Minningarorð um Jón Sigurbjörnsson

Karl Ágúst Úlfsson skrifar:

Jón Sigurbjörnsson er fallinn frá.

Hann Nonni Sibb, þessi máttarstólpi og makalausi listamaður. Einn af þeim sem ég dáði mest þegar ég staulaðist inn í leikhúsið barn að aldri og sú aðdáun entist alla tíð okkar beggja. Nonni var sá sem sýndi reynslulausum og ráðvilltum leikara skilning og hlýju og var alltaf til í þau fíflalæti sem á þurfti að halda svo vinnudagurinn yrði bærilegur.

Við lékum saman í þónokkrum leiksýningum og leikstýrðum hvor öðrum. En hvert sem samband okkar var í það og það skiptið var hann alltaf sá sem ég leit upp til, dáðist að og vildi gera að fyrirmynd.

Ég hitti Jón fyrst sextán ára gamall í Róm. Hann var þar fararstjóri og ég einn af þeim sem treystu á þekkingu hans og kynnum af borginni eilífu. Og ekki brást hann mér fremur en öðrum. Ég skoðaði með honum Vadikanið, Pantheon, Trevi, Colosseum, Forum Romana, ég sá með honum Aídu í Caracalla og svo skoðuðum við Pompei og Capri þegar leiðin lá suður á bóginn. Og þvílíkur leiðsögumaður!  Ítalskan vafðist ekki fyrir honum, enda hafði hann menntað sig þar í landi, og unglingurinn mændi á hann bæði stoltur og svolítið öfundsjúkur.

Fáum árum seinna urðum við kollegar. Ég fékk að sitja í með honum vestur í Stykkishólm, en þaðan tókum við Baldur á Brjánslæk til þess að leika í Útlaganum í Hergilsey. Hann Ingjald bónda, ég fíflið son hans. Þetta er ógleymanleg ferð – við spjölluðum, við hlógum – og við sungum. Aðallega Jón auðvitað, það var hann sem hafði röddina og kunnáttuna, en úti í Hergilsey skemmti ég mér við að ganga upp að honum og raula fyrstu línurnar úr Hvað er svo glatt, og það brást ekki að hann tók undir og á endanum sungum við heilt erindi til enda, með eða án texta, oft sem trompet og básúna, en stundum sem sauðdrukknir Hafnarstúdentar.

Þegar heim var komið lékum við saman í fyrstu sýningunni minni hjá Leikfélagi Reykjavíkur, Undir álminum í Iðnó. Það var ómetanlegt að hafa Nonna í húsinu fyrir ungan og óöruggan leikara sem var að reyna að fóta sig.

Við urðum síðan samferða nokkrum sinnum til útlanda í leikferðir, meðal annars til Sofiu í Búlgaríu með Sölku Völku. Eins og alltaf reyndist Jón einstaklega skemmtilegur ferðafélagi í þeirri ferð. Hann þóttist aldrei vera mikill hagyrðingur, en í þessari ferð, eins og oft áður hrutu frá honum vísur sem okkur félögum hans þóttu óheyrilega skemmtilegar.

(Hér er rétt að skjóta inn stuttri söguskýringu: Skömmu áður en ferðin var farin var starfandi förðunarmeistari í Iðnó sem nefnd var Lilja. Hún hafði sérstakan talanda og þegar hún ávarpaði Jón Sigurbjörnsson sagði hún ævinlega „Jón Sébéson“. Þetta þótti auðvitað kostulegt og varð til þess að sumir af kollegum Jóns tömdu sér þetta ávarp.)

Þann tíma sem við dvöldum í Sofiu var mikil hitabylgja og þá daga sem við æfðum og sýndum í Leikhúsi Alþýðuhersins svitnuðum við öll meira en góðu hófi gegndi. Þegar við mættum til að leika fyrstu sýninguna á hátíðinni sem við tókum þátt í var hitinn síst minni en dagana á undan og svitinn ekki heldur. Þá varpaði Jón fram þessari stöku:

Kominn er í kófið strax.

kannski ekki nema von.

Allt hér bráðnar eins og vax,

einnig Nonni Sébéson.

Allar minningar sem ég á um Nonna Sébéson eru góðar, fallegar og hjartavermandi. Farðu í friði, góði og fallegi félagi, og hafðu þakkir fyrir allt sem þú gafst mér.

Fjölskyldu og vinum votta ég dýpstu samúð.

Ekki missa af...