Matthildur bjargaði Zóla úr heljargreipum hatara: „Við erum ofsalega ástfangin“

„Ég kýs ekki á líta á söguna hans Zóla sem harmsögu, heldur vil ég sjá þetta sem jákvæða sögu með fallegum endi fyrir köttinn. Hann er kominn í nýtt og betra heimili. Við erum ofsalega ástfangin og þetta hefur gengið ótrúlega vel.“

Þetta segir Matthildur Kristmannsdóttir í samtali við 24 en færsla hennar innan Facebook-hópsins Kattarsamfélagið hefur látið engan ósnortinn. Þar kynnir hún til leiks Zóla litla, þrífættan kettling, sem hún hefur tekið að sér. Matthildur segir að Zóli hafi verið í eigu kattahatara sem limlesti hann.

Kötturinn Zóli.

Fyrsta nóttin á nýja heimilinu reyndist þó taka á taugarnar hjá bæði Matthildi og Zóla.  „Hann grét og grét og grét alla fyrstu nóttina. Ég held að hann hafi verið hræddur og ekki skilið almennilega aðstæður. Guð má vita hvað hann hafði upplifað áður á gamla heimili sínu, en hlutir breyttust síðan snöggt á öðrum sólarhringnum,“ lýsir Matthildur.

En í dag grætur Zóli ekki lengur. Hann malar. „Næstu nóttina átti ég von á að hann myndi gráta enn meira en svo var hann fljótlega farinn að mala eins og vél. Eftir að ég fór að gefa honum að borða hefur virkilega tekið við breyting á honum. Hann nærist vel, hann fær mikið dekur frá mér og þessa undanförnu viku hefur hann verið duglegur að sofa og sofa,“ segir Matthildur.

Því miður voru systkini Zóla ekki eins heppin og hann. Matthildur segist ekki hafa almennilegan skilning á því hvað fór fram en útilokar hún ekki að um heiftarlega limlestingu hafi verið að ræða.

„Þetta er auðvitað hryllingur og ótrúlegt að einhver komi svona fram við lifandi dýr. Ekki veit ég hvort viðkomandi hafi verið með skóflu eða þannig slíkt, en þetta hefur verið algjör hörmung,“ segir Matthildur.

Hún er öllu vön þegar kemur að kattardýrum og átti sjálf slíkt í 11 ár, en þá hafi þurft að lóga kettinum þegar húsreglur breyttust í blokkinni þar sem hún bjó áður. Þetta hafi skilið eftir ákveðið tómarúm. Hún segist hins vegar hafa verið dugleg að líta eftir köttum fyrir aðra, en allt hafi smollið prýðilega saman þegar ljóst var að Zóla fór að líða vel í hennar umsjá.

„Síðan keypti ég handa honum rúm sem lítur út eins og tjald og honum líður þar mjög vel, virðist vera. Ég er ákaflega ástfangin af þessum ketti og hann virðist hafa tekið mig í sátt á móti, sem ég er afar þakklát fyrir.“

Ekki missa af...