Mahmoud frá Palestínu hefur búið í rúmt ár á Íslandi: Talar samt íslensku og vinnur sem hjúkrunarfræðingur

Mahmoud Abusaada vinnur sem hjúkrunarfræðingur á Droplaugarstöðum. Mahmoud er frá Palestínu en þar lærði hann hjúkrunarfræði í sex ár og vann við fagið í fimm ár á ýmsum sjúkrahúsum, bráðamóttöku, barnadeild og á lyflækningarsviði. Mahmoud hefur aðeins búið á Íslandi í rúmt ár og tjáir sig á íslensku.

Mahmoud Abusaada kom til Íslands í fyrra en hóf störf á Droplaugarstöðum í byrjun mars. Hann fékk starfið í gegnum samstarfsverkefni milli velferðarsviðs og mannauðs- og starfsumhverfissviðs Reykjavíkurborgar. Markmið verkefnisins er að aðstoða fólk sem hefur verið án atvinnu í lengri tíma að komast aftur í virkni og starf. Fyrsta mánuðinn aðstoðaði hann við sjúkraþjálfun en um mánuði síðar fékk hann hjúkrunarleyfi hér á landi og fékk þá vinnu á MND-deildinni sem hjúkrunarfræðingur.

„Ég vil byrja á að þakka öllum sem hafa hjálpað mér hér á Íslandi.“

Mahmoud hafði leitað vinnu sjálfur í um níu mánuði. Þrátt fyrir að hafa aðeins verið á Íslandi í rúmt ár talar hann góða íslensku. Mahmoud stundar íslenskunám við Háskóla Íslands og hefur náð góðum árangri. Hann segir erfitt að fá vinnu hér á landi án þess að kunna skil á íslensku.

„Ég lærði íslensku í fimm mánuði áður en ég fór að vinna hérna. Það er mjög erfitt en líka mjög mikilvægt að læra íslenskuna til að aðlagast samfélaginu. Í mínu starfi skiptir líka miklu máli að geta talað við samstarfsfólk og sjúklinga,“ segir Mahmoud og bætir við:

„Ég er búinn að læra mikið en langar að læra miklu meira og dreymir um að ljúka masters- og jafnvel doktorsnámi, á sviði skurð- eða bráðahjúkrunar.“

Aðspurður af hverju hjúkrunarfræði hafi orðið fyrir valinu svarar Mahmoud:

„Sem barn dreymdi mig um að verða læknir en það reyndist ekki mögulegt. Ég ákvað hins vegar að læra hjúkrun bæði því það var gott fyrir fjölskyldu mína og af því að mér líður vel þegar ég get hjálpað fólki. Ég gat hjálpað fólki mikið í heimalandi mínu og vona að ég geti gert það hérna líka.“

Ekki missa af...