Myrti fyrrverandi eiginkonu sína en fékk lögmannsréttindin að nýju

Árið 1967 myrti lögmaðurinn Þorvaldur Ari Arason fyrrverandi eiginkonu sína, Hjördísi Úllu Vilhelmsdóttur, á hrottafenginn hátt. Stakk hann hana margsinnis með eldhúshníf á heimili hennar í vitna viðurvist. Þrettán árum síðar hafði hann afplánað sinn dóm, fengið uppreist æru og fékk að flytja mál fyrir Hæstarétti að nýju. Saga Þorvaldar hefur verið sett í samhengi við mál lögmannsins Atla Helgasonar sem í tvígang hefur reynt að fá lögmannsréttindi sín eftir afplánun fyrir morð.

Rétt er að vara lesendur við því að lýsingar hér að neðan geta valdið óhug.


Klukkan rúmlega níu að morgni laugardagsins 7. janúar árið 1967 varð eldri kona vör við mikinn skarkala í húsi sínu. Hún var íbúi á efri hæðinni á Kvisthaga 25 í vesturbæ Reykjavíkur en hávaðinn kom af neðri hæðinni. Hávaðinn var slíkur að henni stóð ekki á sama og bankaði hjá nágrönnum sínum til að spyrja hverju sætti. Dyrnar voru ekki opnaðar en fyrir innan heyrðist rödd sem bað hana að kalla til lögreglu sem hún gerði.

Tveir lögregluþjónar komu á bíl og fundu Þorvald Ara Arason, þekktan lögmann, sitja á útidyratröppunum, augljóslega mjög drukkinn og var hann ataður í blóði. Hann var 38 ára gamall á þessum tíma og hafði margsinnis rætt við lögregluþjónana í tengslum við ýmis mál. Annar lögregluþjónninn spurði Þorvald hvað hann væri að gera og Þorvaldur svaraði rólegur: „Eiginlega ekkert, öllu er lokið.“

Lögregluþjónarnir báðu Þorvald að bíða rólegan á meðan þeir athuguðu hvað hefði skeð í húsinu og samþykkti hann það án mótmæla. Þegar þeir komu inn á neðri hæðinni blasti við þeim sjón líkt og úr svæsnustu hryllingsmynd.

Blóð var uppi um flestalla veggi íbúðarinnar og ljóst að mikil átök höfðu átt sér stað. Mesti blóðferillinn var í tveim forstofum íbúðarinnar. Þegar lögregluþjónarnir litu inn á baðherbergið fundu þeir mjög illa farið lík konu í baðkarinu. Þetta var Hjördís Úlla, fyrrverandi eiginkona Þorvaldar, og jafnaldra hans. Hún hafði verið stungin margsinnis með eggvopni, í andlitið, brjóstkassann, magann og á aðra staði líkamans. Hún hafði ekki verið myrt í baðkarinu heldur dregin þangað af Þorvaldi.

Þorvaldur og Hjördís voru ekki ein þegar ódæðið var framið og lögreglumennirnir fundu annað fólk fyrir í íbúðinni. Fullorðnar mæðgur, frænkur Þorvaldar sem dvöldu í einu herbergi voru vitni að þessu, sem og sex ára dóttir Þorvaldar og Hjördísar. Eldri frænkan hafði reynt að stöðva árásina og sjálf fengið skurð á hné. Hún var ekki talin í hættu en var engu að síður send á spítala.

Aðstoðarborgarlæknir mætti á svæðið og úrskurðaði Hjördísi látna á staðnum. Þorvaldur var handtekinn og færður til yfirheyrslu í Hegningarhúsinu við Skólavörðustíg. Mæðgurnar voru einnig yfirheyrðar sem vitni. Hafin var rannsókn og fannst þá morðvopnið, 20 til 25 sentimetra langur eldhúshnífur, mjög oddhvass.

Kvisthagi 25, Alþýðublaðið 8. janúar 1967

Kom með hnífinn með sér

Þorvaldur og Hjördís giftust árið 1953 og áttu saman fjögur börn. Eftir að þau skildu, um mánuði fyrir þennan örlagaríka dag, voru börnin hjá móður sinni. Þrír drengir þeirra, á aldrinum átta til tólf ára, voru farnir út þegar Þorvaldur bankaði upp á og vildi komast inn.

Þorvaldur hafði verið í samkvæmi kvöldið áður en farið heim til að sækja áfengisflösku. Þá náði hann einnig í eldhúshnífinn. Hann fór þá aftur í samkvæmið og drakk stíft. Klukkan 7.45 tók pantaði hann leigubíl að bakaríinu í Skjaldbreið en leigubíllinn var farinn þegar hann kom þaðan út. Þá fékk hann far með öðrum bíl að Kvisthaga. Þegar hann kom þangað vildi Hjördís ekki hleypa honum inn enda var hann mjög ölvaður.

Hann byrjaði þá að öskra og láta mjög dólgslega. Braut hann rúðu á útidyrahurðinni og setti hendina inn fyrir til að opna og sá heimilisfólk þá að hann var með hnífinn með sér. Þorvaldur var mjög æstur og reifst hátt við Hjördísi. Eftir það veittist hann að henni með hnífnum og frænkan reyndi að ganga á milli. Lauk árásinni með þessum voveiflega hætti.

Við yfirheyrslur viðurkenndi Þorvaldur að hafa komið með hnífinn með sér en neitaði hins vegar að hafa drepið Hjördísi að yfirlögðu ráði. Hann hafi ætlað að láta hana fá hnífinn til þess að vinna á honum sjálfum. Var hann dæmdur í gæsluvarðhald og látinn gangast undir geðrannsókn.

