Mynd dagsins: Í augsýn heimsleiðtoga

Þjóðarleiðtogar heims hafa eytt síðustu vikunni saman ásamt fylgdarliðum sínum í Glasgow, Skotlandi. Tilgangurinn er ekki að drekka viskí og smakka haggis, þó eflaust margir nýti tækifærið í slíkar nautnir.

Tilefnið er nefnilega ráðstefna Sameinuðu Þjóðanna um Loftslagsvánna. Hún er haldin í ár í 26 skiptið, henni var frestað um ár vegna kórónaveirufaraldursins.

Ýmsar ljósmyndir eru til sýnis á ráðstefnunni. Í neðri röð við miðju er sigurmynd Írisar Lilju Jóhannsdóttur.

Margt fréttnæmt og áhugavert hefur gerst á ráðstefnunni. Fleiri en hundrað þjóðarleiðtogar hétu því að minnka skógarhögg um heim allan. Svipað var gert árið 2014 og eftir það loforð jókst skógarhögg. Enn er horft á aðgerðir í loftslagsmálum sem tækifæri til gróða. Markmið um að minnka kolanotkun á heimsvísu hafa verið staðfest en stærstu kolanotendur jarðar eru ekki með í þeim markmiðum.

Í stuttu máli er ekki búið að gera mikið. Aðgerðasinninn Greta Thunberg sagði „Þessi ráðstefna er alveg eins og síðustu ráðstefnur og það hefur ekki leitt okkur neitt áfram. Þau hafa ekki leitt okkur neitt áfram.“

Þess vegna er ljósmynd Írisar Lilju Jóhannsdóttur, Sæt Tortíming, mjög viðeigandi fyrir ástand heimsins. Mynd hennar er til sýnis í sýningarsal ráðstefnunnar og er því bókstaflega í augsýn heimsleiðtoga. Sú sem gæðir sér á jörðinni á ljósmyndinni er Laufey Írisar Guðmundsdóttir, móðir unga ljósmyndarans.

Andrés Ingi Jónsson, þingmaður Pírata sendi þessa mynd, þar sem hann er við sýningarvegginn.

Íris vann keppnina Ungt Umhverfisfréttafólk sem haldin var á vegum Landverndar í vor. Um er að ræða alþjóðlegt verkefni, Young Reporters for the Environment.

Eftir sigurinn á Íslandi var myndin send í ljósmyndunarkeppnina Climate Change Pix 2021. Þar hlaut myndin Ungmennaverðlaun. Meðfylgjandi heiður er að vera sýnd í sal ráðstefnunnar.

Íris Lilja getur verið stolt af sínu framtaki. Þó þjóðarleiðtogar séu ekki endilega að standa sig í stykkinu þá eru ungmenni heimsins meðvituð um ástand jarðarinnar.

mynd af írisi
Íris Lilja Jóhannsdóttir / Mynd: 24

Ekki missa af...