Mögnuð breyting á innan við 20 árum

Dagur B. Eggertsson skrifar:

Á heimleið frá því magnaða landi Mexico. Það hefur farið ótrúlega hljótt en verið er að byggja á ótrúlegum árangri Íslands, Reykjavíkur og annarra íslenskra sveitarfélaga í forvörnum, hinu svokallaða íslenska módeli, í fjölmörgum borgum – og löndum – um allan heim.

Íslenska módelið fyrirmyndin

Allar fjörutíu og sex borgirnar í héraðinu Guanajuato sem telur alls sex milljónir manna voru nú að undirrita þátttöku en fimm höfðu farið af stað í tilraunaskyni árið 2019. Héraðsstjórinn er helsti hvatamaður þessa en óhætt er að segja að hann brenni fyrir málinu, og baráttu gegn glæpum – en hann segir seint og snemma að ekki muni duga að fjölga lögreglu og hermönnum á götunum – það þurfi að hugsa um að börn ánetjast ekki fíkn. Íslenska módelið varð fyrir valinu.

Hluti íslenska hópsins – Guanajuato í baksýn.

Guðni sló í gegn

Gríðarlegur fjöldi heimafólks sótti viðburðinn. Opnunin var að viðstöddum um 2000 manns, fyrir utan þá sem fylgdust með í streymi og á einni sjónvarpsstöðinni. Guðni forseti brilleraði í ávarpi á spænsku – en hann og ekki síður Ólafur Ragnar forveri hans hafa lagt málinu mikið lið.

Hinn magnaði árangur íslenska modelsins talar sínu máli. Reykjavík fór frá því að vera sú borg í Evrópu með mesta unglingadrykkju, reykingar og fikt við fíkniefni í að vera sú borg sem er með minnst af þessu á innan við tuttugu árum.

Ólafur Ragnar var ómetanlegur í uppbyggingu alþjóðlega hluta verkefnisins, setti á stofn forvarnardaginn og er sérstakur verndari verkefnisins. Hann var með frábært erindi á opnunardeginum einnig (náði ekki mynd).

Fundunum og ráðstefnunni var ótrúlega vel sinnt af fjölmiðlum.

Síðan rak hver stórfundurinn annan. Með hundruðum starfsfólks og grasrót sem mun drífa verkefnið áfram í heimabyggð, foreldrum, læknum, sálfræðingum og fleirum og fleirum. Borgarstjórarnir 46 voru allir mættir. Griðarlegur metnaður og kraftur virðist vera settur í innleiðingu en eiturlyfjaneysla og tengdir glæpir hvíla þungt á samfélaginu.

Óraunverulegt

Ég hef aldrei verið beðinn að sitja fyrir á jafn mörgum myndum og sjálfum einsog eftir erindi mín þessa daga. Tilfinningin að vera þátttakandi í þessu öllu var nánast óraunverulegt en upp úr stóð gríðarlegt stolt en einnig ábyrgð gagnvart þeim stuðningi sem veita þarf fram íslenskum samstarfsaðilum til að þetta gangi sem best.

Gat ekki hætt aæ hugsa um hvað mér fannst borgarstjóri Guanajuato líkur Gumma Ben. Fengum alls staðar frábærar móttökur.

Þau eiga heiðurinn

Heiðurinn að þessu öllu saman eiga Rannsóknir og greining, félagsvísindafólk og frumkvöðlar undir forystu Ingu Dóru Sigfúsdóttur prófessors – þau eru ekki aðeins góðir fræðimenn heldur hafa einstakt lag á að vera í frábæru samstarfi við starfsfólk borgarinnar í hverfunum, skólunum, frístundastarfinu og velferðinni, auk grasrótarhópa, íþróttafélaga og listaskóla ofl ofl.  Því það er á vettvangi og í umhverfi barna sem árangurinn næst.

Um tilurðina á þessu og upphaf íslenska módelsins fjalla ég reyndar í einum kafla í nýju bókinni minni. Mögnuð saga sem ætti að lyfta miklu meira. Alþjóðlegur angi þessa verkefnis nefnist Planet Youth (www.planethyouth.org) og á þessar heimasíðu má kynna sér þetta allt miklu betur.

Takk fyrir mig Mexico!

Höfundur er borgarstjóri Reykjavíkur

Ekki missa af...