Megi minning hennar lifa

Dagur 871 – Nú árið er liðið

Þetta voru skrýtin áramót. Allt á kafi í smitum á Íslandi og fjöldi fólks búinn að loka sig af til að smitast ekki af kórónuveirunni. Apótekin græddu á tá og fingri á öllum sjálfsprófunum sem víða var krafist til að fólk fengi að taka þátt í áramótateiti. Sjálf hélt ég mig til hlés á gamlársdag eða þar til ég fór í lítið áramótaboð til sonar míns, en við vorum einungis sjö saman, þar af fjögur börn sonar míns.

Það er alveg ljóst að baráttan gegn óværunni er töpuð, en kosturinn er þó sá að mikill meirihluti þjóðarinnar er bólusettur auk þess sem nýjasta veiruafbrigðið virðist vera vægara en eldri afbrigði.

SKRAPP TIL ÍSLANDS

Í gær kvartaði ein yfir því að ég hefði ekkert gefið í skyn undir rós um tengsl okkar. Jú, það er rétt, en þar sem ekkert náið hefur enn gerst var ég ekki viss um að ég mætti segja frá því.

Best að segja frá því nú að þegar ég skrapp til Íslands kynntist ég einni íslenskri, en hún býr erlendis og því erfitt um vik að rækta upp samband, en það mun vonandi lagast fljótlega.

APRIL ER LÁTIN

April Ashley er látin. Hún var fædd 29 apríl 1935 í Liverpool. Hún ólst upp í sárustu fátækt, gekk í borgaralega hluta sjóhersins (merchant navy) árið 1951 og rekin þaðan eftir tilraun til sjálfsvígs.

Eftir það tók hún þátt í hinum ýmsu sviðslistum um margra ára skeið, meðal annars með Amöndu Lear. Hún lauk aðgerð til leiðréttingar á kyni hjá Doctor Georges Burou í Casablanca í Marokkó árið 1960. Saga hennar hefur tvisvar komið út. Fyrri útgáfan, „April Ashleys Odyssey“ kom út 1982, en síðar ritaði hún sjálf sögu sína „The First Lady“.

April Ashley fékk MBE orðuna árið 2012 fyrir baráttu sína fyrir réttindum transfólks. Það gerði hún svo sannarlega þar á meðal fyrir mig sem ungling en ég heyrði fyrst af henni þegar ég var ca 16 ára. Síðar vorum við vinir á Facebook, en hún notfærði sér þann miðil nánast frá upphafi, en hún var hætt virkni sinni þar.

April Ashley lest á þriðja í jólum, 27. desember 2021. Megi minning hennar lifa.

Anna Kristjánsdóttir er vélstjóri og þjóðfélagsrýnir og er búsett á Tenerefe

Ekki missa af...