Lokuð réttarhöld

Rannsókn málsins stóð yfir fram á sumarið og í maí var hann metinn sakhæfur eftir geðrannsókn. Eftir það var ákæra á hendur honum birt og réttarhöldin undirbúin. Þann 13. september hófust réttarhöldin í Sakadómi Reykjavíkur og athygli vakti að þau voru lokuð almenningi, sem er harla óvenjulegt í morðmálum. Var það ekki að ósk Þórðar Björnssonar dómsforseta heldur bæði verjanda og saksóknara. Sagði verjandi það gert vegna viðkvæmrar stöðu vitna.

Þann 30. október var dómur kveðinn upp í málinu og var Þorvaldur fundinn sekur um að hafa ráðið Hjördísi bana. Hlaut hann sextán ára fangelsisdóm sem var með allra þyngstu dómum sem hafa fallið hér á landi eftir að dauðarefsing var afnumin. Að auki var hann sviptur lögmannsréttindum sínum og dæmdur til greiðslu sakarkostnaðar. Sá dómur var staðfestur í Hæstarétti 14. október ári síðar og hóf Þorvaldur afplánun í fangelsinu að Litla-Hrauni.

Þorvaldur afplánaði ekki þegjandi og hljóðalaust. Innan múra skrifaði hann greinar um ástand réttarkerfisins hér á landi sem honum fannst bagalegt. Betrun væri engin, litið væri á fangana sjálfa eins og svín og ekkert væri hugað að andlegri heilsu þeirra. Sjálfur sneri hann sér að listmunagerð, leirkeragerð og bókbandi. Hannaði hann til dæmis verk úr sígarettupökkum sem átti að túlka íslenska réttarkerfið.

DV 11. maí 1988

Umdeildur lögmaður

Árið 1975 var Þorvaldur kominn úr fangelsinu og á fjögurra ára skilorð. Um tíma vann hann verkamannavinnu og lærði bókasafnsfræði. Tveimur árum síðar fór hann aftur að starfa í tengslum við lögfræði og árið 1980 fékk hann full lögmannsréttindi að nýju eftir úrskurð Sakadóms Reykjavíkur. Það var á meðal síðustu embættisverka Kristjáns Eldjárns, forseta Íslands, að veita honum uppreist æru þann 3. júlí það ár.

Bæði Lögmannafélagið og dómsmálaráðuneytið veittu jákvæða umsögn fyrir því að Þorvaldur fengi réttindin að nýju en úrskurðurinn var þó ekki óumdeildur. Þórður Björnsson, þá ríkissaksóknari, fékk hann í hendur og kærði til Hæstaréttar. Um miðjan október staðfesti Hæstiréttur úrskurðinn og mánuði síðar flutti Þorvaldur mál fyrir sama rétti, tæpum fjórtán árum eftir að hann myrti fyrrverandi eiginkonu sína.

Þorvaldur var síður en svo lítið áberandi og óumdeildur í þjóðfélagsumræðunni síðustu árin og beitti sér á hinu pólitíska sviði. Árið 1986 var umræða um að vísa honum úr Lögmannafélaginu eftir að hann kallaði Jón Skaftason yfirborgarfógeta „keyptan kommúnista“ og árið 1990 var hann kærður fyrir fjárdrátt frá umbjóðanda sínum. Það sama ár vildi Þorvaldur á þing fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Norðurlandskjördæmi vestra en flokksforystan lagði ekki í prófkjör. Hann lést árið 1996.

Mál Atla Helgasonar

Mál Þorvaldar Ara hefur verið sett í samhengi við mál annars lögmanns, Atla Helgasonar, sem mikið hefur verið í umræðunni undanfarin ár. Atli var dæmdur fyrir morðið á Einari Erni Birgissyni, félaga sínum, sem framið var með hamri í Öskjuhlíðinni 8. nóvember árið 2000. Hann hlaut sextán ára fangelsisdóm og missti lögmannsréttindi sín en var kominn á Vernd níu árum eftir uppkvaðningu.

Árið 2014 greindi DV frá því að Atli væri hluthafi í lögmannsstofunni Versus og ári síðar fékk hann uppreist æru hjá forseta. Rétt eins og Þorvaldur vildi hann fá réttindin aftur og sótti um þau árið 2016. Þegar taka átti málið fyrir í Héraðsdómi Reykjavíkur hætti hann hins vegar snögglega við og sagði að starfsréttindi sín væru minna virði en þjáningar aðstandanda Einars. En þá hafði Lögmannafélagið lagst gegn því að Atli fengi réttindin að nýju.

Eftir að barnaníðingurinn Róbert Downey fékk sín lögmannsréttindi endurheimt árið 2017 ákvað Atli að sækja um á nýjan leik. Í máli Downeys hafði komið fram að umsögn Lögmannafélagins væri óþörf ef félagið hefði ekki komið beint að sviptingu. Vorið 2018 fékk Atli því réttindin samþykkt fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þegar málið kom til Landsréttar var umsókninni hins vegar synjað í ljósi þess að Atli hafði orðið gjaldþrota og ekki áunnið sér traust sem lögmenn verða að njóta.

Hver leynist undir brúnni?

Hver leynist undir brúnni?

Engar hryllingssögur

Birtu bara bréfin Drífa

Lífið í miðjunni

Ekki missa af...