Minning um Kela

„Það fór þá svo. Minningargrein um kött. Hélt ekki að það myndi gerast. Keli eða Keli köttur eða Kelmundur Kattar, Köttur Kattar og svo stundum Kitty Magg dvaldi hjá okkar í 18 ár nánast upp á hár þegar hann var sendur í sína hinstu för síðdegis í dag.“

Þessi orð lætur Kristján Kristjánsson, umsjónarmaður Sprengisands falla á samfélagsmiðlinum Facebook. Daglega birtir 24 orð sem hinir ýmsu nafntoguðu Íslendingar láta falla. Kristján á orð dagsins að þessu sinni og er um að ræða hugljúfa frásögn um fráfallinn fjölskyldumeðlim.
Hann segir:

„Sennilega varð hann því 20 ára, nákvæmar upplýsingar um fæðingardag hans liggja ekki fyrir. Hann kom úr Kattholti, sagan segir að hann hafi þar stokkið upp á borð og troðið sér fram fyrir annan kött sem var til skoðunar.“

Keli, Keli Köttur, Kelmundur Kattar og stundum Kitty Magg. / Mynd: Kristján Kristjánsson

Blessunarlega ef satt er. Ég var frekar lítið hrifinn af því að fá gæludýr en einn daginn var hann bara kominn, móðir barnanna hafði gefið eftir og hann stóð á miðju stofugólfinu eins og lítið ljón, norskur skógarköttur og virkaði ógnarstór. Var þó auðvitað grannur og kröftugur undir þykkum feldi, það sást þegar þurfti að raka hann eitt árið.

Keli var tveir kettir í einum. Hann var blíðastur af öllum köttum innandyra, elskaði að láta strjúka sér og var eins og köttur í kennslubók, malaði stundarhátt og lyngdi aftur augunum þegar honum leið vel. Hann leyfði börnunum að toga í sig, hrista sig, kasta sér og guð má vita hvað ekki og hreyfði aldrei andmælum sama hvað á gekk. Kom alltaf niður á lappirnar þó stundum munaði litlu og lét sér fátt um finnast. Utan dyra var hann töffari með þykkan skráp og hélt sínu svæði af mikilli hörku.

Stórir hundar voru í uppáhaldi, hann sveiflaði loppunni framan í þá þannig að þeir komu oftast bara einu sinni inn á lóðina. Labradorinn í þarnæsta húsi fékk það óþvegið og tók eftir það á sig krók þegar hann fór framhjá húsinu. Risastór, silalegur hundur í öðru húsi var sérstakt viðfangsefni, kötturinn gerði sér far um að láta hann elta sig, hljóp upp tröppur, smeygði sér undir handrið þannig að hundurinn sem ekki var ýkja minnisgóður hljóp á handriðið og varð að játa sig sigraðan. Þá skokkaði kötturinn heim, kæruleysislegur með dúandi feldinn og nennti ekki einu sinni að horfa til baka. Ef hundarnir voru erfiðir stökk hann upp í tré og glotti út í annað.

Er það nokkuð óvenjulegt að vera ekkert hrifinn af læknum? / Mynd: Kristján Kristjánsson

Keli var enginn sérstakur vinur fugla. Þeir höfðu vit á að halda sig í öðrum görðum sem var gott því hann var ansi miskunarlaus á köflum, þófamjúkar hreyfingar þar sem hann smaug um í grasinu og ekkert heyrðist í bjöllunum á hálsólinni, heldur ekki þó ólarnar yrðu tvær og þrjár.

Ef hann var svangur gekk hann yfir andlitið á næsta manni þangað til skildist hver staðan var. Eitt barnið mátti ekki sitja yfir stærðfræði, þá kom hann eins og klukka og traðkaði á takkaborðinu á tölvunni en skipti sér ekkert af öðrum fögum. Hann elti börnin þegar þau báru út blöð, alltaf nokkrum húsum fyrir aftan þau en fylgdi þeim eftir langar leiðir. Lengi neitaði hann að drekka vatn nema að það kæmi úr sturtunni og þá bara ef hann sá það sjálfur renna, það þýddi ekkert að bjóða honum upp á gamalt sturtuvatn. Skógarköttur sem klifraði upp jólatré á eldingarhraða en hrapaði jafn hratt þegar efstu greinarnar gátu ekki haldið honum.

Honum var heldur ekkert um dýralækna, gróf klóna í handleggnum á einum þannig að sást í bein, þoldi ekki harkaleg handtök ókunnugra. Hingað og ekki lengra.

Við áttum sérstakt samband auðvitað, hvað annað, en hvað veit maður um svona kött nema að hann er eigin herra, fer eigin leiðir og fyrirlítur valdboð. Kannski var hann annar en við héldum, okkur fannst hann útreiknanlegur, vanafastur og heimakær þangað til það kom í ljós að hann laumaði sér gjarna inn hjá öðru fólki og þáði góðgerðir. Sat víst í fanginu á því og malaði eins og hann væri heima hjá sér. Okkur leið eins og við hefðum verið svikin og urðum afbrýðisöm. Eftir allt sem búið var að gera…

Keli lét hressilega vita af sér ef hann fann fyrir svengd. / Mynd: Kristján Kristjánsson

Keli varð gamall fyrir ekkert svo mjög löngu, hætti að fara út og hafði lent í slag þar sem klærnar fóru illa þegar hann bremsaði skarpt í malarstæði. Hann endaði ósköp hrumur og þurfti aðstoð við að matast næstum eins og manneskja. Hann sofnaði nokkuð sáttur að við teljum en helv. var það sárt að sjá á eftir honum, kettinum sem ég helst vildi ekki fá fyrir 18 árum. Hvenær grætur maður kött og hvenær grætur maður ekki kött? Það er ekki lengur nein spurning.

Ekki missa af...