Notar áfram grímu og opnar sig um ákvörðun stjórnvalda: Gríman gæti snúið aftur

„Ég hugsa að ég muni áfram nota grímu ef ég er í þrengslum.“

Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir í samtali við 24 – Þínar fréttir, í ljósi nýjustu vendinga í sóttvarnaraðgerðum en grímuskylda var lögð niður með öllu á miðnætti. Grímuskyldan var sett á í lok júlí í fyrra. Öllum takmörkunum var aflétt þann 25. júní síðastliðinn en mánuði síðar voru takmarkanir hertar og grímuskylda sett á.

Margir fagna eflaust þessari ákvörðun stjórnvalda, en gríman hefur hingað til verið skyldug í almenningssamgöngum og á sitjandi viðburðum þar sem ekki er hægt að tryggja eins metra fjarlægð á milli fólks.


NOTAR GRÍMUNA ÁFRAM

Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, upplýsir í samtali við 24 að hann ætli enn um sinn að halda í sínar grímur.

„Ég hugsa að ég muni áfram nota grímu ef ég er í þrengslum. Þá þar sem ég er innan um fólk sem ég þekki ekki og ekki hægt að halda eins metra fjarlægð eða ef það er jafnvel illa loftræst.“

Tillögurnar voru þó í samræmi við það sem hann mælti með. „Ég kom með þrjár tillögur með þrem mismunandi kostum og þetta rúmast vel innan þeirra.“

Að mati Þórólfs er ómögulegt að fullyrða á þessum tímapunkti hvort um rétta ákvörðun sé að ræða, að veita þjóðinni leyfi að fella grímuna. Óhjákvæmilegt sé að taka með í þá útreikninga forsöguna og ýmsar aðrar breytur. Æðstu ráðamenn yrðu „bara að finna það hjá sér.“

SETUR UPP GRÍNGRÍMUR

„Ég er með margar og skipti reglulega út,“ svarar Þórólfur aðspurður hvort sérstök gríma sé uppáhaldi og bætir við:

„Ég er samt með ýmsar tegundir af gríngrímum sem ég nota heima hjá mér þegar það er stuð! Eini gallinn er að þær grímur eru ekkert sérstaklega góðar en þær geta verið skemmtilegar.“


GRÍMAN GÆTI SNÚIÐ AFTUR

Það er spurning hvað grímuþreyttir Íslendingar geta gert við þær fjölnota grímur sem verða minna notaðar frá og með deginum í dag.

„Ef þær eru fjölnota þá er hægt að nota þær áfram með þvotti,“ segir Þórólfur. „Það er hægt að eiga þær lengi ef það koma upp aðstæður þar sem þarf að nota þær, það gæti komið grímuskylda aftur, ef eitthvað breytist, ef það kemur slæmt afbrigði sem setur okkur í verri stöðu.“

EÐLILEGT AÐ SKIPTA UM SKOÐUN

Þórólfur hefur sjálfur oft talað um mikilvægi gríma í aðgerðum. Þegar faraldurinn var rétt að byrja var hann þeirrar skoðunar að grímur þjónuðu ekki miklum tilgangi fyrir almenning.

„Jafnvel voru vísbendingar um að þær veittu falskt öryggi. Síðan komu bara rannsóknir og niðurstöður að grímurnar væri gagnlegar fyrir almenning í ákveðnum aðstæðum. Það myndi teljast skrýtið ef maður hefti sig bara við eina skoðun í staðinn fyrir að skoða staðreyndir og rannsóknir og taka ákvörðun út frá þeim.“

Ekki missa af...