Mynd dagsins: Þau virtust ekki merkileg en svo rak Þorleifur augun í hvítan límmiða sem á stóð K.J

„Þessi sundgleraugu virðast við fyrstu sýn ekki svo merkileg. Þau eru blá með speglagleri og á þeim hanga á sitthvorri hlið eyrnatappar. En þegar betur er að gáð þá eiga þau sér merkilega sögu …“

Mynd dagsins birti Vernharð Þorleifsson fasteignasali, leikari og fyrrum júdókappi á Facebook-síðu sinni. Myndin er af Þorleifi, föður Vernharðs, þar sem hann skartar forláta bláum sundgleraugum og tengjast einræðisherra Norður-Kóreu, Kim Jong-un.

Vernharð gaf 24 góðfúslegt leyfi til að birta myndina og sagði í stuttu skeyti til blaðamanns að myndbirtingin og frásögnin væri samþykkt af öllum hluteigandi nema Kim Jong-un! Við skulum gefa Vernharð orðið um hvernig Þorleifur komst yfir hin dularfullu en eigulegu bláu sundgleraugu. Vernharð segir:

„Faðir minn er víðförull maður. Hann hefur ferðast um hverskyns krummaskuð með hópa af fólki. Hann hefur orð á sér fyrir að sveipa þessi krummaskuð ævintýraljóma með töfrandi frásögnum um sögu þeirra og menningu enda sagnfræðingur að mennt.

Í þessum ferðum hafa ótrúlegar tilviljanir átt sér stað en ég hef sérstakt dálæti á einni þeirra.

Pabbi á sem sagt og rekur litla ferðaskrifstofu sem heitir Söguferðir. Hann sérhæfir sig í óhefðbundnum ferðum ef miðað er við aðrar ferðaskrifstofur og er yfirleitt fararstjóri sjálfur. Áfangastaðir eru td. Hvíta Rússland, Búlgaría, Pólland, Lítháen, Albanía, Kína og Norður-Kórea.

Við feðgarnir hittumst í morgun og fórum í nýárs sjósund í Nauthólsvíkinni. Pabbi er talsvert vanari sjónum en ég enda hefur hann bæði stundað sjósundið nokkuð reglulega seinustu misseri en það sem meira er þá var hann á togara í 3 vikur sumarið 1973.

Þetta forskot nýtist honum auðvitað vel þegar kemur að undirbúning fyrir sjósundið. Í morgun mætti hann með sjósundsokka, sjósundskó, sjósundhanska, sjósundhettu, sundlífbelg og til að toppa þetta allt saman, sundgleraugu.

Þessi sundgleraugu virðast við fyrstu sýn ekki svo merkileg. Þau eru blá með speglagleri og á þeim hanga á sitthvorri hlið eyrnatappar. En þegar betur er að gáð þá eiga þau sér merkilega sögu, rétt eins og krummaskuðin sem ég gat hér að ofan.

Þannig er mál með vexti að haustið 2015 fór pabbi með vænan hóp af forvitringum til Norður-Kóreu í menningarferð með góðfúslegri blessun Vinafélags Íslands og Norður-Kóreu. Um miðbik ferðar gafst íslensku ferðalöngunum kostur á að baða sig í himneskri sundlaug sem starfrækt var á hótelinu.

Nú er það alls ekki svo að allar sundlaugar í Norður-Kóreu séu himneskar, síður en svo, en þær sem guðdómlegi leiðtoginn Kim Jong-un hefur hugsanlega baðað sig í eru það að sjálfsögðu.

Faðir minn ákvað að grípa þessa óvæntu gæs og skráði sig í sundferðina en þar sem hann hafði ekki gert ráð fyrir þessu tækifæri áður en lagt var í ferðalagið hafði honum láðst að pakka sundgleraugum.

Það er ekki hlaupið að því að verða sér út um góð sundgleraugu með skömmum fyrirvara í Norður-Kóreu og pabbi ákvað því að tilkynna í afgreiðslunni að hann hefði gleymt sundgleraugunum sínum seinast þegar hann baðaði sig í himnesku lauginni sem um ræðir.

Eftir talsverða leit í „týnt og fundið“ körfunni fann pabbi gleraugu sem honum leist vel á og ákvað að þetta væru vissulega gleraugun sem hann hafði „týnt“.

Hann tók strax ástfóstri við gleraugun enda voru þau (og eru) ekki bara glæsileg á að líta heldur tók hann eftir því að bæði sá hann betur með þeim heldur en öðrum gleraugum og þegar hann setti eyrnatappana í eyrun heyrði hann þögn sannleikans.

Þar sem faðir minn er lítið fyrir að gaspra þá hélt hann þessu fyrir sig lengi vel enda hélt hann að hugsanlega væri þetta ímyndunaraflið að hlaupa með hann í gönur.

Það var ekki fyrr en mörgum mánuðum eftir heimkomu að hann sat í stofunni heima hjá sér og var að dást að gleraugunum að hann rak augun í hvítan límmiða á teygjunni sem á stóð „K.J.“.

Uppúr því fór hann að kanna málið betur og vissulega tók það ekki langan tíma fyrir Google að grafa upp fréttir af dauðaleit hins himneska leiðtoga að sundgleraugunum sínum sem staðið hafði yfir í talsverðan tíma.

Meðfylgjandi eru myndir þessu til sönnunar, eða svona allt að því.“

Ekki missa af...