippa á taugaboðin.

Genabreyttar mýs klæjar ekki

Erfðafræðingurinn Zhou-Feng Chen gat fyrstur manna slegið því alveg föstu árið 2007 að sársauki og kláði væru tvö aðskilin fyrirbrigði. Í rannsóknastofu sinni við Washingtonháskóla í BNA rannsakaði hann mýs, þannig stökkbreyttar að tiltekið prótín í mænunni virkaði ekki.

Prótínið GRPR sér til þess að taugaboð frá ákveðinni gerð tauga í húðinni komist alla leið til heilans. Í stökkbreyttu músunum náðu taugaboðin ekki lengra en til mænunnar og þetta hafði greinileg áhrif.

Þegar Chen olli músunum sársauka, t.d. með því að stinga þær með oddhvössu áhaldi neðan í fæturna, brugðust þær alveg eðlilega við og reyndu að forðast þessa sársaukafullu meðhöndlun. En þegar hann smurði á þær efnum sem almennt valda kláða, sýndu mýsnar engin viðbrögð.

Þar eð stökkbreyttu mýsnar fundu ekki fyrir kláða hljóta taugarnar sem skynja kláðann að vera einmitt þær sem nýta sér GRPR-prótínið í mænunni. En þar eð mýsnar fundu skýrt og greinilega fyrir sársauka, fær ekki staðist að sársaukaskynið nýti sömu taugabrautir og kláðaskynið.

Hæfnin til að finna sársauka og klæja er þannig ekki sama fyrirbrigðið.

Þótt boð um kláða og sársauka berist eftir mismunandi taugabrautum til heilans valda þau furðu líkum viðbrögðum þegar þau berast. Í báðum tilvikum er eins og hringt sé viðvörunarbjöllum sem virkja meira eða minna allan heilann. Þetta skilur kláða og sársauka frá öllum öðrum skynjunum okkar.

Renni maður t.d. fingrum yfir blautt gras skynja tilfinningataugar snertinguna og senda boð um það til skynjunarstöðva heilans. Eftir það gerist eiginlega ekki meira, nema ennisblöðin ákvarði einhver sérstök viðbrögð.

En komist höndin í snertingu við brenninetlu í grasinu virkjast kláðaskyntaugar og þegar boð þeirra berast til heilans kemur það af stað miklum viðbrögðum.

Skynstöðvar heilans taka við boðunum en áður en þau berast áfram til ennisblaðanna hafa kláðataugarnar áhrif á aðrar heilastöðvar með þeim afleiðingum að vellíðan minnkar en streita vex og við finnum eðlislæga þörf til að klóra okkur.

Ekki missa af...