Morðingjarnir björguðu jólunum

Jólalagaaðdáendur geta tekið gleði sína á ný. Ábreiða Morðingjanna og Þórunnar Antoníu á laginu Þú komst með jólin til mín er loksins komin á Spotify. Lagið er frá árinu 2010 en hefur ekki verið á neinum streymisveitum.

Ónefndur aðdáandi lagsins sendi skilaboð á samfélagsmiðla Morðingjanna og spurði hvers vegna lagið var ekki komið inn.

„Já, á sínum tíma þegar ég var að setja allt okkar efni inn á Spotify þá vissi ég ekki hvernig reglurnar væru með ábreiður,“ segir Haukur Viðar Alfreðsson, söngvari og gítarleikari Morðingjanna, í samtali við 24. „Þannig að ég nennti bara ekkert að pæla meira í því.“


TÓK ÞVÍ EKKI AÐ TAKA BARA EITT LAG

Ábreiða þeirra á lagi Björgvins Halldórssonar og Ruthar Reginalds vakti mikla athygli þegar hún kom út árið 2010. Á stafrænu jólaplötunni var einnig að finna frumsamda lagið Jólafeitabolla.

„Við vorum beðnir um að taka upp lag fyrir sumarsafnplötu og okkur fannst ekki taka því að fara í stúdíó og setja upp og taka svo bara upp eitt lag,“ segir Haukur Viðar. Hljómsvitin samdi Jólafeitabollu á innan við tveim vikum og gert það tilbúið til upptöku.

Þeir vildu taka annað jólalag og völdu slagara Bó og Ruthar, Þú komst með jólin til mín.

„Ég man ekki af hverju við hringdum í Þórunni Antoníu. Ég hafði tekið langt opnuviðtal við hana þegar ég var blaðamaður á Monitor og mér fannst hún bara svo hress og skemmtileg og frábær söngkona.“

Þórunn var til í verkið og úr varð lagið.


AÐALLEGA GLEYMSKA

Lagið hefur ekki verið á streymisveitum öll þessi ár síðan og nokkrir aðdáendur höfðu forvitnast um málið við Hauk og aðra úr Morðingjunum.

„Fólk hefur spurt hvers vegna þetta er ekki þarna inni, það eru nokkrir sem hafa gert það annað slagið,“ segir Haukur. „Svo var þarna maður sem sendir okkur skilaboð um daginn og spurði bara hvað í ósköpunum væri í gangi. Þá mundi ég eftir þessu.“

Haukur segir það aðallega hafa verið gleymsku um að kenna að lagið væri ekki á veitum. „Ég talaði líka við Þórunni í fyrra, fyrir jól, um að setja lagið inn og hún var bara í góðu stuði. Svo gleymdist það bara.“

Aðdáandinn tók vitaskuld gleði sína, líkt og aðrir, þegar lagið var gert aðgengilegt. Íslendingar eiga stóran sarp af jólalögum frá hinum og þessum listamönnum en það er alltaf gaman þegar góð jólalög bætast við.

Haukur segir það gaman að jólalagatvenna Morðingjanna sé vel metin. „Ég hitti fólk um daginn sem sagði mér að Jólafeitabolla væri lagið þeirra. Ég man ekki alveg hvernig en það var alveg mjög rómantískt.“

Haukur rekur í dag auglýsingaskrifstofuna Cirkus ásamt öðrum. Hann er einnig meðstjórnandi hlaðvarpsins Besta Platan ásamt dr. Arnari Eggerti Thoroddsen og Baldri Ragnarssyni.

Ekki missa af...