Movistar og Mjallhvít fer á barinn

Anna Kristjánsdóttir skrifar:

Dagbók frá Tenerife Dagur 822

Movistar heitir símafyrirtækið sem hún Mjallhvít mín er í viðskiptum við. Jú, það er rétt, Mjallhvít mín er bifreið, svokallaður gamalkvennajepplingur þótt hún sé fullvaxin, en hún er samt með áskrift hjá Movistar, enda er hún ágætlega tæknivædd, eitthvað annað en ég.

Í gærmorgun fékk ég mail frá símafyrirtækinu hvar stóð að netið í Mjallhvíti hefði verið aftengt í nokkra daga og hvort ekki þyrfti að endurræsa netið í henni. Ég vissi þegar upp á mig skömmina. Ég hafði nefnilega sjálf tekið netkubbinn úr henni þegar ég fór að kanna skýringuna á skynjaravandanum fyrir kælivatnið.

Mjallhvít í ábyrgð

Ég fór og kannaði málið og kubburinn var enn þar sem ég hafði lagt hann frá mér í Mjallhvíti fyrir fáeinum dögum. Það grátlegasta var samt það að við prófun á sambandinu sagði síminn minn mér hvaða skynjari hefði bilað í Mjallhvíti um síðustu helgi. Ég hefði betur skoðað símann minn sem gaf allar sömu upplýsingar og verkstæðið. En heimsóknin á verkstæðið kostaði ekki neitt, enda Mjallhvít í ábyrgð.

Þess má geta að ég er með hálfgert njósnaforrit í símanum mínum sem gerir mér það kleyft að fylgjast með Mjallhvíti, þegar hún fer út að djamma á nóttunni og hvert hún fer eða þegar hún fer yfir löglegan hraða þegar ég er ekki nærri. Þið megið samt ekki segja henni frá þessu.

Mjallhvít í Mercadona

Ég tengdi netkubbinn snarlega og allt virkaði vel á eftir. Að því loknu skrapp ég í Mercadona því það var farið að ganga á bjórbirgðirnar á Önnubar og var sá ferill Mjallhvítar rækilega skráður í rafrænu akstursdagbókina.

Ég þarf eiginlega að kenna henni að fara sjálf í búðina og sækja meiri bjór þegar fer að minnka í skápnum á Önnubar. Mercý var farin að læra þetta, en svo seldi ég hana og nú þarf ég að þjálfa Mjallhvíti í hinu sama.

Spá veðurguðanna

Það stefnir í rigningardaga í Paradís í dag og á morgun. Það átti reyndar að byrja að rigna í gær en veðurguðunum tókst að svíkja mig um þá rigningu, minnugir þess er þeir kláruðu rigningarkvóta Paradísar fyrir 2021 um miðjan janúar og síðan hefur vart rignt hérna. Því er alveg eins líklegt að ekkert verði úr rigningunni.

Núna segja veðurguðirnir að það séu 68% líkur á rigningu á milli klukkan 16 og 18 í dag.

Ég er ekki viss um að það standist. Allavega er ég ekki á leiðinni að kaupa mér regnkápu.

Eftir Önnu Kristjánsdóttur þjóðfélagsrýni

Ekki missa af...